mánudagur, mars 19, 2012
Feliz Compleaños
Við fundum sjarmerandi lítið hótel í þessum fallega bæ, Colonia, sem er á heimsminjaskrá Unesco. Það er fátt huggulegra en að ganga um tígulsteinslagðar göturnar og dást að rómantísku útliti húsanna. Svo var það auðvitað toppurinn að sitja á veitingastað við Rio de La Plata og fylgjast með gullfallegu sólarlagi. Eftir að Fríða María var sofnuð í kerrunni fórum við svo á annan veitingastað, í þetta sinn steikarstað og gæddum okkur á safaríkri steik, nammi namm. Og ég pantaði afmælisdesert fyrir Ásberg, svo hann fékk að blása á kerti um miðnætti, rétt þegar afmælisdagurinn hans var að byrja. Fríða María vaknaði aðeins þá og fékk að fylgjast með.
Daginn eftir blés Ásberg á kerti númer 2 og fékk gjöf og kort frá okkur mæðgunum. Við dóluðum okkur í sólinni og sundlauginni fram að hádegi og fórum svo á rauðvíns- og osta-smökkunarstað í hádeginu – þvílík hamingja.
Um kvöldið þegar við vorum komin aftur til Buenos Aires kom Fjóla barnapía í heimsókn og sá um Fríðu Maríu meðan við fórum á Osaka – flottasta sushi stað bæjarins. Og Ásberg fékk enn einn afmælisdesertinn og blés á 3ja kertið.
Næsta dag var komið að 3ja ára afmæli litlu skvísunnar, og hún fékk hvorki meira né minna en prinsessuköku og kórónu sem mamma hennar hafði haft mikið fyrir að búa til. Sú stutta var að vonum ánægð, og ekki síður ánægð þegar hún fékk að fara í Museo de los niños, eða krakkasafnið. Það gat hún leikið sér í hinum ýmsu hlutverkaleikjum, svo sem afgreitt á McDonalds, verið strætóbílstjóri, læknir eða sjónvarpsstjarna. Eftir 4 klukkutíma var hún ekki enn komin með nóg og við þurftum að múta henni með ís til að geta farið að borða. Þetta var ekki síður vel heppnaður afmælisdagur.
Nú er að líða að lokum á dvöl okkar hér í Buenos Aires. Við fljúgum til Ecuador á morgun. Við höfum tekið því rólega í dag, erum aðeins byrjuð að pakka og fórum með fötin okkar í þvott. Það var afar heitt í dag eins og nánast alla daga hérna, en þegar við fórum að sækja fötin kom rok og rigning. Við vorum svo sem ekkert að stressa okkur á því, settum bara regnslá yfir kerruna og teygðum okkur í regnhlífina. En þegar við vorum komin að þvottahúsinu fóru nokkrir gaurar að hrópa á okkur og benda upp í himininn en við skildum ekkert hvað þeir voru að segja og af hverju þeir væru að panikka svona – enginn er verri þó hann vökni örlítið. En allt í einu heyrðum við háværan dynk og sáum eitthvað sem dældaði þakið á bílnum rétt hjá – hvað gat það verið? Jú, haglél! Og engin smá haglél, stærstu kornin voru á við plómur þannig að við áttum fótum okkar fjör að launa. Karlinn í þvottahúsinu afgreiðir fötin alltaf í gegnum lúgu, en í ljósi aðstæðna bauð hann okkur inn í þvottahúsið. Við trúðum varla eigin augum, ég hef heyrt um svona haglél en aldrei séð hana fyrr. Við hefðum líklega rotast eða drepist hefðum við fengið einn svona hnullung í höfuðið. En þvottakarlinn hristi bara hausinn þegar ég var að furða mig á hvað þetta væri stórt, hann sagði að þetta væri ekkert svo stórt, það væri stórt þegar það væri á við epli, og svo lýsti hann stærðinni með höndunum!
http://www.buenosairesherald.com/article/95816/heavy-rains-hail-hit-ba-city-province
-
laugardagur, mars 17, 2012
Sunnudagsafvötnun
En hvað erum við svo búin að vera að gera samhliða allri þessari drykkju? Jú, fara út að borða og gæða okkur á dýrindis steikum, dilla mjöðmunum á salsastað, fara í skoðunarferðir um borgina og ýmislegt fleira. Og það besta er að Fríða María hefur fengið frí frá hífuðum foreldrunum stöku sinnum, þar sem við höfum verið svo heppin að fá pössun fyrir hana. Fríða María hefur verið hæstánægð með pössunarpíurnar þó að aðeins ein af þremur hafi talað íslensku. Um daginn þegar Isabel passaði hana meðan við fórum í skoðunarferð um borgina, sagði ég ”bless Fríða María” og dóttir mín rétt svo leit upp og svaraði ”chao” og hélt svo áfram að leika.
-
fimmtudagur, mars 08, 2012
Vínsmökkun
-
mánudagur, mars 05, 2012
Una cervesa por favor!
(skrifað 3.mars 2012)
Jæja - klukkan er 5, aðfaranótt laugardags og ég er nýkomin úr sturtu eftir að hafa verið öll útötuð í bjór - hár, andlit, fötin og allt. Vá, sú hefur aldeilis verið að djamma, gætir þú verið að hugsa með þér. En nei nei, það voru sko aðrir að djamma en ekki ég!
En spólum aðeins til baka.
Við komum semsagt til Argentínu fyrir 5 dögum síðan og höfum eldað góðan mat, spókað okkur í sólinni og skoðað Palermo, hverfið sem við búum í. Það er búið að vera yndislegt þó að íbúðin sem við leigjum hafi ekki verið alveg eins og við bjuggumst við. "This amazing brand new apartment..." eins og henni var lýst á heimasíðunni, var hvorki amazing eða brand new, með a.m.k. 5 ára ryklagi á ljósakrónunni, flagnandi málningu, hurðahún sem datt í sífellu af, ónýtum sturtuhaus og biluðum lás á svalahurðinni, svo ég nefni nokkur atriði. En eftir að hafa kvartað var eitthvað af þessu lagað og við vorum bara orðin nokkuð sátt.... þar til í kvöld.
Þá hófst partý í garðinum! Frekar saklaust til að byrja með en smátt og smátt fór tónlistin að hækka og fleira fólk fór að tínast í partýið. Og ég tek það fram að þetta er lítill garður, bara fyrir ca 10 íbúðir, og við erum á 1.hæð, nánast bara í partýinu.
1:00 Fríða María glaðvaknar og ég stend við gluggann með hana í fanginu og horfi með hneykslunarsvip á fólkið. Nokkrir horfa á móti og brosa.
2:00 Bassinn er hækkaður og komin diskóljós. Ég fer út á svalir, enn með Fríðu Maríu í fanginu til að reyna að skora samúðarstig, og öskra yfir garðinn að þau lækki tónlistina. Það heyrist varla í mér því tónlistin er orðin svo há og fólkið horfir bara á mig eins og ég sé klikkuð.
3:00 Hávaðinn er óbærilegur og nú er fjöldi partýgesta um 50 og komin diskóljós og alles. Ég fer út í garð...með Fríðu Maríu í fanginu. Samstundis koma að tveir gaurar sem standa að partýinu. Ég helli mér yfir þá og þeir eru voða sorrý yfir því að barnið mitt geti ekki sofið... en segjast samt ekki geta stoppað partýið aaaaalveg strax... "bara nokkrir klukkutímar í viðbót" segir annar þeirra. "Nokkrir klukkutímar!" segi ég alveg hneyksluð, "þið fáið 10 mínútur" og svo strunsa ég í burtu.
4:20 Fríða María er loksins sofnuð, en hvernig hún fór að því er ofar mínum skilningi því ég heyri ekki í mínum eigin hugsunum. Ég er orðin svo brjáluð að ég er farin að velta fyrir mér hvaða hlutum ég geti hent í fólkið bara til að fá smá útrás fyrir reiðina. Loks strunsa ég enn og aftur út, í þetta sinn treð ég mér í gegnum þvöguna og fer alla leið að gaurunum á græjunum. Ég heimta að þeir lækki tónlistina, en þeir þykjast ekki heyra í mér og stara bara áhugalausum augum á tölvuskjáinn. Þá skelli ég saman tölvunni og þeir horfa bara hneyklsaðir á mig. Í því koma aðvífandi gaurarnir tveir frá því áðan, og með þeim þriðji gaurinn sem á víst afmæli og er heiðursgestur þessarar samkomu. Allir þykjast þeir vera voða sorrý en reyna samt aðallega að skipta um umræðuefni með því að spyrja hvað ég heiti og hvaðan ég er. "Eigum við ekki að koma einhvert þar sem við talað betur saman, það heyrist svo lítið hér," segir einn þeirra. "Heyrist lítið! Já það er einmitt vandamálið," segi ég og skelli tölvunni aftur saman hjá strákunum með tónlistina. Annar þeirra verður reiðilegur og hækkar frekar tónlistina heldur en lækkar. Þá missi ég mig og gríp næsta bjórglas og helli yfir hann. Hann grípur þá annað bjórglas og skvettir á mig. Þá upphefst bjórslagur á milli okkar og við náum að tæma úr þónokkrum bjórglösum yfir hausinn á hvort öðru áður en strákarnir stöðva okkur. Afmælisbarnið dregur mig afsíðis og vill endilega bjóða mér handklæði, en ég afþakka það og gef lítið fyrir allt hans sweet-talk en að endingu lofar hann að lækka tónlistina aðeins og stöðva partýið um fimmleytið.
5:00 Ég held svei mér þá að hann hafi staðið við loforðið... tónlistin er að fjara út og fólk virðist vera að fara :-)
-
mánudagur, febrúar 27, 2012
Í regnskóginum
Við vorum því ekkert að flýta okkur dýpra inn í skóginn. Héldum okkur í Iyarina Lodge fram að hádegi og Fríða María eignaðist tvær nýjar vinkonur á þessum örfáu klukkutímum. Við lögðum af stað eftir hádegi og héldum að það myndi stytta upp hvað úr hverju en rigningin virtist endalaus.
Eftir stutt stopp hjá Kichua fjölskyldu og matarhlé í Mishualli héldum við loks í átt að Puerto Barantilla og ég var orðin mjög spennt. En ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum þegar vegurinn virtist bara verða flottari og nútímalegri eftir því sem við keyrðum lengra. Ég trúði þessu varla og mér fannst ég ekkert kannast við mig. Það kom í ljós að gædinn okkar Christian hafði tekið ranga beygju og við urðum því að snúa við. Þegar við svo keyrðum rétta leið varð vegurinn án malbiks og holóttur eins og ég mundi eftir honum. Og skógurinn í kringum okkur þéttist og þéttist. Eftir því sem skógurinn varð þéttari jókst eftirvæntingin og spennan hjá mér en tengdamamma varð þeim mun órólegri. Við vorum jú á leið út úr allri siðmenningu, en að mínu mati var það einmitt meiningin.
Rétt áður en við komum til Puerto Barantilla braust sólin fram úr skýjunum og ég réð mér varla fyrir kæti. Svo sigldum við með kanó eftir Rio Arajuno, og Fríða María benti á brúnu ána og sagði ”súkkulaðivatn!”
Svo komum við loks til Liana Lodge, hótelsins sem mig dreymdi um að gista á þegar ég var sveittur og skítugur sjálfboðaliði í Amazoonico. Og Liana Lodge stóð undir öllum mínum væntingum, með sínum rómantísku kertaljósum í stað rafmagnsljósa og svartamyrkri á nóttunni. Mér leið eins og ég væri komin heim, eins undarlega og það hljómar. Lyktin, hljóðin, útsýnið, allt var þetta svo kunnuglegt og minningarnar hrönnuðust upp. En á sama tíma var það líka svolítið einmanalegt því ég saknaði Huldu og allra hinna sjálfboðaliðanna sem bjuggu með mér í AmaZoonico fyrir áratug.
Þegar ég fór með Fríðu Maríu upp í kofann okkar um kvöldið heimtaði hún að ég kveikti ljósið. ”Ekkert mál,” svaraði ég og kveikti á tveimur kertum. ”Nei, mamma, ekki þetta ljós, herbergisljósið!” Ég reyndi að útskýra fyrir henni að það væri ekki hægt, en hún var nú ekki á því að samþykkja það og linnti ekki látum fyrr en ég lofaði að lesa fyrir hana uppáhalds bókina hennar og þá róaðist hún og steinsofnaði.
Um nóttina byrjaði aftur að rigna og ég lá andvaka því ég var svo hrædd um að það yrði aftur hellirigning daginn eftir. Við höfðum nefnilega bara hálfan dag eftir í regnskóginum til að skoða AmaZoonico. Ég notaði alla hugarorku sem ég hafði til að óska eftir sólskini, bað til veðurguðanna og hvaðeina. Það virtist virka því um morguninn stytti upp og veðrið var yndislegt.
Það var frábært að sjá AmaZoonico aftur, en líka mjög skrítið. Allt var nokkurn veginn eins en samt allt öðruvísi. Aðalmunurinn var að öll dýrin sem við sáum voru í búrum. Það er ekki lengur leyfilegt að snerta dýrin, dýrahirðarnir mega ekki einu sinni eiga samskipti við dýrin til að reyna að halda þeim eins villtum og mögulegt er. Þetta þýðir að þau dýr sem eru laus eru ekkert að sniglast í kringum fólkið eins og var í þá gömlu góðu daga. Þannig að AmaZoonico virtist bara eins og hver annar dýragarður þar sem öll dýrin eru í búrum, frekar fúlt. En Fríða María svindlaði aðeins því einn apinn í búrinu vildi endilega heilsa henni og automatísk viðbrögð hjá henni voru að heilsa á móti.
Þegar við skoðuðum húsakynni sjálfboðaliðanna voru tengdamamma og mágur hissa á því að ég skyldi hafa getað búið við þessar frumstæðu aðstæður og baðað mig í fossi í tvo mánuði. Eða eins og Bjössi orðaði það: "Þetta er fínn staður til að senda vandræðaunglinga, en ég skil ekki hvernig nokkur maður býður sig fram í að vera hér!"
Þegar komið var að kveðjustund varð ég klökk því allt í einu rann upp fyrir mér að ég myndi líklega aldrei sjá Liana Lodge og AmaZoonico aftur. Það var mjög skrítin tilfinning, snökt snökt.
-
miðvikudagur, febrúar 22, 2012
Carnival
(Skrifað 19.feb)
Hér í Ecuador stendur yfir 4ra daga helgi, frá laugardegi til þriðjudags. Þetta kallast Carnival og Ecuador búar eru í fríi og flykkjast út á land til að skemmta sér. En í raun er á fæstum stöðum skrúðganga og carnival hátíðarhöld líkt og maður sér frá Rio de Janeiro í Brasilíu. Skemmtunin felst í því að sprauta froðu hvert á annað eða jafnvel fara í vatnsslag. Og svo eru tónleikar og dansað og sum staðar hoppukastalar fyrir börnin. Við fórum ekki varhluta af þessum froðuslag, það var bæði sprautað á okkur í Otavalo og í Tena og maður er hálfpartinn farinn að taka sveig í kringum glottandi börn og unglinga með froðubrúsa. En þetta er nú allt í gamni gert og við hlæjum bara að þessu.
Við kvöddum Andesfjöllin og Otavalo í morgun og héldum út í regnskóg í dag. Ég var mjög spennt fyrir því að komast aftur í hinn líflega og yndislega regnskóg, en jafnframt líka svolítið nervös yfir því að sjá hvort mikið hefði breyst. Mig dreymdi nefnilega í fyrrinótt að við værum komin niður að Rio Arajuno þar sem ég var að vinna sem sjálfboðaliði fyrir 10 árum síðan, og í draumnum voru þar hraðbátar og snekkjur og fullt af glæsihýsum.
Það helsta sem ég tók eftir á leið okkar til Tena, stærstu borgar regnskógarins með 30.000 íbúa, var að vegurinn var malbikaður alla leið, en það var hann heldur betur ekki fyrir 10 árum síðan. Svo komum við til Tena, og nú var þetta ekki lengur rykugur smábær, heldur malbikuð borg með umferðarljós og alles. Þvílík breyting. Tena var sem sagt bærinn þangað sem við Hulda fórum alltaf einu sinni í viku til að komast á internetið og hringja heim.
Fyrir 10 árum síðan var vegurinn frá Tena til Puerto Barantilla, þar sem við tókum alltaf canó út í dýraathvarfið Amazoonico, algjörlega hræðilegur. Hann var svo holóttur að rútan sem keyrði þarna á milli var tvo tíma á leiðinni þó að vegalengdin væri ekki nema 40 km. Núna er þessi vegur líka malbikaður og meira að segja ljósastaurar meðfram mikinn part vegarins. Það er því lítið mál að keyra þetta.
Það er svo skrítið hvernig partur af mér vill að allt sé nákvæmlega eins og það var. Mér fannst eitthvað svo sjarmerandi hvað allt var prímitívt hér einu sinni. En auðvitað á ég að gleðjast yfir því að efnahagur Ecuador sé að glæðast og fólkið búi nú við betri lífsgæði en áður.
Nú erum við í frumskógar hóteli sem kallast Iyarina Lodge, ég sit uppi í rúmi og heyri í engisprettunum og froskunum og öllum hinum frumskógarhljóðunum. Fríða María er voðalega glöð yfir að vera komin í frumskóginn, henni finnst þetta svakalega merkilegt, hún sá meira að segja hoppandi frosk rétt við kvöldverðarborðið okkar. Eitt það fyrsta sem hún sagði við mig eftir að við komum hingað var: ”mamma hvar er Diego?” og átti þá auðvitað við Diego teiknimyndapersónu sem bjargar öllum dýrunum í regnskóginum. Á morgun heimsækjum við Amazoonico og ég get varla beðið. Það verður spennandi að sjá hvað hefur breyst þar.
-
laugardagur, febrúar 18, 2012
Á miðbaug jarðar
Það var magnað að sjá Quito aftur, höfuðborg Ecuador, sem er í 2800 metra hæð yfir sjávarmáli. Það hefur margt breyst síðan ég var hér síðast fyrir 10 árum síðan, þetta er orðin mun nútímalegri borg. Það eru flottari verslanir og veitingastaðir, fólk klæðir sig smekklegar og mun færri að betla. Ecuador var ein fátækasta þjóðin í S-Ameríku, en nú virðist efnahagurinn aðeins vera að glæðast hjá þeim. Gædinn okkar, Christian, segir að þetta sé vegna þess að svo margir Ecuador búar séu nú fluttir til annarra landa, t.d. í Evrópu, og sendi hluta af launum sínum til fjölskyldunnar heima. Þetta sé stærsta tekjulindin í dag, sem mér finnst alveg ótrúlegt.
En jæja, við erum búin að skoða Quito og svo fórum við til Mindo sem er í skýjaskógi (cloud-forest) ca 2 tíma frá Quito. Þar tókum við ansi prímitívan kláf yfir stórt og mikið gljúfur, og við María vorum svolítið smeykar því þetta var nú ekki sérlega traustvekjandi aðbúnaður. Það var líka grenjandi rigning en við létum okkur nú samt hafa þetta. Þegar við komumst yfir heil á húfi hrópaði Fríða María "Aftur!!!" því henni fannst þetta svo gaman. Eftir að við gengum niður að fossi nokkrum og svo upp aftur varð henni að ósk sinni því við urðum að taka kláfinn aftur tilbaka yfir gljúfrið.
Svo skoðuðum við fiðrildabúgarð og litla súkkulaðiverksmiðju þar sem við keyptum langbestu brownies sem ég hef nokkurn tíma smakkað, nammi namm.
Í gær keyrðum við svo til Otavalo og heimsóttum meðal annars hljóðfærasmið sem sýndi okkur hvernig hann býr til panflautu. Svo spilaði hann fyrir okkur og Fríða María fékk að spila undir á nokkurs konar kinda-klaufa-hristu. Barnabarn mannsins spilaði líka undir.
Otavalo er bær sem er frægur fyrir að vera með stærsta handverksmarkaðinn í S-Ameríku. Í dag fórum við á markaðinn og skoðuðum heilmikið og keyptum eitthvað. Við tróðum okkur í gegnum þvöguna með kerruna því Fríða María var sofandi. Það var hálf hallærislegt að vera með kerru á indíánamarkaði þar sem göturnar eru holóttar mannmergðin svakaleg, en hvað um það, Fríða María svaf vært og kærði sig kollótta um það hvort við værum í einhverjum vandræðum með að komast um.
-