<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Nokkrar myndir í viðbót 

Masai þjóðflokkurinn lifir í Masai Mara þjóðgarðinum þar sem við vorum líka í safarí. Við fengum að heilsa aðeins upp á þetta fólk sem var mjög áhugavert. Masai konurnar gera allt í þessu samfélagi, elda, sækja vatn, ala upp börn, byggja húsin, sjá um dýrin og svo framvegis. Það eina sem mennirnir gera er að metast um hver þeirra getur hoppað hæst, og svo fara þeir einstöku sinnum að veiða. Og greyið konurnar fá ekkert klapp á bakið, en eru umskornar við 14 ára aldur.

Hér eru myndirnar!

-

mánudagur, nóvember 05, 2007

MYNDIR 

Ég er búin að setja nokkrar myndir frá Safaríinu. Svo koma fleiri myndir seinna....

-

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Zanzibar 

Fyrir u.þ.b. 100 árum síðan var Zanzibar mikið heimsveldi. Þar réði súltaninn af Óman og Stonetown var einn af helstu verslunarkjörnum heims, ein af fyrstu borgum heims með rafmagn, og velmegun var almenn meðal bæjarbúa. Ýmislegt hefur breyst síðan þá, nú er Zanzibar ekki lengur sjálfstætt ríki heldur hefur það sameinast Tanzaníu. Súltaninn er farinn og velmegunin líka, eftir eru blanda af fólki af ólíkum kynþætti og stunda ekki sömu trúarbrögð. Fátæktin er frekar mikil, en þrátt fyrir það virðist fólk vera frekar hamingjusamt, kristnir, múslimir og hindúar lifa í sátt og samlyndi, og allir bjóða túrista velkomna með bros á vör.

Zanzibar var næsta stopp í ferðinni okkar, og fyrir mér er Zanzibar þvílík paradís og Stonetown algjört æði. Allir sem við hittum voru með eindæmum kurteisir, og enginn betlar (nokkuð sem ég hef verið vön að sjá alls staðar sem ég hef komið í suður og mið ameríku). Stonetown er þvílíkt völundarhús, með kræklóttar götur milli niðurníddra húsa, engin götunöfn og þarmeð engin almennileg kort sem hægt er að fara eftir. Við villtumst alveg nokkrum sinnum en það var samt aldrei óþægilegt, jafnvel þó það væri komið kvöld þá leið okkur alltaf eins og við værum örugg, og við gátum alltaf spurt heimamenn sem gátu bent okkur í áttina að hótelinu.

Við gistum á tveimur hótelum, fyrst á Zanzibar Coffee House, og svo á Hurumzi. Það var ótrúleg upplifun, bara eins og vera stödd í ævintýri úr 1001 nótt. Allt var innréttað í Aladdín stíl, með Zanzibar antík húsgögn, og ekki nóg með það heldur var annað herbergið á tveimur hæðum. Efri hæðin voru einskonar svalir, með útsýni í allar áttir yfir borgina, sófa og rólu!!! Ég hef bara aldrei séð annað eins.Meðal þess sem við gerðum á Zanzibar fyrir utan að spóka okkur í Stonetown var: sóla okkur á ströndinni, gefa risaskjaldbökum að borða, snorkla og fræðast um hvernig krydd eru ræktuð.

Og svo komst ég líka að því að Freddy Mercury fæddist og ólst upp á Zanzibar... það fannst mér ansi merkilegt.


-

laugardagur, nóvember 03, 2007

"HAKUNA MATATA... 


....what a wonderful phrase" eins og segir í Lion King teiknimyndinni. Ég elska myndina og ekki síst hakuna matata lagið, og ég hef örugglega fjöldamörgum sinnum sungið hástöfum: "Hakúúna maatataaaaa.... it mííns nó vörrrríííís for ðe rest of joor deeiis....tralalalllaaaa...." án þess að hafa hugmynd um að ég kynni þar með svolítið í Swahili. Swahili er ótrúlega kúl tungumál, upprunnið frá Zanzibar en talað í fjöldamörgum Afríkuríkjum.

Hakuna matata (ekkert mál) er notað mikið í daglegu tali, og hakuna er líka notað með öðrum orðum, t.d. "Hakuna zebras" heyrðum við guidinn okkar segja við næsta guide, til að útskýra að við hefðum ekki séð zebrahesta. Svo er það "mambo" (what´s up) og "assante sana" (takk kærlega fyrir). Ég náði nú ekki að læra mörg orð en gæti vel hugsað mér að læra meira. Afríkuferðin okkar byrjaði sem sagt á Safarí í Kenya, nánar tiltekið í Masai Mara þjóðgarðinum. Við vorum fjögur að ferðast saman, ég og Ásberg, Finnur vinur Ása og Inga kærastan hans. Eftir 9 tíma næturflug, beið Justice eftir okkur á flugvellinum í Nairobi. Hann var síðan guidinn okkar næstu 3 daga. Okkur var strax vísað út í 4x4 landcruiser og við tók 7 tímaökuferð á vægast sagt hræðilegum vegum. En það var ekkert elsku mamma, því þegar við loksins komumst á hótelið, fengum við snarl og svo var það bara beint út í bíl aftur til að skoða dýrin í 2-3 tíma. Það var líka alveg þess virði því við sáum allskonar dýr, meðal annars blettatígur og líka fullt af sofandi ljónum. Við komumst meira að segja nánast alveg upp að ljónunum, þau voru ca. 2-3 metra frá bílnum. Dýrin þarna kippa sér ekkert upp við alla bílana, þau eru svo vön þeim, en ef að maður stigi út úr bílnum þá yrði allt vitlaust. Við fórum síðan í fleiri safarí næstu tvo daga á eftir og sáum alveg fullt af dýrum.

Hótelið okkar var yndislegt, byggt úti á miðri sléttu í þjóðgarðinum, rétt við á þar sem flóðhestar og krókódílar eyða stundum sínum í að svamla og sóla sig. Veitingastaðurinn var alveg upp við ána, svo útsýnið var frábært, og hljóðin sem flóðhestarnir gáfu frá sér voru æðisleg...hljómaði eins og hlátur.... sem svo aftur fékk okkur til að hlæja. Það voru líka bavíanar og fleiri tegundir af öpum á vappi í kring, og það var meira að segja starfsmaður sem vann bara við það að munda teygjubyssuna og hræða apana í burtu svo þeir stælu ekki mat frá hótelgestum. Síðasta morguninn þegar við vorum að gæða okkur á morgunmatnum, fann ég allt í einu eitthvað þungt lenda á öxlinni á mér og í næstu andrá var bollan á disknum mínum horfin. Þetta gerðist allt svo hratt og mér brá ekkert smávegis, en þegar ég gerði mér grein fyrir hvað hafði gerst þá fengum við öll þvílíkt hláturskast.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter