<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Zanzibar 

Fyrir u.þ.b. 100 árum síðan var Zanzibar mikið heimsveldi. Þar réði súltaninn af Óman og Stonetown var einn af helstu verslunarkjörnum heims, ein af fyrstu borgum heims með rafmagn, og velmegun var almenn meðal bæjarbúa. Ýmislegt hefur breyst síðan þá, nú er Zanzibar ekki lengur sjálfstætt ríki heldur hefur það sameinast Tanzaníu. Súltaninn er farinn og velmegunin líka, eftir eru blanda af fólki af ólíkum kynþætti og stunda ekki sömu trúarbrögð. Fátæktin er frekar mikil, en þrátt fyrir það virðist fólk vera frekar hamingjusamt, kristnir, múslimir og hindúar lifa í sátt og samlyndi, og allir bjóða túrista velkomna með bros á vör.

Zanzibar var næsta stopp í ferðinni okkar, og fyrir mér er Zanzibar þvílík paradís og Stonetown algjört æði. Allir sem við hittum voru með eindæmum kurteisir, og enginn betlar (nokkuð sem ég hef verið vön að sjá alls staðar sem ég hef komið í suður og mið ameríku). Stonetown er þvílíkt völundarhús, með kræklóttar götur milli niðurníddra húsa, engin götunöfn og þarmeð engin almennileg kort sem hægt er að fara eftir. Við villtumst alveg nokkrum sinnum en það var samt aldrei óþægilegt, jafnvel þó það væri komið kvöld þá leið okkur alltaf eins og við værum örugg, og við gátum alltaf spurt heimamenn sem gátu bent okkur í áttina að hótelinu.

Við gistum á tveimur hótelum, fyrst á Zanzibar Coffee House, og svo á Hurumzi. Það var ótrúleg upplifun, bara eins og vera stödd í ævintýri úr 1001 nótt. Allt var innréttað í Aladdín stíl, með Zanzibar antík húsgögn, og ekki nóg með það heldur var annað herbergið á tveimur hæðum. Efri hæðin voru einskonar svalir, með útsýni í allar áttir yfir borgina, sófa og rólu!!! Ég hef bara aldrei séð annað eins.















Meðal þess sem við gerðum á Zanzibar fyrir utan að spóka okkur í Stonetown var: sóla okkur á ströndinni, gefa risaskjaldbökum að borða, snorkla og fræðast um hvernig krydd eru ræktuð.

Og svo komst ég líka að því að Freddy Mercury fæddist og ólst upp á Zanzibar... það fannst mér ansi merkilegt.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter