<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Enn meiri fjölgun í fjölskyldunni!!!! 

Gutti og Táta eru orðnir myndarlegir kettir, varla hægt að kalla þau kettlinga lengur.
En fyrir uþb. mánuði síðan fór grá læða að venja komur sínar á Nönnugötu 8. Gutti og Táta voru nú ekkert allt of ánægð með þetta, hún lagði sig á uppáhaldsstaðina þeirra og borðaði úr matarskálunum. Ég hringdi í eigandann sem á heima bara í næstu götu, og hún sagði að hún Loppa kæmi öðru hvoru heim en henni kæmi ekki vel saman við hina læðuna hennar. Ég setti Loppu út á stétt en alltaf kom hún aftur og aftur. Ásberg rak hana yfirleitt út með látum, og hún var farin að láta sig hverfa um leið og hún sá hann. En oft tókst henni líka að láta fara lítið fyrir sér svo við tókum ekki eftir að hún væri í íbúðinni.

Í gær fór ég allt í einu að hugsa með mér: "Rosalega er hún orðin feit.... er hún í svona góðu fæði hjá mér eða.... nei Gvuuuð, hún er KASÓLÉTT!!"
Þá snarhætti ég við að reka hana út, gaf henni vel að borða, klóraði henni bak við eyrun, og bjó til bæli handa henni undir rúmi þar sem henni finnst best að vera.

Og þegar ég kom heim af næturvakt í morgun voru komnir 3 litlir kettlingar. Ég missti af öllu fjörinu en Ásberg og Gutti horfðu hugfangnir á herlegheitin um tvöleytið í nótt. Loppa er voðalega ánægð og mér finnst líka voða gaman að vera komin með lítil kríli á heimilið.


-

mánudagur, nóvember 20, 2006

Atvinnuviðtöl 

“Gúdd lökk víþ júr íntervjúú” sagði afgreiðslumaðurinn með indverskum hreim og brosti til mín. Það var mánudagsmorgunn og ég var stödd á London Bridge lestarstöðinni, á leið í atvinnuviðtal á suðurströnd Bretlands. Ég ákvað að versla mér samloku og smá nammi til að maula í lestarferðinni – og mín fyrstu viðbrögð við orðum afgreiðslumannsins voru að hugsa:

“Gvuuuuuð..... er hann skyggn eða hvað?.....”

En svo áttaði ég mig – Forsíðan á möppunni sem ég hélt á í fanginu snéri að honum, og þar stóð skýrum stöfum “Directions to your interview at Rye, Sussuex”

Ég hló hálfvandræðalega þegar ég loks áttaði mig – brosti til baka og svaraði “ Thank You !!”

Viðtalið gekk eins og í sögu. Yfirmaðurinn, Mr. Richards, var svo indæll að ég var ekkert stressuð. Hann hrósaði mér fyrir enskuna mína, og gaf í skyn í lok viðtalsins (sem tók 3 tíma í allt) að honum litist mjög vel á mig. Því miður var staðsetningin ekki nógu góð fyrir Cosmopolitan kærastann minn, hann lýsti því yfir að hann gæti sko ekki búið í krummaskuði. Já ég varð nú eiginlega líka að viðurkenna að, Rye er mjög fallegur bær – en það er svo sem ekki mikið að gerast á svona litlum stað.

Viðtalið þar á undan – í London – gekk ekki alveg eins vel. Ég var frekar stressuð og yfirmaðurinn þar var frekar dóminerandi og reyndi sífellt að setja mig út af laginu með erfiðum spurningum. Mér tókst nú samt að svara þeim öllum nokkuð vel, en mér leið ekki vel og mér fannst stofan líka svo þröng og þrúgandi. Þriðja viðtalið átti sér stað í Chichester, líka á suðurströnd Englands. Þar búa 30.000 manns, svona eins og stórt krummaskuð (miðað við 3000 manns í Rye). Þá var ég orðin svo sjóuð í viðtölum að það gekk bara ágætlega og mér leist vel á starfið og hugsanlega samstarfsmenn.

Viku síðar er ég nú aftur stödd í Englandi, í þetta sinn í Brighton, sem er draumastaðurinn okkar Ásbergs að búa á. Brighton er svona kannski á við Reykjavík í stærð, strandbær, mikið af hommum, lesbíum og háskólafólki. Sem sagt mikið líf og fjör. Ég var svo spennt fyrir starfinu áður en ég fór í viðtalið og ég varð heldur ekki fyrir vonbrigðum þegar ég mætti á staðinn. Alvöru dýraspítali, með dýralækni í viðbragðsstöðu allan sólarhringinn 7 daga vikunnar. Sérfræðingar og dýrahjúkkur, allt til alls. FRÁBÆRT!! Og viðtalið gekk bara vel...held ég...

-

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Fríða flugfreyja... 

Fríða systir er í heimsreisu þessa stundina með vinnunni. Þið getið fylgst með ferðum hennar HÉR.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter