<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 31, 2004

Jibbbbbííííííí..........LOKSINS er ég komin með internet heim til mín. Nú þarf ég ekki lengur að skakklappast út í skóla til að komast á netið. Ég er búin að vera að væflast eitthvað að reyna að fá módemið til að virka síðastliðna tvo mánuði en mér, tölvuséníunu sjálfu, tókst það ekki. En þar sem ég kemst ekki svo auðveldlega um næstu 6 vikurnar og á ábyggilega eftir að vera mikið heima, ákvað ég bara að skella mér á svona eitt stykki sítengingu. Nú hef ég enga afsökun fyrir að vera löt við að blogga...

Maja vinkona er að fara að koma í heimsókn núna á eftir. Hún er á leiðinni heim til Íslands frá Tokyo, og stoppar hjá mér í eina nótt. Það verður nú gaman......hún ætti nú að vera búin að lenda...hmmmmm....verð að tékka á því. Nú er það ekkert mál því ég er með internet trallalla!!!

-

sunnudagur, mars 28, 2004

Til hamingju Freyja, þér tókst enn einu sinni að sanna að þú ert einn mesti hrakfallabálkur sem fyrirfinnst!!

Það var skautasýning í gær sem ég átti að taka þátt í, en 10 mín. áður en sýningin byrjaði var ég að skauta aðeins bak við tjaldið til að hita upp. Það tókst ekki betur til en svo að ég festi skautann í einum tjaldstólpanum, féll kylliflöt og fótbrotnaði. Ég vissi reyndar ekki að ég væri fótbrotin og vildi endilega sjá sýninguna, svo skautaþjálfarinn bar mig upp á áhorfendabekkinn þar sem ég sat í 2 tíma með ís á fætinum og reyndi að hugsa ekki um sársaukann. Eftir það lá leiðin upp á Frederiksberg Skadestue í fjórða sinn á minni 25 ára ævi. (og þá tel ég ekki með heimsóknir mínar á bráðavaktina í Reykjavík!!)

Og nú er ég komin í gifs, verð með það í 6 vikur og svo þarf ég að klöngrast um á hækjum í minnst 3 vikur. Það er ekki laust við að ég sakni mömmu, pabba og Mikkels ekstra mikið núna, sérstaklega þar sem Míó þarf að fara út í göngutúra 3-4 sinnum á dag. En sem betur fer á ég góðar vinkonur sem hafa boðist til að fara út með Míó og kaupa í matinn fyrir mig.

En svo að ég líti á björtu hliðarnar þá kemst ég örugglega í ansi gott form því það er ekkert smá erfitt að hoppa um á öðrum fæti og fara um á hækjum. Og nú er mér aldrei kalt, frekar kófsveitt ef eitthvað er. Og ég verð örugglega komin með svona líka flotta og stælta upphandleggi eftir 6 vikur (sem vonandi draga athyglina frá hinum visna vinstri fæti). Hmmm....hvað meira, jú ég nota bara einn sokk í einu svo það er minna að þvo!

Mamma vildi endilega að ég hringdi upp á Frederiksberg Skadestue og bæði um 10 gíra spítthjólastól til að komast í skólann. En mér líst nú ekkert á það, því með mína heppni þá á ég pottþétt eftir að aka í veg fyrir valtara og verð'að klessu oj bara!!

Svo að ég komi með svolitla kaldhæðni hérna í lokin, þá hafði Hulda ætlað að senda mér SMS rétt fyrir skautasýninguna. Skilaboðin áttu að vera “Brake a leg” en svo hætti hún við því hún veit hversu óheppin ég er.......

-

sunnudagur, mars 21, 2004

Afmælisveislan hennar Guðrúnar var frábær. Guðrún leit út eins og gyðja í nýja kjólnum og strákarnir létu hana ekki í friði. Við höfðum brennt lög á geisladisk til að vera viðbúin ef tónlistin væri léleg á barnum, en þegar til kom virkaði geisladiskurinn ekki og allan fyrri hluta kvöldsins var spiluð írsk riverdans tónlist og einhver furðuleg frönsk popptónlist. Svo tók HLJÓMSVEITIN við..... hún samanstóð af tveimur strákum sem eins og Guðrún orðaði það “nauðguðu frábærum lögum”, en erasmusnemunum virtist vera sama um þeirra tónlistarhæfileika og voru bara þakklátir fyrir að loksins geta sungið með. Tónlist eða engin tónlist, við skemmtum okkur frábærlega.

Daginn eftir bakaði Guðrún pönnnukökur í morgunmat nammi namm og svo horfðum við á Dirty Dancing. Guðrún hefur séð þá mynd ca 1000 sinnum en fær aldrei leið á henni. Ég hef reyndar ekki séð hana nema kannski 5 sinnum en er alvarlega að íhuga að verða aðdáandi eins og Guðrún...... Patrick Swayze ber að ofan að dansa........mmmmm........ ég segi ekki meir!!!

Svo lá leiðin heim á við og ég kom við í London og hitti Sólrúnu, Mr. Big og foreldra Sólrúnar. Foreldrar hennar voru með sendingu til mín frá mömmu: páskaegg og tvö pör af hlýjum sokkum. Mammma hafði víst lesið “einhversstaðar” að mér væri kalt á tánum! Takk mamma!! Ég stoppaði bara stutt og fór fljótlega út á flugvöll aftur, og nú er ég komin heim... þreytt en ánægð. Míó er líka ánægður því hann er búinn að fá mömmu sína aftur. Takk fyrir pössunina Maríanna!!

-

föstudagur, mars 19, 2004

Lífið er très bien hérna í Toulouse. Veðrið er yndislegt og við Guðrún röltum um bæinn og njótum lífsins á kaffihúsum. Í gær eldaði Guðrún handa mér og vinum sínum og það var voða huggó. Svo keypti ég afmælisgjöf handa Guðrúnu (frá mér, maju og sólrúnu). Við fengum smá kjólaæði, Guðrún fékk sem sagt einn kjól í afmælisgjöf og keypti sér annan sjálf, svo keypti ég mér tvo kjóla. Alveg svakalegt. Í kvöld verður síðan brjálað afmælispartý og nánast öllum erasmusnemunum er boðið að mér skilst..... eða allavega mörgum.
London var líka frábær. Á meðan Sólrún var í vinnunni fór ég í bæjarrölt. Ég gekk meðfram Thames, skaust aðeins inn á listasafnið Tate Modern og sá Sólar-listaverkið hans Ólafs Elíassonar. Tók þarnæst lestina til Bettersea Dogs Home, þar sem eru heimilislausir hundar sem vantar nýja eigendur. Ég vildi taka þá alla með mér heim, en áttaði mig auðvitað á því að það væri ekki pláss fyrir þá í ferðatöskunni. Svo sá ég Buckingham palace, og labbaði fram og til baka á Picadilly circus og Oxford street. Settist tvisvar inn á Starbucks og drakk café latte .... mmmmmmmm....
Um kvöldið fórum við sólrún svo út að borða á kínverskum veitingastað. Við þurftum auðvitað að ræða saman um ýmis vandamál, aðallega ástarmál, og tókum okkur góðan tíma í það.
Jæja ég ætla að fara að hafa mig til fyrir kvöldið.
Au revoir

-

mánudagur, mars 15, 2004

Litli bróðir minn er orðinn teiknimyndasögu höfundur. Ég skil reyndar ekki djókið, enda var hann búinn að vara mig við og segja að þetta væri bara einkahúmor milli hans og vina hans. En það er samt gaman að skoða þetta, sérstaklega lýsingarnar á persónunum. Mér finnst japansi sushi fiskurinn sem er dauður ansi fyndinn.

Ég er á leiðinni í lítið ferðalag á morgun, fer fyrst að heimsækja Sólrúnu í London, og svo til Guðrúnar í Toulouse. Guðrún á nefnilega afmæli 17.mars!! Þökk sé Easy jet þá kostar flugið fram og til baka (England og Frakkland) ekki nema rétt rúmar 700 danskar krónur. Ótrúlegt en satt. Kem aftur heim á sunnudag.
Og svo fréttir frá Íslandi: Maja pæja er orðin flugfreyja hjá Flugleiðum alveg eins og systir mín. Til hamingju Maja!!

-
Í rómantískum Hollywood bíómyndum eru bónorð alltaf svo “exstreme”, hafiði ekki tekið eftir því? Það er gert fyrir framan fjöldan allan af fólki og svo endar parið á því að kyssast og allir fara að klappa. Ég get sagt ykkur það að þetta er ekki bara svona í bíómyndunum. Mikkel var á íshokkí leik um daginn (í Bandaríkjunum þar sem hann býr) og þá kom allt í einu “will you marry me Rachel” á ljósaskiltinu. Og allir klöppuðu...... en sætt!! Persónulega vildi ég frekar eiga svona stund í einrúmi með mínum heittelskaða, en ekki eru allir eins.

Mikkel býr víst í einhverju skuggalegu hverfi þarna í Portland. Í gær heyrði hann tvö skothljóð rétt fyrir utan húsið. Sambýlingar hans kipptu sér ekki mikið upp við þetta, sögðu bara að það væri mikið meira um skotbardaga á sumrin. Mikkel varð ekki rólegri við að heyra það.

Mikkel er farinn að hanga með strák og stelpu sem eru bara vinir og þau kalla sig Will og Grace. Mikkel fattaði náttúrulega ekki djókið, hann horfir ekki jafn mikið á gamanþætti í sjónvarpinu eins og ég. Hann fór nú samt að gruna sitt lítið af hverju þegar honum fannst Will alltaf vera að horfa á rassinn á sér. Greyið er víst með vott af hommafóbíu því það hafa víst þónokkrir hommar reynt við hann í gegn um tíðina. Hann er hræddur um að hann sjálfur líti út fyrir að vera hommi. Ég sagði honum bara að hætta þessu væli og taka því bara sem hrósi að hann væri sætur með flottan rass. Mér finnst hann eigi endilega að hanga með Will og Grace..... svo lengi sem það er Will en ekki Grace sem er að reyna við hann.


-

sunnudagur, mars 14, 2004

Ég var að spá.......það væri ekki svo vitlaust að vera með svona feld eins og hann Míó litli. Hann þarf enga sæng á nóttunni, hann þarf enga yfirhöfn þegar við förum út, og ég hef aldrei séð hann skjálfa af kulda. Ég er alveg ómöguleg á veturna, geng um í þykkri ullarpeysu (oft tveimur), ullarsokkum og gammósíum og samt er mér kalt. Og verst er það á kvöldin þegar ég fer að sofa, þá er ég stundum hrædd um að tærnar detti af því þær eru svo bláar af kulda. Þó að ég væri ekki nema bara með þykka hárbrúska á tánum, það væri þvílíkur munur. En....það liti kannski svolítið asnalega út í sandölum á sumrin.

-

föstudagur, mars 12, 2004

Það er svo gaman í skólanum. Ég er blá og marin eftir átök við sárþjáið naut, og rispur og bitsár eftir skapvondan kött, en ég get samt ekki hætt að brosa......það er svo gaman að vera næstum því eiginlega nokkurs konar dýralæknir. Ég tek á móti sjúklingum, skoða þá, fer með þá í röntgen og sónar, tek blóðprufur og vefsprufur, og reyni svo að sjúkdómsgreina út frá öllum upplýsingunum. Svo er ég búin að gera 3 skurðaðgerðir sem allar hafa gengið eftir óskum. Það hlaut nú líka að koma að því, eftir 4 ár með nefið niðri í misskemmtilegum bókum og potandi í illa lyktandi hræ, að ég fengi að snerta LIFANDI DÝR!!

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter