<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, mars 28, 2004

Til hamingju Freyja, þér tókst enn einu sinni að sanna að þú ert einn mesti hrakfallabálkur sem fyrirfinnst!!

Það var skautasýning í gær sem ég átti að taka þátt í, en 10 mín. áður en sýningin byrjaði var ég að skauta aðeins bak við tjaldið til að hita upp. Það tókst ekki betur til en svo að ég festi skautann í einum tjaldstólpanum, féll kylliflöt og fótbrotnaði. Ég vissi reyndar ekki að ég væri fótbrotin og vildi endilega sjá sýninguna, svo skautaþjálfarinn bar mig upp á áhorfendabekkinn þar sem ég sat í 2 tíma með ís á fætinum og reyndi að hugsa ekki um sársaukann. Eftir það lá leiðin upp á Frederiksberg Skadestue í fjórða sinn á minni 25 ára ævi. (og þá tel ég ekki með heimsóknir mínar á bráðavaktina í Reykjavík!!)

Og nú er ég komin í gifs, verð með það í 6 vikur og svo þarf ég að klöngrast um á hækjum í minnst 3 vikur. Það er ekki laust við að ég sakni mömmu, pabba og Mikkels ekstra mikið núna, sérstaklega þar sem Míó þarf að fara út í göngutúra 3-4 sinnum á dag. En sem betur fer á ég góðar vinkonur sem hafa boðist til að fara út með Míó og kaupa í matinn fyrir mig.

En svo að ég líti á björtu hliðarnar þá kemst ég örugglega í ansi gott form því það er ekkert smá erfitt að hoppa um á öðrum fæti og fara um á hækjum. Og nú er mér aldrei kalt, frekar kófsveitt ef eitthvað er. Og ég verð örugglega komin með svona líka flotta og stælta upphandleggi eftir 6 vikur (sem vonandi draga athyglina frá hinum visna vinstri fæti). Hmmm....hvað meira, jú ég nota bara einn sokk í einu svo það er minna að þvo!

Mamma vildi endilega að ég hringdi upp á Frederiksberg Skadestue og bæði um 10 gíra spítthjólastól til að komast í skólann. En mér líst nú ekkert á það, því með mína heppni þá á ég pottþétt eftir að aka í veg fyrir valtara og verð'að klessu oj bara!!

Svo að ég komi með svolitla kaldhæðni hérna í lokin, þá hafði Hulda ætlað að senda mér SMS rétt fyrir skautasýninguna. Skilaboðin áttu að vera “Brake a leg” en svo hætti hún við því hún veit hversu óheppin ég er.......

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter