<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, janúar 31, 2004

Ég fékk hrukkukrem í afmælisgjöf...........! Þar fóru allar mínar vonir um að ég væri ennþá ung og falleg. Þegar maður er orðinn 25 ára er maður semsagt kominn í hóp hrukkudýra og gigtveikra gamlingja. Ég ætlaði eitthvað að prófa hrukkukremið í gær, en fann bara eiginlega engar hrukkur og vissi því ekkert hvar ég ætti að setja þetta blessaða krem. Kannski er ég bara í afneitun.

Míó tók því bara vel að vera orðinn árinu eldri. Hann átti afmæli í gær, varð tveggja ára þessi elska. Hann þarf nú ekkert að hafa áhyggjur ennþá, en ef hann bara vissi að þegar hann verður 6 ára þá er hann orðin ca. þrítugur í mannaárum, sem sagt kominn fram úr mér sem verð 29 ára. Við getum þá notað hrukkukremið saman.

-

sunnudagur, janúar 18, 2004

Jæja þá er ný gestabók komin í gagnið. "Feel free......"

-
Það eru allir að eignast börn í kring um mig. Og meira að segja yngri stelpur en ég. Í gær frétti ég að litla systir vinkonu minnar væri ólétt, og í dag hringdi litla frænka mín og bauð í skírnveislu dóttur sinnar. Er það ég sem er orðin svona gömul eða hvað? Ég verð 25 ára á morgun............ er það eitthvað mikið? Er það ekki bara svona unglingsaldur? Ég meina ég fæ ennþá unglingabólur, og það hlýtur að segja meira um þroskastigið heldur en talan tuttuguogfimm!

Ég er semsagt komin aftur í samfélag tölvunörda og bloggara, og það mun seinna en ég hafði lofað. Ég var að læra fyrir próf yfir jólin og kláraði það 7. janúar. Svo hafði Mikkel seinkað farinu sínu þangað til 15.jan þannig að ég sá fyrir mér heila viku með rómantík og afslöppun áður en við þyrftum að kveðjast. En nei ó nei, hann Mikkel elskan var auðvitað búinn að trassa allt fram á síðustu stundu þannig að við eyddum allri vikunni í að pakka íbúðinni hans niður og svo flutti hann öll húsgögnin út í Roskilde og fór í myndatöku með fjölskyldunni sinni, á meðan ég var skilin eftir sveitt og þreytt að þrífa alla íbúðina. Ég var því ansi þreytt þegar komið var að kveðjustundinni á flugvellinum, og fannst bara eiginlega ágætt að hann væri að fara svo ég gæti loksins slappað af. Ég gerði mér náttúrulega ekki alveg grein fyrir því að það væru 5 eða 6 mánuðir þangað til ég sæi hann aftur.

Svo fór ég heim til Íslands mmmmmmmmmmm..... og náði að sofa lengi lengi.... zzzzzzzzzzzz...... en það sem truflaði nætursvefninn var svakaleg martröð. Og ekki fjallaði hún um Mikkel heldur Míó litla sem ég þurfti að skilja eftir í pössun í 2 vikur (ekki segja Mikkel). Míó var semsagt stolið af hinum brjálaða dýralækni Dr. Erik Stauber sem leit út eins og Anthony Hopkins, og hann notaði Míó sem tilraunadýr. Þegar ég loksins fann hundinn minn var hann dáinn eftir alla meðferðina, en ég fann einhver skjöl um tilraunirnar sem ég ætlaði að fara með til lögreglunnar og koma þannig upp um Dr. Stauber og hans ólöglegu starfsemi. Það fór ekki betur en svo að Dr. Stauber elti mig og ætlaði að drepa mig. Þá vaknaði ég upp í svitakófi.
(Þess má geta að Dr. Erik Stauber er dýrlæknir við Washington State University, og hann er væntanlega hvorki brjálaður né lítur út eins og Anthony Hopkins...... en ég kemst að því í sumar þegar ég fer til Bandaríkjanna.)


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter