<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 27, 2012

Í regnskóginum 

Rigning, rigning – endalaus rigning! Það var svo sem við því að búast í regnskógi. En samt ekki, því minningar mínar úr regnskóginum voru bara raki og hiti og örsjaldan rigning, og þá yfirleitt bara stuttur regnskúr. En hingað vorum við semsagt komin og ég sem hafði ætlað að sýna mínum heittelskaða og fjölskyldunni þessar gömlu ”heimaslóðir” mínar. En svona í rigningunni var sjarminn takmarkaður.

Við vorum því ekkert að flýta okkur dýpra inn í skóginn. Héldum okkur í Iyarina Lodge fram að hádegi og Fríða María eignaðist tvær nýjar vinkonur á þessum örfáu klukkutímum. Við lögðum af stað eftir hádegi og héldum að það myndi stytta upp hvað úr hverju en rigningin virtist endalaus.

Eftir stutt stopp hjá Kichua fjölskyldu og matarhlé í Mishualli héldum við loks í átt að Puerto Barantilla og ég var orðin mjög spennt. En ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum þegar vegurinn virtist bara verða flottari og nútímalegri eftir því sem við keyrðum lengra. Ég trúði þessu varla og mér fannst ég ekkert kannast við mig. Það kom í ljós að gædinn okkar Christian hafði tekið ranga beygju og við urðum því að snúa við. Þegar við svo keyrðum rétta leið varð vegurinn án malbiks og holóttur eins og ég mundi eftir honum. Og skógurinn í kringum okkur þéttist og þéttist. Eftir því sem skógurinn varð þéttari jókst eftirvæntingin og spennan hjá mér en tengdamamma varð þeim mun órólegri. Við vorum jú á leið út úr allri siðmenningu, en að mínu mati var það einmitt meiningin.

Rétt áður en við komum til Puerto Barantilla braust sólin fram úr skýjunum og ég réð mér varla fyrir kæti. Svo sigldum við með kanó eftir Rio Arajuno, og Fríða María benti á brúnu ána og sagði ”súkkulaðivatn!”

Svo komum við loks til Liana Lodge, hótelsins sem mig dreymdi um að gista á þegar ég var sveittur og skítugur sjálfboðaliði í Amazoonico. Og Liana Lodge stóð undir öllum mínum væntingum, með sínum rómantísku kertaljósum í stað rafmagnsljósa og svartamyrkri á nóttunni. Mér leið eins og ég væri komin heim, eins undarlega og það hljómar. Lyktin, hljóðin, útsýnið, allt var þetta svo kunnuglegt og minningarnar hrönnuðust upp. En á sama tíma var það líka svolítið einmanalegt því ég saknaði Huldu og allra hinna sjálfboðaliðanna sem bjuggu með mér í AmaZoonico fyrir áratug.

Þegar ég fór með Fríðu Maríu upp í kofann okkar um kvöldið heimtaði hún að ég kveikti ljósið. ”Ekkert mál,” svaraði ég og kveikti á tveimur kertum. ”Nei, mamma, ekki þetta ljós, herbergisljósið!” Ég reyndi að útskýra fyrir henni að það væri ekki hægt, en hún var nú ekki á því að samþykkja það og linnti ekki látum fyrr en ég lofaði að lesa fyrir hana uppáhalds bókina hennar og þá róaðist hún og steinsofnaði.

Um nóttina byrjaði aftur að rigna og ég lá andvaka því ég var svo hrædd um að það yrði aftur hellirigning daginn eftir. Við höfðum nefnilega bara hálfan dag eftir í regnskóginum til að skoða AmaZoonico. Ég notaði alla hugarorku sem ég hafði til að óska eftir sólskini, bað til veðurguðanna og hvaðeina. Það virtist virka því um morguninn stytti upp og veðrið var yndislegt.

Það var frábært að sjá AmaZoonico aftur, en líka mjög skrítið. Allt var nokkurn veginn eins en samt allt öðruvísi. Aðalmunurinn var að öll dýrin sem við sáum voru í búrum. Það er ekki lengur leyfilegt að snerta dýrin, dýrahirðarnir mega ekki einu sinni eiga samskipti við dýrin til að reyna að halda þeim eins villtum og mögulegt er. Þetta þýðir að þau dýr sem eru laus eru ekkert að sniglast í kringum fólkið eins og var í þá gömlu góðu daga. Þannig að AmaZoonico virtist bara eins og hver annar dýragarður þar sem öll dýrin eru í búrum, frekar fúlt. En Fríða María svindlaði aðeins því einn apinn í búrinu vildi endilega heilsa henni og automatísk viðbrögð hjá henni voru að heilsa á móti.

Þegar við skoðuðum húsakynni sjálfboðaliðanna voru tengdamamma og mágur hissa á því að ég skyldi hafa getað búið við þessar frumstæðu aðstæður og baðað mig í fossi í tvo mánuði. Eða eins og Bjössi orðaði það: "Þetta er fínn staður til að senda vandræðaunglinga, en ég skil ekki hvernig nokkur maður býður sig fram í að vera hér!"

Þegar komið var að kveðjustund varð ég klökk því allt í einu rann upp fyrir mér að ég myndi líklega aldrei sjá Liana Lodge og AmaZoonico aftur. Það var mjög skrítin tilfinning, snökt snökt.


-

miðvikudagur, febrúar 22, 2012

Carnival (Skrifað 19.feb)

Hér í Ecuador stendur yfir 4ra daga helgi, frá laugardegi til þriðjudags. Þetta kallast Carnival og Ecuador búar eru í fríi og flykkjast út á land til að skemmta sér. En í raun er á fæstum stöðum skrúðganga og carnival hátíðarhöld líkt og maður sér frá Rio de Janeiro í Brasilíu. Skemmtunin felst í því að sprauta froðu hvert á annað eða jafnvel fara í vatnsslag. Og svo eru tónleikar og dansað og sum staðar hoppukastalar fyrir börnin. Við fórum ekki varhluta af þessum froðuslag, það var bæði sprautað á okkur í Otavalo og í Tena og maður er hálfpartinn farinn að taka sveig í kringum glottandi börn og unglinga með froðubrúsa. En þetta er nú allt í gamni gert og við hlæjum bara að þessu.

Við kvöddum Andesfjöllin og Otavalo í morgun og héldum út í regnskóg í dag. Ég var mjög spennt fyrir því að komast aftur í hinn líflega og yndislega regnskóg, en jafnframt líka svolítið nervös yfir því að sjá hvort mikið hefði breyst. Mig dreymdi nefnilega í fyrrinótt að við værum komin niður að Rio Arajuno þar sem ég var að vinna sem sjálfboðaliði fyrir 10 árum síðan, og í draumnum voru þar hraðbátar og snekkjur og fullt af glæsihýsum.

Það helsta sem ég tók eftir á leið okkar til Tena, stærstu borgar regnskógarins með 30.000 íbúa, var að vegurinn var malbikaður alla leið, en það var hann heldur betur ekki fyrir 10 árum síðan. Svo komum við til Tena, og nú var þetta ekki lengur rykugur smábær, heldur malbikuð borg með umferðarljós og alles. Þvílík breyting. Tena var sem sagt bærinn þangað sem við Hulda fórum alltaf einu sinni í viku til að komast á internetið og hringja heim.

Fyrir 10 árum síðan var vegurinn frá Tena til Puerto Barantilla, þar sem við tókum alltaf canó út í dýraathvarfið Amazoonico, algjörlega hræðilegur. Hann var svo holóttur að rútan sem keyrði þarna á milli var tvo tíma á leiðinni þó að vegalengdin væri ekki nema 40 km. Núna er þessi vegur líka malbikaður og meira að segja ljósastaurar meðfram mikinn part vegarins. Það er því lítið mál að keyra þetta.
Það er svo skrítið hvernig partur af mér vill að allt sé nákvæmlega eins og það var. Mér fannst eitthvað svo sjarmerandi hvað allt var prímitívt hér einu sinni. En auðvitað á ég að gleðjast yfir því að efnahagur Ecuador sé að glæðast og fólkið búi nú við betri lífsgæði en áður.

Nú erum við í frumskógar hóteli sem kallast Iyarina Lodge, ég sit uppi í rúmi og heyri í engisprettunum og froskunum og öllum hinum frumskógarhljóðunum. Fríða María er voðalega glöð yfir að vera komin í frumskóginn, henni finnst þetta svakalega merkilegt, hún sá meira að segja hoppandi frosk rétt við kvöldverðarborðið okkar. Eitt það fyrsta sem hún sagði við mig eftir að við komum hingað var: ”mamma hvar er Diego?” og átti þá auðvitað við Diego teiknimyndapersónu sem bjargar öllum dýrunum í regnskóginum. Á morgun heimsækjum við Amazoonico og ég get varla beðið. Það verður spennandi að sjá hvað hefur breyst þar.

-

laugardagur, febrúar 18, 2012

Á miðbaug jarðar 

Eftir að hafa dustað þykku ryklagi af spænskunni minni er ég loks farin að segja orð og setningar sem ég hélt að væru löngu gleymd og grafin. Það er svo skrítið hvernig þetta virðist birtast aftur þegar maður er kominn í kunnuglegt umhverfi.

Það var magnað að sjá Quito aftur, höfuðborg Ecuador, sem er í 2800 metra hæð yfir sjávarmáli. Það hefur margt breyst síðan ég var hér síðast fyrir 10 árum síðan, þetta er orðin mun nútímalegri borg. Það eru flottari verslanir og veitingastaðir, fólk klæðir sig smekklegar og mun færri að betla. Ecuador var ein fátækasta þjóðin í S-Ameríku, en nú virðist efnahagurinn aðeins vera að glæðast hjá þeim. Gædinn okkar, Christian, segir að þetta sé vegna þess að svo margir Ecuador búar séu nú fluttir til annarra landa, t.d. í Evrópu, og sendi hluta af launum sínum til fjölskyldunnar heima. Þetta sé stærsta tekjulindin í dag, sem mér finnst alveg ótrúlegt.

En jæja, við erum búin að skoða Quito og svo fórum við til Mindo sem er í skýjaskógi (cloud-forest) ca 2 tíma frá Quito. Þar tókum við ansi prímitívan kláf yfir stórt og mikið gljúfur, og við María vorum svolítið smeykar því þetta var nú ekki sérlega traustvekjandi aðbúnaður. Það var líka grenjandi rigning en við létum okkur nú samt hafa þetta. Þegar við komumst yfir heil á húfi hrópaði Fríða María "Aftur!!!" því henni fannst þetta svo gaman. Eftir að við gengum niður að fossi nokkrum og svo upp aftur varð henni að ósk sinni því við urðum að taka kláfinn aftur tilbaka yfir gljúfrið.

Svo skoðuðum við fiðrildabúgarð og litla súkkulaðiverksmiðju þar sem við keyptum langbestu brownies sem ég hef nokkurn tíma smakkað, nammi namm.

Í gær keyrðum við svo til Otavalo og heimsóttum meðal annars hljóðfærasmið sem sýndi okkur hvernig hann býr til panflautu. Svo spilaði hann fyrir okkur og Fríða María fékk að spila undir á nokkurs konar kinda-klaufa-hristu. Barnabarn mannsins spilaði líka undir.

Otavalo er bær sem er frægur fyrir að vera með stærsta handverksmarkaðinn í S-Ameríku. Í dag fórum við á markaðinn og skoðuðum heilmikið og keyptum eitthvað. Við tróðum okkur í gegnum þvöguna með kerruna því Fríða María var sofandi. Það var hálf hallærislegt að vera með kerru á indíánamarkaði þar sem göturnar eru holóttar mannmergðin svakaleg, en hvað um það, Fríða María svaf vært og kærði sig kollótta um það hvort við værum í einhverjum vandræðum með að komast um.


-

þriðjudagur, febrúar 14, 2012

South-Beach 

Pálmatré, sandur milli tánna og kalt hvítvínsglas var það sem tók á móti okkur við komuna til Miami, ekki amalegt það! Við vorum búin að lofa Fríðu Maríu sumari og sól og sundlaug og hún var mjög spennt yfir því að komast í sund. En greyið varð fyrir þvílíkum vonbrigðum þegar við leyfðum henni ekkert að fara í sund fyrstu tvo dagana af þremur. Sundlaugin var jú á sínum stað, en sumarið og sólin bara svona hálfvegis, og því aðeins of kalt fyrir lilluna að spóka sig á sundbolnum.


Í stað þess fórum við í göngutúr um Miami South-Beach og gengum meðal annars framhjá Paulu Abdul, dómara í American Idol og X-Factor. En það fór lítið fyrir öðru frægu fólki í þessum göngutúr okkar sem gerði svo sem ekki mikið til.Í gær náðum við að shoppa aðeins og svo var loksins komið hið fínasta veður og litla prinsessan fékk að fara í hið langþráða sund. Hún skríkti af ánægju og ætlaði aldrei að vilja koma upp úr.

Nú er ferðin okkar um það bil að fá enn eksótískara yfirbragð því eftir örfáa klukkutíma fljúgum við til Suður-Ameríku, nánar tiltekið Ecuador. Þá fæ ég að upplifa 10 ára reunion í þessu stórkostlega landi, það verður frábært. Hasta Luego!

-

fimmtudagur, febrúar 09, 2012

"Start spreading the news..." 


Jæja þá erum við mæðgur komnar í Stóra Eplið - borgina sem aldrei sefur. Við flugum út fyrir viku síðan og höfum skemmt okkur konunglega og notið þess að eiga gæðastundir með Fríðu frænku. Fríða María stóð sig eins og hetja í fluginu, hún var eitt sólskinsbros alla leiðina og fannst þetta greinilega toppurinn á tilverunni. Við skulum vona að þessi ánægja með flugferðir haldi áfram hjá litlu dömunni því þetta var aðeins 1.flug af 11 flugferðum sem við förum í næstu tvo mánuði!

Ferðin byrjaði auðvitað með stæl því ég steingleymdi kerrunni á stofugólfinu heima - en því var reddað um leið og við komum út. Sólrún súper-mamma, vinkona Fríðu sem er með puttann á púlsinum varðandi allt sem viðkemur börnum í New York, benti okkur á notaða kerru til sölu á Craigs list. Þessi grasgræna glæsikerra hefur reynst alveg frábærlega síðastliðna viku, fyrir utan smá óhapp á 34.stræti í gær... en það fór nú allt vel.

Við erum búnar að gera ýmislegt skemmtilegt undanfarna viku: dunda okkur í Williamsburg sem er auðvitað yndislegt hverfi, fara í superbowl partý hjá Fríðu og Tait, elda með Fríðu frænku og fara tvisvar inn á Manhattan, fyrst með lest á Union Square og svo með East River ferjunni á 34.stræti. Svo fórum við í nokkurs konar leik-center í hverfinu þar sem Fríða María gat leikið sér eins og hún vildi, og hún var alveg að missa sig, henni fannst svo gaman. Þar fór hún líka í listatíma þar sem hún málaði æðislegt hjarta í tilefni Valentínusardagsins sem er eftir nokkra daga. Ég spurði hana hvort hún ætlaði að gefa pabba hjartað eða kannski Fríðu frænku? "Nei, Tait" svaraði hún ákveðin.Ásberg kemur í kvöld og þá hefst ferðin fyrir alvöru. Reyndar fengum við þær leiðinlegu fréttir í gær að afi Nonni, kæmist ekki í ferðina vegna veikinda. En Bjössi frændi ætlar að koma í hans stað og kemur út með ömmu Maríu á föstudaginn. Og svo er Miami næsta stopp!!Efnisorð:


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter