<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, febrúar 22, 2012

Carnival 



(Skrifað 19.feb)

Hér í Ecuador stendur yfir 4ra daga helgi, frá laugardegi til þriðjudags. Þetta kallast Carnival og Ecuador búar eru í fríi og flykkjast út á land til að skemmta sér. En í raun er á fæstum stöðum skrúðganga og carnival hátíðarhöld líkt og maður sér frá Rio de Janeiro í Brasilíu. Skemmtunin felst í því að sprauta froðu hvert á annað eða jafnvel fara í vatnsslag. Og svo eru tónleikar og dansað og sum staðar hoppukastalar fyrir börnin. Við fórum ekki varhluta af þessum froðuslag, það var bæði sprautað á okkur í Otavalo og í Tena og maður er hálfpartinn farinn að taka sveig í kringum glottandi börn og unglinga með froðubrúsa. En þetta er nú allt í gamni gert og við hlæjum bara að þessu.

Við kvöddum Andesfjöllin og Otavalo í morgun og héldum út í regnskóg í dag. Ég var mjög spennt fyrir því að komast aftur í hinn líflega og yndislega regnskóg, en jafnframt líka svolítið nervös yfir því að sjá hvort mikið hefði breyst. Mig dreymdi nefnilega í fyrrinótt að við værum komin niður að Rio Arajuno þar sem ég var að vinna sem sjálfboðaliði fyrir 10 árum síðan, og í draumnum voru þar hraðbátar og snekkjur og fullt af glæsihýsum.

Það helsta sem ég tók eftir á leið okkar til Tena, stærstu borgar regnskógarins með 30.000 íbúa, var að vegurinn var malbikaður alla leið, en það var hann heldur betur ekki fyrir 10 árum síðan. Svo komum við til Tena, og nú var þetta ekki lengur rykugur smábær, heldur malbikuð borg með umferðarljós og alles. Þvílík breyting. Tena var sem sagt bærinn þangað sem við Hulda fórum alltaf einu sinni í viku til að komast á internetið og hringja heim.

Fyrir 10 árum síðan var vegurinn frá Tena til Puerto Barantilla, þar sem við tókum alltaf canó út í dýraathvarfið Amazoonico, algjörlega hræðilegur. Hann var svo holóttur að rútan sem keyrði þarna á milli var tvo tíma á leiðinni þó að vegalengdin væri ekki nema 40 km. Núna er þessi vegur líka malbikaður og meira að segja ljósastaurar meðfram mikinn part vegarins. Það er því lítið mál að keyra þetta.
Það er svo skrítið hvernig partur af mér vill að allt sé nákvæmlega eins og það var. Mér fannst eitthvað svo sjarmerandi hvað allt var prímitívt hér einu sinni. En auðvitað á ég að gleðjast yfir því að efnahagur Ecuador sé að glæðast og fólkið búi nú við betri lífsgæði en áður.

Nú erum við í frumskógar hóteli sem kallast Iyarina Lodge, ég sit uppi í rúmi og heyri í engisprettunum og froskunum og öllum hinum frumskógarhljóðunum. Fríða María er voðalega glöð yfir að vera komin í frumskóginn, henni finnst þetta svakalega merkilegt, hún sá meira að segja hoppandi frosk rétt við kvöldverðarborðið okkar. Eitt það fyrsta sem hún sagði við mig eftir að við komum hingað var: ”mamma hvar er Diego?” og átti þá auðvitað við Diego teiknimyndapersónu sem bjargar öllum dýrunum í regnskóginum. Á morgun heimsækjum við Amazoonico og ég get varla beðið. Það verður spennandi að sjá hvað hefur breyst þar.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter