<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 27, 2004

Ég er að vinna samhliða náminu, með tilraunamýs. Þær eru notaðar í krabbameinsrannsóknir og ég hjálpa til við að framkvæma þær tilraunir á músunum sem þarf að gera, mæla túmorin o.s.frv. Og núna nýlega sá ég grein á netinu um eina af tilraununum - greyið mýsnar þjást sem sagt ekki til einskis... allavega ekki fyrir okkur mannfólkið. Þú getur lesið greinina HÉR.

-

föstudagur, nóvember 26, 2004

Jæja, þá er ég orðinn útlærður dýraníðingur.... já eða dýralæknir eða hvað ég á nú að kalla það. Síðasti dagurinn minn á spítalanum var í dag og ég framkvæmdi mína allra síðustu skurðaðgerð sem nemandi, næst verður það sem læknir.... og næst lifir sjúklingurinn vonandi af!! Ok ok ekki taka nein andköf, ég hef gert aðgerðir á allavega 6 köttum á skólaferlinum sem heppnuðust prýðilega. Ástæðan fyrir því að grísinn sem ég skar upp í dag dó, var ekki af því að ég er svona léleg, við einfaldlega aflífuðum greyið litla áður en hann vaknaði upp úr svæfingunni. Það var allan tímann ætlunin því hann var bara tilraunadýr, bara svona til þess að æfa sig.

Þetta er kosturinn við að vera dýralæknanemi en ekki læknanemi. Þegar þú lesandi góður kemur með hundinn eða köttinn þinn til mín til að láta skera hann upp, þá geturðu verið viss um að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég geri slíkt.... ég fékk að æfa mig í náminu.
En ef þú þarft sjálf/-ur að leggjast undir hnífinn - hvernig geturðu verið sannfærð um að læknirinn sem framkvæmir aðgerðina hefur prófað þetta áður? Allir skurðlæknar hafa einhvern tímann gert sína fyrstu aðgerð.... kannski var það á þér???

-

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Nú hef ég séð "My best friend's weeding" 3svar sinnum, og man aldrei hvernig hún endar. En í hvert einasta skipti held ég með Júlíu Róberts...... og verð síðan alltaf voða vonsvikin þegar ég kemst að því að Cameron Días fær draumaprinsinn....

Þýðir það að ég er vond manneskja, eigingjörn og hugsa bara um sjálfa mig??

Svar óskast í gestabókina.

-

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Hmmmm.....allt of lang síðan ég skrifaði síðast. Veit ekki alveg hvar ég á að byrja.

Get svo sem byrjað á slæmu fréttunum. Við Mikkel hættum saman fyrir uþb. mánuði síðan, og stuttu síðar dó litli augasteinninn minn hann Míó. Veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera þessa dagana, ég er svo vön því að fara í göngutúra með hundinn 4 sinnum á dag. Nú sit ég bara og horfi á vonlausa reality þætti í tíma og ótíma.

En sem betur fer á ég margar góðar vinkonur sem rífa mig upp úr þunglyndinu þegar ég þarf á því að halda.
Rósa vinkona dró mig með sér á tónleika á föstudaginn hjá íslensku hljómsveitinni Trabant. Það var ansi áhugaverð uppákoma. Það fyrsta sem ég tók eftir var að ég kannaðist við forsöngvarann. Þegar ég var í 3. bekk í MR á sínum tíma, var hann í 6.bekk, hann lék í Herranótt og spilaði í þeirri ansi huggulegu hljómsveit "Kósí". Ég var alveg ofsalega skotin í honum...... í allavega viku, eða hversu lengi sem þessi smáskot entust hjá mér í þá gömlu góðu...! En ég get nú ekki sagt að ég hafi kiknað í hnjáliðunum eða fengið fiðrildi í magann við þessa endurfundi núna 8 árum síðar. Bleikur augnskuggi, fitugt hár, sítt að aftan og brjóst stærri en mín eigin var það sem blasti við mér. Fögur var sjónin ekki, og einn af hápunktum kvöldsins var þegar hann stóð á nærbuxum einum fata og hristi spikið við mikinn fögnuð áhorfenda. Hann leit út fyrir að vera að fá þvílíka fullnægingu allt kvöldið, með tilheyrandi stunum og látbragði. Og gítarleikarinn hjálpaði til og lék nokkurs konar kynlífsþræl. Eftir tónleikana mundi ég ekki hvernig eitt einasta lag hljómaði.....frekar fyndið!!

Jæja, ætla að reyna að setja inn myndir frá dýralæknaskólanum í USA, betra er seint en aldrei.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter