<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 31, 2003

Mamma og pabbi eru að koma á eftir, ásamt Jóni Kristjáni litla bróður. Ég ætla að fara út á flugvöll og taka á móti þeim. Svo verður bara að koma í ljós hvort við komumst öll fyrir í litla herberginu mínu!!

Gestabókin virkar ekki þessa stundina. Ég mun reyna að laga það einhvertíman á næstunni, en ekki núna um helgina...

-

mánudagur, október 27, 2003

Mikkel sagði við mig í gærkvöldi: "Þú lítur svo vel út, þú ert með svo fallegan lit í kinnunum". Ég hugsaði með mér, ok ég hef ekki verið annað en grá og guggin síðastliðnar vikur, og ég hef A)ekki verið ljósum B)er ekki nýkomin úr heitu baði og C)hef ekki sett á mig kinnalit. Varð að leysa þessa ráðgátu og náði í hitamælinn, þá kom í ljós að ég var með 38 stiga hita. Hmmmm..... þýðir þetta að ég líti betur út veik en heilbrigð? Ætti ég alltaf að fara illa klædd út í kuldann svo ég sé stöðugt með smá kvef og hita? Þá verð ég kannski bæði rjóð í kinnum og með sexy hása rödd... verð að íhuga þetta aðeins.

-

sunnudagur, október 26, 2003

Enn einu sinni tókst mér það!!
Það mætti ætla að eftir 4 ár í Danmörku væri ég búin að læra að tíminn breytist alltaf tvisvar á ári, en neeeeiiii, mitt litla íslenska höfuð getur hvorki skilið né munað svona tímaskekkju. Já ég mætti klukkutíma of snemma í vinnuna og uppgötvaði það ekki fyrr en ég var búin að hringja í bakaríið og skamma þá fyrir að koma of seint með brauðið. "Ehemm, fyrirgefðu vinan, en þú veist að klukkan er ekki nema átta??!!!"
Og ég sem óskaði þess að geta sofið aðeins lengur þegar vekjaraklukkan hringdi.......

-

föstudagur, október 24, 2003

Nei nei nei, vitiði bara hvað?! Kemur Mikkel ekki bara heim og segir: "Fordi du er så sød" og svo gefur hann mér rauða rós. Þessi elska, hann er þá eilítið rómantískur eftir allt saman.

-
Ég er nokkurnveginn búin að jafna mig eftir fráfall Símonar og mér líður mikið betur núna. Ég er nýkomin heim úr velheppnaðri sumarbústaðarferð með Mikkel og Míó og við erum alveg endurnærð. (Haustfrí eru algjör snilldaruppfinning!!)
En nú er ég allt í einu komin með heimþrá. Já meiri heimþrá en ég hef nokkru sinni fengið síðastliðin 4 ár. Mamma og Pabbi og Litli bróðir koma sem betur fer í heimsókn eftir viku.... jibbí jei. Og svo er ég búin að panta far heim um jólin, og þökk sé Sólrúnu fékk ég flugfar á 2500dkr í stað 3800dkr. Ég kem heim 19. desember og fer aftur til Köben 3. janúar. Því miður er ég ekki að styrkja IcelandExpress í þetta sinn, sveik lit og fékk far hjá óvininum og einokunarskrímslinu Flugleiðum.

Ég er ákveðin í að rífa mig upp úr skammdegisþunglyndinu og hrista á mér skankana. "Glow in the dark" hlaupaskórnir hafa æpt á mig með skærhvítri birtu sinni síðan ég keypti þá fyrir 2 mánuðum síðan. Í gær tók ég mig til og fór eldsnemma í líkamsræktarstöðina og naut þess að svitna svolítið. Núna á eftir ætla ég að fara í klifur með Mikkel, hmmmm.... ég veit nú ekki alveg hvernig það á eftir að ganga þar sem ég hef akkúrat enga krafta í höndunum. En það sakar ekki að reyna, í það minnsta tekst mér að þjálfa brosvöðvana og hláturtaugarnar.

-

laugardagur, október 11, 2003

Eins mikið og dagurinn í gær var skemmtilegur (út að borða, menningarnótt og fl.), þá er dagurinn í dag búinn að vera mjög leiðinlegur og sorglegur. Þegar ég kom heim úr vinnunni var Símon litli dáinn. Ég trúði varla mínum eigin augum, síðast þegar ég sá hann flaug hann um og söng af gleði.... hann virtist alveg vera búinn að ná sér eftir veikindin. Ég fór að skæla og hringdi í mömmu til að fá smá huggun.
Ég hef átt marga gára í gegnum tíðina, en Símon var alveg sérstakur páfagaukur. Ég fékk hann beint úr hreiðrinu frá mömmu sinni, þannig að hann varð alveg einstaklega gæfur. Hann lærði líka aðeins að tala, kunni að segja: "halló, Símon, hæ sexý" og svo gat hann hermt eftir símhringingunni minni og tókst þannig að plata mig oftar en einu sinni. Og hann var meira að segja búinn að læra nafnið á "litla bróður sínum" og sagði Míó öðru hvoru.
Nú er ég eitthvað svo einmana því Símon er ekki bara farinn frá mér, Mikkel er hjá foreldrum sínum og hann tók Míó með sér. Og ég er alveg ómöguleg án gæludýranna minna.....puhuhu...

-

fimmtudagur, október 09, 2003

Þá er Frikki krónprins loksins búinn að trúlofast henni Maríu sinni. Þetta er alveg svakalegt mál hérna í Danmörku, bein útsending af trúlofuninni var sýnd allan daginn í gær. Ég skildi nú ekki alveg út á hvað þetta gekk, hélt kannski að hann færi niður á skeljarnar í beinni útsendingu eða eitthvað svoleiðis. Mikkel hélt ég væri að gera grín að kóngafjölskyldunni "hans" og varð mjög móðgaður. "Þetta er elsta mónarkí í heimi" sagði hann og settist niður með augun límd við skjáinn. Okkur Míó fannst þetta allt of yfirdrifið svo við fórum bara inn í svefnherbergi og lásum skólabækur. Innan úr stofunni heyrðist öðru hvoru: "kom musen, kom og se dronningen tale"...."kom nu og se Marys smukke kjole"......"kom, nu viser de ringen"...... o.s.frv.

-

þriðjudagur, október 07, 2003

Ég skilaði ritgerð á föstudaginn. Það var svo mikill léttir að ég svaf nánast alla helgina. Ég vaknaði bara aðeins á sunnudaginn til að fara til "hundasálfræðingsins", eins og Mikkel kallar það. Þetta er í raun bara ósköp venjuleg hundaþjálfun sem við Míó höfum bæði gagn og gaman af. Mikkel var eitthvað að kvarta yfir því að ég sýndi hundinum meiri athygli en honum. Mér finnst nú algjör óþarfi að vera afbrýðissamur út í hund, og þar að auki lítur það oft út fyrir að Mikkel sé meira hrifinn af Míó en mér. Ég meina Mikkel elskar þennan hund næstum því jafn mikið og ég, og Míó gjörsamlega dýrkar Mikkel. Á laugardagskvöldið fór Mikkel á djammið og kom heim kl. 5 um nóttina. Og hvað er það fyrsta sem hann gerir? Fer inn í stofu, leggst upp í sófa MEÐ MÍÓ, og þar sofa þeir kallarnir saman til kl. 7. Þá kemur Mikkel loksins inn í rúm til mín. Talandi um forgangsröðun......hnusss..

.......Meira um ástarþríhyrninginn í næsta þætti af "Ástir og Undirferli í Kóngsins Kaupmannahöfn"

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter