<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 31, 2008

Hrakfallabálkur 

Undanfarna daga hef ég verið alveg einstaklega mikill klaufi. Ég er alltaf að hrasa, eða reka mig í, jafnvel labba á hurðir eða veggi. Ég hef alltaf verið klaufi, en núna síðastliðna daga hefur þetta verið alveg fáránlega mikið. Bara í dag td. fyrst labbaði ég á stofuhurðina, svo rak ég mig í eldhúsborðið. Á leiðinni í vinnuna (ég var í strigaskóm) þá missteig ég mig á jafnsléttu og flaug næstum því á hausinn. Svo kom ég í vinnuna og missti bolla á tærnar á mér. Og meðan ég var að borða hádegismatinn þá beit ég mig mjög illa í tunguna. Og stuttu síðar beit ég mig AFTUR í tunguna. Og klukkan er ekki nema rétt rúmlega eitt. Hvernig ætli restin af deginum verði??

Ætli þetta sé ekki bara fjölskyldugenið, hún Bergþóra frænka mín er víst líka klaufi, og það eru að ég held fleiri í familíunni.

-

föstudagur, mars 28, 2008

Óvenjuleg meðganga 

Ég man þegar ég var yngri þá sá ég bók, á náttborðinu hjá mömmu og pabba, með ansi merkilegan titil. Ég man því miður ekki alveg hver titillinn var nákvæmlega, en þetta vakti mikla furðu hjá mér, því bókin fjallaði um karlmann sem hélt að hann væri óléttur. Þrátt fyrir ungan aldur, þá þóttist ég nú samt nokkuð viss að þetta hlyti að vera ógerlegt. Og grunur minn var staðfestur þegar ég komst að því að bókin væri skáldskapur.
En mér fannst ég allt í einu hoppa mörg ár aftur í tímann og vera aftur orðin óviti í kynfræðslu, þegar ég las grein sem ég fann á netinu í dag. Greinin fjallar einmitt um óléttann karlmann, líklega þann fyrsta í heiminum. Mér finnst þetta einhvern veginn hlægilegt og yndislegt í senn. Ef ég hefði verið í þessu hjónabandi, hefði ég örugglega valið auðveldu lausnina og ættleidd barn. En mér finnst þau eiga heiður skilið fyrir að þora að fylgja draumum sínum, og standa af sér fordóma ættingja, vina og heilbrigðisstarfsmanna. Ég vona bara að þetta gangi vel hjá þeim og þau eignist heilbrigða dóttur í Júlí.

-

laugardagur, mars 08, 2008

Gutti sjónvarpsstjarna enn á ný! 

Hann Gutti karlinn nýtur sín svo sannarlega í sviðsljósinu. Á föstudaginn kom fréttastofa sjónvarpsins að taka viðtal við okkur og skoða búðina. En Gutti stal auðvitað senunni og var í essinu sínu. Það mætti nú spyrja sig hvort við værum að gera upp á milli barnanna okkar, því Gutti er orðinn hálfpartinn andlit búðarinnar, en Táta fær lítið að spjara sig. Sannleikurinn er bara sá að hún Táta litla er pínu feimin og kærir sig ekkert um að láta mynda sig eða ef það er mikið umstang í kring um hana. Hún er kannski ekki með eins mikið sjálfstraust og Gutti, en hún er alveg yndislegur köttur, ofsalega kelin, blíð og góð. Og svo kann hún líka að sækja bolta eins og hundur.

Ég sé það að sumir hafa nú þegar séð fréttirnar í kvöld. Ég var að enda við að skoða þetta sjálf á netinu. Takk fyrir kommentin.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter