<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, ágúst 14, 2004

Röntgen var ágæt. Batnaði aðeins eftir því sem leið á vikuna. Þessi vika er eiginlega búin að vera meira partý en kennsla. Það var afmælisveisla í svæfingum alla vikuna.....því 4 starfsmenn áttu afmæli. Á miðvikudaginn var grillveisla fyrir utan skólann í hádeginu, sem sagt ókeypis hádegismatur. Í gær keypti Dr.Barbee subway og köku fyrir alla í röntgen, því ungverski "residentinn" var að hætta. Og í dag sendi Dr. Barbee okkur út með 100$ seðil og sagði okkur að kaupa ís fyrir alla.

Þessi síðasta vika mín hérna er búin að vera ansi skemmtileg. Við fórum nokkrir krakkar út úr bænum að horfa á stjörnuhrap á mánudagskvöldið. Það var frekar flott. Ég hef aldrei séð svona mörg stjörnuhröp áður. Svo matarboð, sjov og ballade, á miðvikudagskvöldið.

Í gær ætluðum við svo að fara til Moscow að læra Country-Swing-Dancing. Þegar við svo mættum á staðinn var enginn dans, bara nokkrar dragdrottningar að "pósa" fyrir myndatökur. Hmmmm......áhugavert. Svo við keyrðum aftur til Pullman, og fórum að hlusta á æfingu með hljómsveitinni hans Dr.Barbee. Það var brjálæðislega fyndið. Þarna var samankomið hið skrautlegasta lið af smábæjarpakki í innvíðum gallabuxum og með sítt að aftan. Svo byrjuðu þau að spila rock and roll, þar sem greinilegt var að hávaðinn skipti meira máli en gæðin. Tvíburadætur hans Dr. Barbee voru forsöngvarar.........oboy oboy, ég hef aldrei heyrt þvílíka píkuskræki. Og ekki nóg með það, þær sungu af þvílíkri innlifun að þær voru greinilega vissar um að vera tvíburaútgáfan af Celine Dion.

Jæja ég verð að fara að drífa mig, það er BBQ í kvöld, nokkurs konar kveðjupartý fyrir mig. Mikkel kemur líklega líka í kvöld og svo er bara næst á dagskrá: ROAD-TRIP



-

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Ég er alveg að mygla núna í röntgen........sakna cardiology og anaesthesia. En jæja, helgin var allavega skemmtileg, get sagt ykkur frá henni.

Síðustu tvær vikur hefur verið hérna 40 manna hópur af japönskum dýralæknanemum. Og föstudagskvöldið var síðasta kvöldið þeirra svo það var haldin veisla með mat og ókeypis bjór, og okkur hinum útlensku nemunum var líka boðið. Japanarnir voru skrautlegir, mættir í sínu fínasta pússi í kímónó og ég veit ekki hvað og hvað. En þeir töluðu næstum enga ensku svo það var frekar erfitt að eiga einhver samskipti við þau. En eftir að bjórinn fór að flæða og músíkin að duna, töluðum við bara hið alþjóðlega tungumál dansins........hoppuðum og hristum alla skanka. Það var frekar fyndið.

Ég fór að sofa klukkan 4 þá nótt, og vaknaði svo klukkan hálf átta, því ég var búin að mæla mér mót við dönsku Line. Við hjóluðum saman til Moskow, sem er næsti bær við Pullman........og í næsta fylki, þeas. Idaho. Soldið skrítið að geta bara hjólað yfir í næsta fylki.
Við fórum á ávaxtamarkaðinn og í mollið og svona.....

Um kvöldið var svo svaka grillveisla einhversstaðar úti í buska við "Snake River". Scott, einn af amerísku dýralæknanemunum skipulagði veisluna, og hafði boðið öllum senior nemunum, okkur útlendingunum og nokkrum kúrekum sem búa við Snake River og sjá víst ekki stelpur nema einu sinni á ári.............þeir voru hæstánægðir með þessa uppákomu. Já og svo var Dr. Voelzel þarna líka, skurðlæknirinn sem er nýbyrjaður að vinna í þessum skóla. Hann er bara 27 ára, ótrúlegt hvað maður getur útskrifast ungur hér um slóðir. Og svo höfðu flestir tekið hundana sína með sér, mjög hugguleg hundasamkoma.
Scott slátraði kind sem var svo grilluð og borðuð með bestu lyst. Bjórinn var ansi svalandi í hitanum, og áhrifin létu ekki standa á sér. Hundarnir notuðu tækifærið og gripu grillbita hér og þar, þar sem flestir voru of ölvaðir til að veita því eftirtekt. Ég skemmti mér konunglega þangaði til ég sá að einhver bar einn af hundunum vælandi inn í húsbílinn. Ég fylgdi á eftir til að heyra hvað hefði gerst, og ég sá að framfóturinn var bólginn með tvö hringlaga sár hlið við hlið. Einn kúrekunum var eigandi hundsins og hann sagði að þetta væri greinilega bitsár eftir skröltorm. Og þarna vorum við semsagt, "in the middle of nowhere", uþb. 20 dýralæknanemar og fæstir voru í ástandi til að hjálpa greyið hundinum. En ég hef sko aldrei lært neitt um það hvernig á að meðhöndla snákabit........ég hef bara séð í bíómyndum að maður sker eitthvað í þetta og sýgur svo eitrið út. Enginn bauð sig fram til að sjúga út skröltormaeitrið......kannski ekkert svo skrítið. Kúrekinn neitaði að fara með hundinn til dýralæknis.....það yrði víst allt of dýrt!! Common, ef þú getur ekki borgað dýralæknareikninga þá skaltu ekki fá þér gæludýr. Ég sagði það reyndar ekki við hann, bölvaði bara í hljóði, bæði honum og sjálfri mér fyrir að vita ekki neitt um snákabit. Var síðan skíthrædd um að verða bitin í rassinn af skröltormi þegar ég þurfti að pissa.
Daginn eftir tékkaði ég á hundinum og hann var allavega enn á lífi og hættur að væla. En nú var allur fótleggurinn stokkbólginn og hjartað sló alveg á miljón, hann andaði líka allt of hratt. Ég reyndi enn og aftur að stinga upp á því að fara með hundinn til dýralæknis, allavega til að fá einhver verkjalyf..........neeeeeiiii var bara svarið.
Fuss og svei, sumt fólk ætti ekki að hafa leyfi til að eiga dýr.



-

föstudagur, ágúst 06, 2004

Fyrstu tvær vikurnar mínar hérna var ég alltaf íklædd "scrubs", þið vitið þessum bláu "náttfötum" sem maður verður að vera í ef maður er í skurðaðgerðum eða anæstesíu. Síðastliðinn mánudag mátti ég svo loksins vera í hvíta sloppnum mínum, svo ég klæddi mig í mín þægilegustu föt: hlaupaskó, víðar buxur og gamlan slitinn bol og svo sloppinn utanyfir. Þegar ég svo mætti á spítalann fattaði ég allt í einu að ég passaði alls ekkert inn í fjöldann. Allir voru svo FÍNIR nema ég!!! Það er víst eitthvað "dresscode" svo strákarnir verða að vera í skyrtu með bindi, stelpurnar í skyrtu eða fínum bol, og allir í frekar fínum buxum og svörtum leðurskóm. Það sagði svo sem enginn neitt við mig, en ég hef reynt að mæta aðeins fínni síðan.

Það var voða lítið að gera í hjartalækningum í dag, svo ég labbaði bara aðeins um spítalann og tók myndir. Ég sá m.a. hvítan dóberman hund (mjög spes) og svo sá ég tvo rottweiler hunda sem höfðu víst ráðist á stóran broddgölt. Greyið hundarnir voru allir út í broddum, reyndar var búið að taka mest alla broddana úr þeim þegar ég kom, en þetta var samt alveg svakalegt. Annar hundurinn var með brodda yfir allt andlitið og uppi í munninum á tungunni og allt.

Flestallir nemendurnir hafa tekið að sér heimilislaus dýr sem hafa komið á spítalann. Nú þegar hefur verið reynt að "pranga" inn á mig rottveiler hvolpi sem ég svæfði í síðustu viku fyrir geldingu, og líka littla kettlingnum sem ég sagði ykkur frá með brotnu fæturna. Hann er svo sætur, heitir Spice og er svo pínkulítill með stálpinna sem stingast út úr brotnu fótleggjunum. Ef ég ætti ekki heima í lítilli íbúð í miðri stórborg, þá mundi ég taka hann að mér. Ég fer alltaf og kíki á hann á hverjum degi.............ohhhhhh.......

-

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Helgin var frábær....... Verslunarmannahelgin þeas..... nema bara ég var búin að steingleyma því. Svo sem bara ósköp venjuleg helgi hérna í Ameríku.

En sem sagt, ég fór út að drekka bjór á föstudagskvöldið með öðrum dýralæknanemum og dýralæknum. Fórum á Rico´s..... sem er reyndar eini staðurinn þar sem hægt er að drekka bjór hér í Pullman held ég, svo það var ekki um svo mikið að velja. Svo kom Mikkel, dauðþreyttur eftir 6 tíma keyrslu, voða gaman að kyssa og knúsa hann aftur!!

Veðrið yfir helgina var brjálæðislega gott, við fórum í sund tvisvar og ég gerði mig að algjöru fífli í annað skiptið. Get víst ekki sýnt mig aftur í sundlauginni í Pullman. Veit ekki alveg hvort ég eigi að segja frá þessu................ hmmmmmmmmm......... jú jú. Ég semsagt ætlaði bara að prófa að stinga mér af þessu sniðuga stökkbretti, voða skemmtilegt svona dúandi og allt. Var samt pínu smeik yfir því að bikiní brjósahaldarinn myndi detta af. Jæja lét mig hafa það og viti menn..... ég missti bikiní buxurnar alveg niður á hné. Girti mig aftur í flýti og kom síðan upp úr kafi alveg í hláturskasti. Ég held samt að enginn hafi séð nema sundlaugarvörðurinn, en hann var aftur á móti með ansi gott sjónarhorn af þessu öllu saman. Ég held eiginlega að hann hafi verið meira vandræðalegur en ég.
Svo spiluðum við golf, ég var að prófa í fyrsta skipti og ég verð nú að segja, ég held ég sé efni í meistara.... eða eitthvað. Mér tókst allavega að hitta golfkúluna og hún rúllaði svolítinn spotta, og ég var að drepast í handleggjunum eftir hálftíma svo ég hlýt að hafa verið að gera eitthvað rétt .
Við spiluðum líka tennis, en það var frekar "unfair game" þar sem Mikkel hefur spilað tennis síðan hann var 7 ára og ég hef bara prófað einu sinni áður. Ég byrjaði á því að ætla að vera voða kúl eins og tennisstjörnurnar í sjónvarpinu sem ég hef séð, og kasta boltanum upp í loftið fyrir uppgjöf. Það tókst ekki betur til en svo að ég sló boltann í augað á mér. "Í augað á sjálfri þér"!! hugsar þú væntanlega, það ætti ekki að vera hægt....... en jú mér tókst það. Og ég hef vitni, Mikkel sagðist aldrei hafa séð neitt þessu líkt á 20 ára tennisferli sínum. Eftir þetta litla óhapp gekk mér aðeins betur, en ég varð samt frekar óþolinmóð í lokin og hitinn var óbærilegur, svo ég endaði með því að slá boltann út af vellinum, yfir grindverkið og niður þykkan þyrnirunna svo ég fann boltann aldrei aftur.
Og svo enn ein íþróttagrein sem ég er byrjuð að stunda: ég spilaði Pool í fyrsta sinn fyrir viku síðan og spilaði svo aftur með Mikkel um helgina. Og ÞAÐ er gaman. Ok ég er kannski ekkert rosa góð, en ég er heldur ekkert hræðileg. Og ég er ekki ennþá (ég tek fram ekki ENNÞÁ) búin að gera mig að fífli þar. Svo ég er svona að íhuga atvinnumennsku.... ég meina hver nennir að lifa á því að vera dýralæknir.

Já vel á minnst, dýralæknir. Kanski ætti ég að verða hjartadýralæknir. Það er allavega voða gaman í hjartalækningum. Ég fékk smá egó-búst í gærmorgun þegar við byrjuðum. Dýralæknirinn spurði okkur um allskonar tengt hjartasjúkdómum og rannskóknum. Ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið þegar það kom alltaf þögn eftir hverja spurningu og enginn svaraði. Ég vissi svarið svo ég svaraði. Og svo gerðist það aftur, og aftur og aftur. Og ég hugsaði með mér: "er ég svona klár eða þau svona vitlaus, eða hvað er eiginlega í gangi hérna??" Ég er nefnilega vön því úr skólanum í Köben að ég næ varla að hugsa mig um áður en einhver annar svarar. Þannig að þetta var algjörlega ný lífsreynsla fyrir mig. En eftirá komst ég að mjög hugsanlegri skýringu...... þannig er mál með vexti að bandarísku nemendurnir fá alltaf einkunn og umsögn eftir hvern kúrs, og ef þeir falla í kúrsinum þurfa þeir að taka hann aftur. Og orðrómurinn er að hjartalæknarnir gefi alveg hræðilegar einkunnir og umsagnir, þannig að nemendurnir eru dauðhræddir um að svara einhverju vitlaust, svo þau þeygja bara í staðinn. Mjög spes. En þetta reyndar lagaðist aðeins í dag, þau opnuðu aðeins munninn og ég komst að því að þau eru sko alls ekkert vitlausari en ég.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter