<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Ég er alveg að mygla núna í röntgen........sakna cardiology og anaesthesia. En jæja, helgin var allavega skemmtileg, get sagt ykkur frá henni.

Síðustu tvær vikur hefur verið hérna 40 manna hópur af japönskum dýralæknanemum. Og föstudagskvöldið var síðasta kvöldið þeirra svo það var haldin veisla með mat og ókeypis bjór, og okkur hinum útlensku nemunum var líka boðið. Japanarnir voru skrautlegir, mættir í sínu fínasta pússi í kímónó og ég veit ekki hvað og hvað. En þeir töluðu næstum enga ensku svo það var frekar erfitt að eiga einhver samskipti við þau. En eftir að bjórinn fór að flæða og músíkin að duna, töluðum við bara hið alþjóðlega tungumál dansins........hoppuðum og hristum alla skanka. Það var frekar fyndið.

Ég fór að sofa klukkan 4 þá nótt, og vaknaði svo klukkan hálf átta, því ég var búin að mæla mér mót við dönsku Line. Við hjóluðum saman til Moskow, sem er næsti bær við Pullman........og í næsta fylki, þeas. Idaho. Soldið skrítið að geta bara hjólað yfir í næsta fylki.
Við fórum á ávaxtamarkaðinn og í mollið og svona.....

Um kvöldið var svo svaka grillveisla einhversstaðar úti í buska við "Snake River". Scott, einn af amerísku dýralæknanemunum skipulagði veisluna, og hafði boðið öllum senior nemunum, okkur útlendingunum og nokkrum kúrekum sem búa við Snake River og sjá víst ekki stelpur nema einu sinni á ári.............þeir voru hæstánægðir með þessa uppákomu. Já og svo var Dr. Voelzel þarna líka, skurðlæknirinn sem er nýbyrjaður að vinna í þessum skóla. Hann er bara 27 ára, ótrúlegt hvað maður getur útskrifast ungur hér um slóðir. Og svo höfðu flestir tekið hundana sína með sér, mjög hugguleg hundasamkoma.
Scott slátraði kind sem var svo grilluð og borðuð með bestu lyst. Bjórinn var ansi svalandi í hitanum, og áhrifin létu ekki standa á sér. Hundarnir notuðu tækifærið og gripu grillbita hér og þar, þar sem flestir voru of ölvaðir til að veita því eftirtekt. Ég skemmti mér konunglega þangaði til ég sá að einhver bar einn af hundunum vælandi inn í húsbílinn. Ég fylgdi á eftir til að heyra hvað hefði gerst, og ég sá að framfóturinn var bólginn með tvö hringlaga sár hlið við hlið. Einn kúrekunum var eigandi hundsins og hann sagði að þetta væri greinilega bitsár eftir skröltorm. Og þarna vorum við semsagt, "in the middle of nowhere", uþb. 20 dýralæknanemar og fæstir voru í ástandi til að hjálpa greyið hundinum. En ég hef sko aldrei lært neitt um það hvernig á að meðhöndla snákabit........ég hef bara séð í bíómyndum að maður sker eitthvað í þetta og sýgur svo eitrið út. Enginn bauð sig fram til að sjúga út skröltormaeitrið......kannski ekkert svo skrítið. Kúrekinn neitaði að fara með hundinn til dýralæknis.....það yrði víst allt of dýrt!! Common, ef þú getur ekki borgað dýralæknareikninga þá skaltu ekki fá þér gæludýr. Ég sagði það reyndar ekki við hann, bölvaði bara í hljóði, bæði honum og sjálfri mér fyrir að vita ekki neitt um snákabit. Var síðan skíthrædd um að verða bitin í rassinn af skröltormi þegar ég þurfti að pissa.
Daginn eftir tékkaði ég á hundinum og hann var allavega enn á lífi og hættur að væla. En nú var allur fótleggurinn stokkbólginn og hjartað sló alveg á miljón, hann andaði líka allt of hratt. Ég reyndi enn og aftur að stinga upp á því að fara með hundinn til dýralæknis, allavega til að fá einhver verkjalyf..........neeeeeiiii var bara svarið.
Fuss og svei, sumt fólk ætti ekki að hafa leyfi til að eiga dýr.



-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter