<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 19, 2012

Feliz Compleaños 

Ásberg hóf 33 ára afmælisdaginn sinn í Uruguay og endaði hann í Argentínu, ekki amalegur afmælisdagur það. Við fórum í yndislega sólarhringsferð til Colonia í Uruguay, en það vill svo skemmtilega til að sá bær er aðeins í klukkutíma siglingarfjarlægð frá Buenos Aires þannig að okkur fannst tilvalið að skella okkur. Og við sáum svo sannarlega ekki eftir því.

Við fundum sjarmerandi lítið hótel í þessum fallega bæ, Colonia, sem er á heimsminjaskrá Unesco. Það er fátt huggulegra en að ganga um tígulsteinslagðar göturnar og dást að rómantísku útliti húsanna. Svo var það auðvitað toppurinn að sitja á veitingastað við Rio de La Plata og fylgjast með gullfallegu sólarlagi. Eftir að Fríða María var sofnuð í kerrunni fórum við svo á annan veitingastað, í þetta sinn steikarstað og gæddum okkur á safaríkri steik, nammi namm. Og ég pantaði afmælisdesert fyrir Ásberg, svo hann fékk að blása á kerti um miðnætti, rétt þegar afmælisdagurinn hans var að byrja. Fríða María vaknaði aðeins þá og fékk að fylgjast með.

Daginn eftir blés Ásberg á kerti númer 2 og fékk gjöf og kort frá okkur mæðgunum. Við dóluðum okkur í sólinni og sundlauginni fram að hádegi og fórum svo á rauðvíns- og osta-smökkunarstað í hádeginu – þvílík hamingja.

Um kvöldið þegar við vorum komin aftur til Buenos Aires kom Fjóla barnapía í heimsókn og sá um Fríðu Maríu meðan við fórum á Osaka – flottasta sushi stað bæjarins. Og Ásberg fékk enn einn afmælisdesertinn og blés á 3ja kertið.

Næsta dag var komið að 3ja ára afmæli litlu skvísunnar, og hún fékk hvorki meira né minna en prinsessuköku og kórónu sem mamma hennar hafði haft mikið fyrir að búa til. Sú stutta var að vonum ánægð, og ekki síður ánægð þegar hún fékk að fara í Museo de los niños, eða krakkasafnið. Það gat hún leikið sér í hinum ýmsu hlutverkaleikjum, svo sem afgreitt á McDonalds, verið strætóbílstjóri, læknir eða sjónvarpsstjarna. Eftir 4 klukkutíma var hún ekki enn komin með nóg og við þurftum að múta henni með ís til að geta farið að borða. Þetta var ekki síður vel heppnaður afmælisdagur.

Nú er að líða að lokum á dvöl okkar hér í Buenos Aires. Við fljúgum til Ecuador á morgun. Við höfum tekið því rólega í dag, erum aðeins byrjuð að pakka og fórum með fötin okkar í þvott. Það var afar heitt í dag eins og nánast alla daga hérna, en þegar við fórum að sækja fötin kom rok og rigning. Við vorum svo sem ekkert að stressa okkur á því, settum bara regnslá yfir kerruna og teygðum okkur í regnhlífina. En þegar við vorum komin að þvottahúsinu fóru nokkrir gaurar að hrópa á okkur og benda upp í himininn en við skildum ekkert hvað þeir voru að segja og af hverju þeir væru að panikka svona – enginn er verri þó hann vökni örlítið. En allt í einu heyrðum við háværan dynk og sáum eitthvað sem dældaði þakið á bílnum rétt hjá – hvað gat það verið? Jú, haglél! Og engin smá haglél, stærstu kornin voru á við plómur þannig að við áttum fótum okkar fjör að launa. Karlinn í þvottahúsinu afgreiðir fötin alltaf í gegnum lúgu, en í ljósi aðstæðna bauð hann okkur inn í þvottahúsið. Við trúðum varla eigin augum, ég hef heyrt um svona haglél en aldrei séð hana fyrr. Við hefðum líklega rotast eða drepist hefðum við fengið einn svona hnullung í höfuðið. En þvottakarlinn hristi bara hausinn þegar ég var að furða mig á hvað þetta væri stórt, hann sagði að þetta væri ekkert svo stórt, það væri stórt þegar það væri á við epli, og svo lýsti hann stærðinni með höndunum!

http://www.buenosairesherald.com/article/95816/heavy-rains-hail-hit-ba-city-province


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter