<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 01, 2008

INDIAN SUMMER 


Því er spáð að hér á Englandi verði indverskt sumar í september. Þ.e.a.s. heitir dagar með miklum skýfalls rigningum inn á milli. Ég veit nú ekki hvort það eigi eftir að rætast en eftir týpískt leiðinlegt breskt sumar síðastliðna mánuði þá væri það alveg kærkomið. Við fengum smjörþefinn af því núna um helgina. Á laugardaginn var bongóblíða og allir flykktust niður á strönd, þar á meðal við. Við grilluðum í góðra vina hópi, og flestir fengu sér sundsprett í sjónum. Ég fór ekki í sjóinn þar sem ég var enn að jafna mig af slæmu kvefi, og vildi því ekki taka neina áhættu. Um kvöldið lá leiðin heim til eins úr hópnum og við grilluðum enn meir.

Klukkan hálfsjö á sunnudagsmorgunn vöknuðum við svo við svakalegar þrumur og eldingar, og svo þvílíka rigningu að ég hef bara aldrei upplifað annað eins á norðurhveli jarðar. Mér fannst eitthvað svo yndislegt að liggja svona milli svefns og vöku og heyra í óveðrinu fyrir utan. Mér leið eins og við værum í fríi einhvers staðar í suðrænum löndum.


Dimma litla er orðin 6 mánaða og hefur nánast yfir nótt breyst úr óþekkum hvolpi yfir í þægan og góðan hund. Hún stóðst brons prófið í hundaskólanum með glæsibrag um daginn. Gutti og Táta eru bara hress og kát eins og venjulega. En þetta eru ekki einu fréttirnar af litlu doolittle fjölskyldunni í Brighton. Fjölskyldan mun nefnilega stækka eftir ca 6 mánuði því þá eigum við Ásberg von á barni sem mun (vonandi) hvorki gelta né mjálma. Það er því eintóm hamingja hér á bæ.


Við fórum í 12 vikna sónar til London um daginn og það var mikill léttir og gleði að sjá loksins krílið sprikla og hreyfa sig.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter