<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, september 24, 2003

Allt gott að frétta af mér. Er í verklegum æfingum á smádýraspítalanum í þessari viku og það er mjög spennandi. Fæ reyndar ekki að gera mikið annað en að fylgjast með, en það er svo sem lærdómsríkt.

Það var allt rafmagnslaust á Sjálandi í gær, og reyndar líka í hluta Svíþjóðar. Ég get nú ekki sagt að það hafi haft mikil áhrif á mig. Ég var að horfa á sjónvarpið meðan ég borðaði hádegismatinn þegar það slokknaði skyndilega. Ég furðaði mig svolítið á þessu en lagðist svo bara í sófann og fékk mér smá lúr með Míó. Ég vaknaði við að síminn hringdi. Það var Mikkel sem sagði mér að það væri rafmagnslaust í allri borginni. Hmm, þá voru góð ráð dýr. Hvað er hægt að gera sem krefst ekki rafmagns (annað en að sofa)? Ég gat ekki haldið áfram með ritgerðina mína af því að tölvurnar virkuðu ekki. Ég gat ekki fengið mér að borða af því ég átti ekkert til og það var ekki hægt að versla því kassarnir eru orðnir svo tæknilegir nú á dögum með strikamerkis-skanna og ég veit ekki hvað og hvað. Ég gat ekki horft á sjónvarpið eða hlustað á útvarpið. En hins vegar gat ég farið út í göngutúr með Míó litla, og það gerði ég. Við fórum í langan göngutúr og enduðum úti í garði þar sem ég þjálfaði hann í cirkús kúnstum, hoppa í gegn um húlla hop hring, fara zik zak milli fótanna á mér ofl. Þegar göngutúrnum var lokið var rafmagnið komið aftur á (í Frederiksberg þar sem ég á heima) og allt var komið í sama horf og venjulega. En það voru víst ekki allir jafn heppnir og ég.

Símon er orðinn hress og sprækur og er loksins farinn að fljúga aftur. Reyndar með nokkrum nauðlendingum af og til, m.a. einu sinni í vatnsskálinni hans Míó. Eða kannski var það viljandi, öll viljum við fara í bað öðru hvoru.

Ég vil benda á nýju heimasíðuna hennar Guðrúnar vinkonu minnar. Hún er nefnilega flutt til Frakklands til að læra og njóta lífsins.

-

miðvikudagur, september 17, 2003

Jæja þá, ég verð víst að reyna að skrifa eitthvað, fólk er farið að koma með athugasemdir.

Síðan sunnudaginn 31.ágúst hef ég vaknað snemma á hverjum einasta morgni, mætt í skólann á virkum dögum (skrópaði ekki eins og ég spáði) og vinnuna um helgar. Ég hef því haft mikið að gera og verið dauðþreytt á kvöldin.

Í skólanum hef ég m.a. séð: nýfæddan grís sem fæddist með opið kviðar- og brjósthol, þannig að hjarta og innyfli lágu hálf utaná kroppnum og ég gat séð hjartað slá (hann dó fljótlega); weimaraner hvolp sem við skoðun virtist vera alveg heilbrigður en á röntgen sást að hann var með meðfæddan galla þannig að hluti að þarminum lá inni í hjartasekknum (kallast það ekki gollurshús á íslensku.....hmm man það ekki alveg); og hest sem var með svo útþaninn maga og þarm að hann var í sjokki og lífshættu og var settur í aðgerð vegna gruns um garnaflækju...... þið hafið líklega ekki séð þarm í hesti en trúið mér hann er STÓÓÓÓÓR, svo stór að maður trúir því varla að þetta komist allt saman fyrir inni í hestinum. Og svo vegur allt heila klabbið ca. 400 kg, þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig gekk að finna garnaflækjuna..... hesturinn dó í aðgerðinni.

En um daginn þurfti ég í snarhasti að fara upp á spítallann í skólanum og í þetta skipti ekki sem nemandi. Minn eiginn litli Símon, páfagaukurinn, var nefnilega fárveikur go lá á búrgólfinu þegar ég kom heim úr skólanum. Ég var alveg miður mín því reynsla mín að páfagaukum er að þegar þeir verða veikir þá deyja þeir. Dýralæknirinn skoðaði hann og gaf honum svo blöndu af öllu mögulegu, sýklalyfi, vítamínum og sterum því hann vissi ekki nákvæmlega hvað var að. Og páfagaukar stressast víst svo auðveldlega upp að það er ekki sniðugt að taka blóðprufur eða önnur test. En Símon lilti er seigur og er mikið hressari nú fyrir utan það að hann getur ekki flogið. En það hlýtur að koma smátt og smátt eftir því sem kraftarnir koma aftur.

Í dag eignaðist ég "Hvíta djásnið djúníor" og get því hjólað um götur Kaupmannahafnar enn á ný. Ég stend þó í einhverju stappi við tryggingarfélagið sem vill ekki borga mér fullt verð fyrir stolna hjólið af einhverjum ástæðum sem ég get ekki séð að séu annað en ólöglegar. Á morgun ætla ég að hringja þangað og hóta því að tala við neytendasamtökin ef ég fæ ekki fullt verð fyrir hjólið.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter