<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 17, 2008

Bambi boxari 

Ég vaknaði við ansi skemmtilega tilfinningu í morgun. Ég hef verið að finna fyrir einstöku sparki og boxi öðru hvoru undanfarna daga, en Bambi var svo sannarlega að gera morgunleikfimina sína núna í morgun. Ásberg var steinsofandi og ég ákvað að segja ekkert við hann, en tók bara varlega í höndina hans og lagði hana ofan á magann á mér. Það liðu ekki nema nokkrar sekúndur, þar til Ásberg hálfvaknaði og hváði:

"Hva, hva, hvað var þetta eiginlega??? Var þetta.....??"

"Já" sagði ég "Bambi er að sparka" og í sömu andrá komu nokkur spörk og box í viðbót.

"Vá...." sagði Ásberg og svo sofnaði hann aftur með sælubros á vör.Þá fór ég framúr og ákvað að fara í notalegt bað. Á meðan ég slappaði af hélt Bambi áfram í morgunleikfimi, og þegar ég horfði á magann á mér, þá sá ég meira að segja tvö spörk koma út úr maganum á mér!!!Ja hérna hér. Alls staðar hef ég lesið að þegar konur ganga með fyrsta barn þá finna þær yfirleitt ekki fyrir hreyfingum fyrr en kring um 22 vikur. Ég hef fundið hreyfingar síðan ég var komin 18 vikur á leið og nú eru þær orðnar mikið öflugri en ég bjóst við á þessu stigi meðgöngunnar. Ég er bara komin 20 vikur og 4 daga á leið.Það er alveg ljóst að þetta er barnið hans Ásbergs. Við erum að fara að eignast svona mini útgáfu af Ásbergi, lítil manneskja sem getur ekki verið kjur, þarf að vera center of attention og alltaf á ferðinni. Kemur mér ekki á óvart ef Bambi færi að búa til drullukökur og selja þær svo hinum krökkunum á leikskólanum í skiptum fyrir sælgætismola. Það verður rífandi bissness.Og by-the-way þetta er EKKI mynd af maganum mínum. En VÁ sjáiði fótsporið!!!!

-

laugardagur, október 11, 2008

Þorskastríð nútímans 

Hmmmmm..... hef búið erlendis síðastliðin 9 ár og hef alltaf sagt með stolti að ég væri íslendingur. Og mér hefur alltaf verið tekið vel sem slíkum, hvar sem ég hef búið eða ferðast.

Núna rétt áðan voru fastakúnnar í búðinni að versla fyrir hundinn sinn, og eins og venjulega var ég með smalltalk. Var síðan næstum búin að minnast á Ísland út af einhverju sem ég var að segja, en hætti við á síðustu stundu... Mér fannst allt í einu það að vera íslendingur ekki verða mér til framdráttar.... aldrei að vita nema það hefði áhrif á viðskiptin ef það fréttist að "stelpan með fínu dýrabúðina" væri íslensk. En hvað veit ég. Kannski hafa þeir ekki horft á fréttir síðastliðna daga, og kannski er þeim bara nákvæmlega sama um þessa deilu milli Breta og Íslendinga. Bretar eru nefnilega allt öðruvísi en Íslendingar. Þeir hafa ekki sama þjóðarstolt og við. Þeim kemur bara við það sem snertir þá sjálfa beinlínis, ekki það sem snertir þjóðina alla eða ákveðna hluta þjóðarinnar.

Alveg er ég viss um að flestir Bretar hafi ekki hugmynd um hvað þorskastríðin snérust. Á þeim tíma hefur þetta haft áhrif á ákveðna bæi á Bretlandi sem lifðu á fiskveiðum við Íslands strendur. Restin af þjóðinni hefur örugglega verið slétt sama. Ok nú hljómar þetta eins og Bretar hugsi bara um eigin rass og ekki náungans, en það er ekki af því að Bretar séu eitthvað verri manneskjur en við. Þeir eru bara svo miklu fleiri, og því erfitt að finna fyrir jafn mikilli samstöðu og við gerum bara 300.000.

Ég ætla ekki að dæma neinn, og það þýðir ekki að benda og rífast á tímum sem þessum. Nú verður fólk bara að standa saman og reyna að leysa úr málunum eins og best verður á kosið. Á meðan ætla ég ekkert að flagga því að ég sé íslendingur, allavega svona næstu daga þar til BBC hefur fengið leið á að fjalla um Ísland, þá kannski tekst mér að forðast tómatakast og ávítur. Og svo fer ég kannski að ráðum Ásbergs.... hann er nefnilega búinn að banna mér að horfa á eða lesa fréttir því ég fer alltaf að gráta. En ætli þetta séu ekki óléttuhormónar að spila þarna inn í eitthvað líka.

-

sunnudagur, október 05, 2008

Partners in Crime 

Ég elska að vera löt. Það er ein af mínum uppáhalds iðjum. Ég reyni að vinna ekkert á sunnudögum, og þá fer dagurinn yfirleitt bara í leti. Í dag var grenjandi rigning mest allan daginn. Ég nennti ekki út með hundinn í göngutúr, henti Dimmalimm bara út í garð að pissa. Var með smá samviskubit yfir því, en hún er heldur ekkert hrifin af rigningu. Svo lágum við bara saman inni í sófa og kúrðum. Dimmalimm getur líka verið voða löt stundum. Það er gott að vita að það er ekki bara ég. Partners in crime....

Við Ásberg og Dimmalimm fórum í 5 daga frí í vikunni til Isle of Wight. Þar höfðum við leigt pínulítið krúttlegt kot. Það var voða kósí fyrir utan heilahristinginn sem Ásberg greyið fékk nokkrum sinnum á dag....já húsið var það lítið. Já og svo varð ég líka öll útbitin af flóm.... ég held það hafi verið flær í sófanum. Mig klæjar ennþá.

En hvað sem flóabitum og heilahristingi líður, þá höfðum við það voða gott, náðum að slappa vel af, elda góðan mat og fara í langa göngutúra. Og mér tókst að kenna Dimmu nokkur trix, meðal annars að vinka bless og loka hurð.

Svo komum við heim og kisurnar voru ánægðar að sjá okkur. Jasmin vinkona okkar hafði séð um þær á meðan. Reyndar var Táta greyið nánast óþekkjanleg, hún er svo seinheppin greyið og hlýtur að hafa lent í óhappi fyrr um daginn. Svarta kisan okkar er með einhverja Michael Jackson complexa. Ekki nóg með að hún sé komin með hvíthærða bletti á mjaðmirnar (gerðist eftir bílslysið í vor), nú var hún öll útötuð í hvítri málningu!! Ég fékk alveg áfall. Ég fór með hana inn á bað og náði að klippa eitthvað úr feldinum, og náði nokkurn veginn restinni úr með þvotti. Þetta var sem betur fer vatnsmálning. Vissuð þið að BAMBI er viðurkennt nafn hjá íslensku mannanafnanefndinni?? Ég var að skoða listann um daginn og gat ekki annað en hlegið af öllum furðulegu nöfnunum. Reyndar fannst mér Bambi alveg yndisleg saga, ég átti bókina og kasettuna þegar ég var lítil. Ég held hún hafi verið á dönsku. Mér fannst reyndar rosa sorglegt þegar mamma hans Bamba dó. En af því að Bambi var svo krúttlegt dýr, þá finnst mér það fínt gælunafn fyrir bumbubúann. Bambi Ásbergsson eða Ásbergsdóttir. Skemmtilegt nafn.....ekki satt?

Ég er komin 19 vikur á leið núna og er bara að bíða eftir að finna fyrir almennilegum hreyfingum. Annars held ég að Bambi hafi gaman af söngleikjum. Við fórum nefnilega á Mamma Mía á föstudags kvöldið, og ég get svarið ég held ég hafi fundið fyrir smá dansi inni í bumbunni.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter