<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 13, 2006

LAS VEGAS 


Ef hótelið okkar á Manhattan var lítið, ógeðslegt og lítilfjörlegt, þá var hótelið í Las Vegas algjör andstæða. Ég hef aldrei séð eða gist á öðru eins hóteli....

MGM Grand Hótelið er stærsta hótel í heimi, með yfir 5000 herbergi, Casino á stærð við 4 fótbotavelli, yfir 30 veitingastaði og verslanir, nokkrar sundlaugar, spa og líkamsræktarstöð, giftingarkapella, skemmtistaðir, sýningarsalir og síðast en ekki síst ljónabúr þar sem til sýnis voru 2-3 ljón í einu. Maður gæti verið á hótelinu í viku og haft nóg að gera.

Herbergið okkar var æðislegt, flottasta hótelherbergi sem ég hef séð. Kúl nýtískuleg innrétting, ekki svona týpísk hallærisleg hótelinnrétting. Stór og þykk tvöföld sæng mmm.. sjónvarp og dvd spilari, mjög töff baðherbergi með sjónvarpi í speglinum!!! Við fórum á flottustu sýningu sem ég hef nokkurn tímann séð, hjá kanadíska cirkushópnum Cirque du soeil. Þetta var sambland af fimleikum, dansi, leikriti, tónlist og ótrúlegu showi og sjónhverfingum. Ég held við Ásberg höfum starað gapandi á sviðið í 1 og hálfan tíma án þess að blikka. Ég get ekki einu sinni útskýrt hvað þetta var ótrúlegt.

Annað kvöldið okkar voru Billbord tónlistarverðlaunin haldin á MGM hótelinu. Við sáum útsendinguna í sjónvarpinu, og það var ótrúlegt að hugsa til þess að allar þessar stjörnur sem maður "þekkir" væru staddar í sömu byggingu og maður sjálfur. Þegar við tókum lyftuna niður voru aragrúinn af aðdáendum sem biðu eftir að fá eiginhandaráritanir...mjög fyndið. Ég sá nú samt ekki neina stjörnu sem ég þekkti, bara einhverja rappara sem eru víst frægir en ég hef ekki hugmynd um hverjir þeir voru. Ásberg og Pálmi frændi hans sáu samt Snoop Doggy Dogg seinna um kvöldið á spilavítinu. Ég rétt missti af honum. Ekki það að ég sé neinn aðdáandi.

Næstu tvo daga voru Ásberg og Pálmi að vinna á Luxury Travel Expo sem var haldið á Mandalay Bay hótelinu. Á meðan vorum við Helena og litla Elísabet (dóttir Pálma og Helenu) í sólbaði við sundlaugina. Það var minn griðastaður síðustu þrjá dagana því ég var eiginlega komin með alveg nóg af öllu áreitinu í Las Vegas. Spilavítið með peningaþyrstum spilafíklum og háværu spilakassarnir voru að gera mig brjálaða. Það voru ekki margir úti við sundlaugina, svo kyrrðin og róin þar var algjört æði.


-

fimmtudagur, desember 07, 2006

New York New York 


Jæja þá erum við turtildúfurnar komar á ferð og flug enn einu sinni.
Loppa og kettlingarnir eru komin aftur í hendur eigandans, og Gutti og Táta eru í pössun hjá ömmu og afa.

Fyrsti áfangastaðurinn var New York. Ég var að jafna mig á flensu og nýkomin af næturvakt þegar við lögðum af stað í flugið. Þegar við svo loksins komum í Stóra Eplið og upp á hótel var ég orðin svo þreytt að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég sá herbergið. Það var pínkulítið, og það fyrsta sem blasti við var ljótur og hávær ísskápur. Í einu horninu var bilað sjónvarp, dyrastafurinn og veggirnir voru ólýsanlega skakkir og skældir og örugglega ekki verið málað í 20 ár. Engar myndir á veggjunum og flúorljós í loftinu. Ógeðslegt teppi á gólfinu og einnig teppalagður skápur, sem við nánari athugun var ekki skápur heldur klósett. Sturtan var sameiginleg frammi á gangi. Ég ákvað bara að hlæja að þessu því þetta minnti mig svo á S-Ameríku og það er jú svo kósí.

Það var samt ekki eins kósí þegar ég vaknaði daginn eftir og komst að því að við höfðum félagsskap í rúminu. Ég var öll út bitin af flóm, og gat dundað mér við að klóra mér næstu þrjá dagana.

Hótelgisting á Manhattan er svakalega dýr, svo þetta er það sem maður fær ef maður ætlar að borga viðráðanlegt verð. En við vorum hvort eð er komin til að skoða borgina og ekki hanga uppi á hótelherbergi, svo við drifum okkur út á alla helstu túrhesta staðina. Og svo kórónuðum við allt saman með því að fara á körfuboltaleik í Madison Square Garden, það var rosalega gaman. NY Knicks og Toronto Rangers voru að keppa, en mér fannst eiginlega skemmtilegast að horfa á klappstýrurnar sem komu fram í hléum.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter