<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 07, 2006

New York New York 


Jæja þá erum við turtildúfurnar komar á ferð og flug enn einu sinni.
Loppa og kettlingarnir eru komin aftur í hendur eigandans, og Gutti og Táta eru í pössun hjá ömmu og afa.

Fyrsti áfangastaðurinn var New York. Ég var að jafna mig á flensu og nýkomin af næturvakt þegar við lögðum af stað í flugið. Þegar við svo loksins komum í Stóra Eplið og upp á hótel var ég orðin svo þreytt að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég sá herbergið. Það var pínkulítið, og það fyrsta sem blasti við var ljótur og hávær ísskápur. Í einu horninu var bilað sjónvarp, dyrastafurinn og veggirnir voru ólýsanlega skakkir og skældir og örugglega ekki verið málað í 20 ár. Engar myndir á veggjunum og flúorljós í loftinu. Ógeðslegt teppi á gólfinu og einnig teppalagður skápur, sem við nánari athugun var ekki skápur heldur klósett. Sturtan var sameiginleg frammi á gangi. Ég ákvað bara að hlæja að þessu því þetta minnti mig svo á S-Ameríku og það er jú svo kósí.

Það var samt ekki eins kósí þegar ég vaknaði daginn eftir og komst að því að við höfðum félagsskap í rúminu. Ég var öll út bitin af flóm, og gat dundað mér við að klóra mér næstu þrjá dagana.

Hótelgisting á Manhattan er svakalega dýr, svo þetta er það sem maður fær ef maður ætlar að borga viðráðanlegt verð. En við vorum hvort eð er komin til að skoða borgina og ekki hanga uppi á hótelherbergi, svo við drifum okkur út á alla helstu túrhesta staðina. Og svo kórónuðum við allt saman með því að fara á körfuboltaleik í Madison Square Garden, það var rosalega gaman. NY Knicks og Toronto Rangers voru að keppa, en mér fannst eiginlega skemmtilegast að horfa á klappstýrurnar sem komu fram í hléum.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter