<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 23, 2008

Áfram Ísland! 

Við Dimma skelltum okkur í Júróvisíon partý í gær. Þar voru saman komnir nokkrir íslendingar og öll vorum við mjög spennt yfir þessu. Ég þori alveg að viðurkenna að ég er frekar mikill eurovision aðdáandi, mér finnst æðislegt að hneykslast yfir hallærislegu atriðunum og fáránlegu búningunum. Þessi keppni er náttúrulega alveg einstakt fyrirbrigði.
En jæja, ég var nú ekki búin að kynna mér framlag Íslands mikið að fyrra bragði. Ég sá náttúrulega ekki forkeppnina heima, en ég kíkti aðeins á eitthvað vídeó á netinu. Ég verð að segja að ég var ekki mjög "impressed", og mér fannst nafnið "Eurobandið" alveg hrikalega hallærislegt. En svo þegar ég sá þau á sviðinu í gær komu þau mér alveg svakalega á óvart, auðvitað mjög eurovisionlegt lag, en á góðan hátt og þau stóðu sig alveg massavel. Flottur söngur, þau voru mjög góð saman.... svona eins og Sigga og Grétar 20 árum síðar. Ég var allavega nokkuð viss um að þau kæmust áfram eftir að ég sá þetta.
Svo þegar kom að úrslitum, voru fagnaðarlætin slík að það mætti halda að Ísland hefði unnið keppnina. Við ætluðum alveg að ganga af göflunum, og greyið Dimma litla vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hún var ekki alveg að fatta þetta Eurovision æði, og svaf mestmegnis í gegn um alla keppnina.

Það verður spennandi að sjá hvað við komumst langt á laugardaginn...

-

sunnudagur, maí 18, 2008

ICELAND 

"The best life expectancy
The best maternity leave
The best free education
The best book buyers
The best childcare
The best place to be in hospital
The best deal for new fathers
And the world´s biggest hot tub
No wonder Iceland has the happiest people on earth"

Þannig byrjar grein sem birtist í "The Observer" í dag. Ansi gott að vera Íslendingur ef marka má þetta.

Annars var mér að berast kvörtun um að það birtust aldrei neinar myndir af Tátu hérna á blogginu. Ég ætla hér með að bæta úr því.

Já og svo flottu garðmyndunum seinka eitthvað þar sem hann Guttormur hefur komist upp á lagið með að éta öll fallegu blómin sem ég gróðursetti um daginn. Sem betur fer eru þau ekki eitruð.


-

mánudagur, maí 12, 2008

Dimmalimm... 

Jæja þá er hún komin með nafn litla skottan. Og hvað væri meira við hæfi en að heita eftir aðalsöguhetjunni í barna ævintýri, alveg eins og forveri hennar Míó litli. Dimmalimm, eða "Dimma" eins og við köllum hana oft, smellpassaði inn í fjölskylduna alveg frá fyrstu mínútu. "Nýi bróðir hennar" er reyndar kallaður Gutti Gunga þessa dagana, því hann var bara ekki jafn hugrakkur og við héldum að hann væri, og lætur þennan nýja fjölskyldumeðlim alveg ganga yfir sig. Hann er orðinn ansi laginn við að stökkva upp á næsta stól eða borð í hvert sinn sem Dimma nálgast, en svo gerðist það í fyrsta skipti í gær að hann sýndi klærnar og hvæsti í stað þess að stökkva í burtu, við mikil fagnaðarlæti viðstaddra. Hún verður að fara að læra að Gutti stóri bróðir ræður. Gutti kemur bara og þefar af Dimmu þegar hún er steinsofandi og það stafar enginn hætta af henni. Tátu virðist nokk sama um þessa viðbót í fjölskylduna, hún liggur og malar eftir sem áður í búrinu sínu.

Æskuvinkonur mínar þær María, Guðrún og Sólrún komu í heimsókn til mín um helgina, og við spókuðum okkur í blíðskapar veðri. Dimmalimm kom með hvert sem við fórum, og hún var mjög auðveld í meðförum því hún passar svo vel í tösku. Þar með tók nánast enginn eftir henni og við gátum smyglað henni á kaffihús og veitingastaði.


Við vorum með heljarinnar grillveislu í garðinum okkar í gær, og buðum fleiri íslendingum sem búa í Brighton. Þetta var mjög huggulegt og Dimma var alveg í essinu sínu, mjög ánægð með alla athyglina.
-

fimmtudagur, maí 01, 2008

Stóri dagurinn loksins runninn upp... 

Ég gat varla sofið í nótt fyrir spenningi. Seinni partinn í dag leggjum við Ásberg af stað til Chichester að sækja litla hvolpinn okkar sem er í dag 7 vikna og 5 daga gömul. Við erum ekki ennþá búin að finna nafn á hana, því Ásberg vill ekki ákveða neitt fyrr en við erum komin með hana í hendurnar og getum séð hvaða nafn passi henni best.

Það verður spennandi að sjá hvernig kisurnar taka nýjasta meðlim fjölskyldunnar. Ég held að Gutti verði alveg æstur í að skoða hana betur, hann er nefnilega meira forvitinn en hræddur við hunda þessi elska. Táta litla grey er meira vör um sig, og hún er því miður ekki í besta formi akkúrat núna. Hún lenti nefnilega í slysi fyrir um 3 vikum síðan og mjaðmagrindarbrotnaði. Hún var týnd í 4 daga og ég var alveg miður mín. Svo birtist hún allt í einu í fyrir utan útidyrahurðina, mjálmandi ámátlega og gat ekki gengið. Ég held hún hljóti að hafa orðið fyrir bíl, og svo hefur hún hálfdregið sig alla leiðina heim, blessunin. Ég var himinlifandi yfir að fá hana aftur á lífi og fékk að röntgenmynda hana sjálf á gamla vinnustaðnum mínum. Sjúkdómsgreiningin varð sem sagt mjaðmagrindarbrot, og hún þarf að vera föst í búri í 6 vikur og má lítið hreyfa sig. Hún hefur staðið sig alveg eins og hetja hingað til, og hún er rúmlega hálfnuð með fangelsisvistina.

En semsagt, þar sem hún er föst í búri, þá getur hún hvergi flúið ef hún verður hrædd við litla hvolpinn. Búrið hennar er reynar uppi á borði, þannig að hvolpurinn mun ekki geta komið nálægt, en ég hef samt pínu áhyggjur af henni.

Jæja, varð bara að deila þessu með ykkur....mér finnst eins og jólin séu að koma ég er svo spennt.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter