<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, maí 01, 2008

Stóri dagurinn loksins runninn upp... 

Ég gat varla sofið í nótt fyrir spenningi. Seinni partinn í dag leggjum við Ásberg af stað til Chichester að sækja litla hvolpinn okkar sem er í dag 7 vikna og 5 daga gömul. Við erum ekki ennþá búin að finna nafn á hana, því Ásberg vill ekki ákveða neitt fyrr en við erum komin með hana í hendurnar og getum séð hvaða nafn passi henni best.

Það verður spennandi að sjá hvernig kisurnar taka nýjasta meðlim fjölskyldunnar. Ég held að Gutti verði alveg æstur í að skoða hana betur, hann er nefnilega meira forvitinn en hræddur við hunda þessi elska. Táta litla grey er meira vör um sig, og hún er því miður ekki í besta formi akkúrat núna. Hún lenti nefnilega í slysi fyrir um 3 vikum síðan og mjaðmagrindarbrotnaði. Hún var týnd í 4 daga og ég var alveg miður mín. Svo birtist hún allt í einu í fyrir utan útidyrahurðina, mjálmandi ámátlega og gat ekki gengið. Ég held hún hljóti að hafa orðið fyrir bíl, og svo hefur hún hálfdregið sig alla leiðina heim, blessunin. Ég var himinlifandi yfir að fá hana aftur á lífi og fékk að röntgenmynda hana sjálf á gamla vinnustaðnum mínum. Sjúkdómsgreiningin varð sem sagt mjaðmagrindarbrot, og hún þarf að vera föst í búri í 6 vikur og má lítið hreyfa sig. Hún hefur staðið sig alveg eins og hetja hingað til, og hún er rúmlega hálfnuð með fangelsisvistina.

En semsagt, þar sem hún er föst í búri, þá getur hún hvergi flúið ef hún verður hrædd við litla hvolpinn. Búrið hennar er reynar uppi á borði, þannig að hvolpurinn mun ekki geta komið nálægt, en ég hef samt pínu áhyggjur af henni.

Jæja, varð bara að deila þessu með ykkur....mér finnst eins og jólin séu að koma ég er svo spennt.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter