<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, ágúst 31, 2003

Fyrsti skóladagur á morgun, ÚFF.

Æ það er nú samt eitthvað spennandi og gaman við fyrsta skóladag eftir sumarfrí. Ég hitti alla skólafélagana aftur, heyri allt nýjasta slúðrið: hverjir eru hættir saman, hverjir eru búnir að gifta sig og hverjir eru óléttir. Svo er auðvitað ómissandi umræðan um hvað ágústprófið í "Levnedsmiddel Miljøhygiejne og Fiskesygdomme" var ótrúlega ósanngjarnt, þetta sé nú fyrir neðan allar hellur og ekki er hægt að fella allan hópinn o.s.frv. (já þið hafið kannski tekið eftir að ég hef ekkert minnst á hvernig mér gekk í prófinu sem ég var að læra fyrir í byrjun bloggsins...)

Svo sest ég inn í fyrirlestrarsalinn og tekst að halda mér vakandi í heilum fyrirlestri um svæfingarlyf. Eftir tímann er ég full eftirvæntingar og lofa sjálfri mér að þessa önn verði ég samviskusöm, læri alltaf heima, mæti í alla fyrirlestra og svo að lokum standi mig VEL í jólaprófunum. Þar næst strunsa ég út í bóksölu, eyði öllu septembernámsláninu í bækur, möppur í öllum regnbogans litum, skiptiblöð auðvitað og allskonar yfirstrikunarpenna...já og "post-its", alveg ómissandi. Svengdin farin að gera vart við sig svo ekki um annað að ræða en að skófla í sig einhverju óætu rusli úr kantínunni.

Svo er komið að verklega tímanum á dýraspítalanum og efni dagsins er "Hvernig á að bólusetja kött án þess að hann klóri úr þér augun". Ég læt mig auðvitað ekki vanta þar sem ég þekki afleiðingar þess að skrópa - mætti t.d. ekki í tímann "Hvernig á að röntgenmyndataka hund án þess að hann bíti af þér nefið", og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað kom fyrir hrakfallabálkinn Freyju.

Bíb bíb bíb bíb......Bíb bíb bíb bíb...... Bíb bíb bíb bíb............ Oh, klukkan er sjö og það er kominn þriðjudagur. Hvað var ég að hugsa að stilla vekjaraklukkuna svona snemma....æjá skólinn. Ætli það geri nokkuð til þó að ég skrópi í dag, leggst á hina hliðina og hef gleymt öllum loforðum um bót og betrun.

Sem sagt það er aðeins fyrsti skóladagurinn sem er skemmtilegur, eftir það er það bara "same old, same old"

-

laugardagur, ágúst 30, 2003

Halló halló, ég vildi bara láta vita að ég er aðeins búin að bæta við heimasíðuna. Nú getið þið komist að því hver Dr.Freylitle er..... ef þið skylduð ekki vita það nú þegar, og einnig er hægt að skoða nokkrar myndir frá Slóveníu ferð minni í sumar. Ef til vill eiga eftir að bætast fleiri myndir í safnið. Reyndar er gæði myndanna mjög léleg á þessari heimasíðu, en ég er ekki nógu mikill tölvunörd til að finna út úr svoleiðis tæknilegum vandamálum, því miður.

Annars er voða lítið að frétta, jú Mikkel litaði á mér hárið bæði á fimmtudaginn og föstudaginn. Já það hljómar kannski svolítið skringilega, bæði það að ég hafi leyft kærastanum mínum að gera tilraunir á hárinu á mér og að það hafi tekið tvo daga. En í stuttu máli sagt þá setti hann ljósar strípur í mig á fimmtudaginn og ég varð algjör blondína, það var einum of ljóst. Þannig að daginn eftir keypti ég dökkan lit og Mikkel setti nokkrar strípur í viðbót...... nú lítur það kannski pínu furðulega út en ég fíla það bara mjög vel. Ég er orðin svo þreytt á að borga 8000 kr fyrir að fá litað hár á hárgreiðslustofu og svo sér maður næstum því engan mun. Ég er viss um að fólk á eftir að taka eftir nýja 1500 kr háralitnum mínum..... vona bara að það sé jákvæð athygli.

-

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Ok, já ég veit að það eru lúðar og sveitadurgar í skólanum mínum en ég hef aldrei séð jafn furðulegt fólk og ég sá í dag. Á grasflötinni fyrir framan skólann stóðu u.þ.b. 10 manns/verur með skær-neon-gular derhúfur, hver og einn með gettoblaster í fanginu og svo hreyfðu þeir sig ofurhægt og undarlega í takt við......hmmm....ég get nú varla kallað þetta tónlist, en þetta voru einhvers konar hljóð, og mismunandi hljóð úr hverjum gettoblaster auðvitað. Ég hef sterkan grun um að þetta hafi verið geimverur frá Mars, sem hafa ákveðið að nota tækifærið og skreppa til Köben á meðan Jörðin og Mars standa svo nálægt hvor annarri. En afhverju Landbúnaðarháskólinn varð fyrir valinu veit ég ekki, marsbúarnir hafa kannski villst og ekki ratað í Tívolí.

-

mánudagur, ágúst 18, 2003

Ég sá skóla-rottuna aftur rétt í þessu, og í þetta sinn var hún með kærastann sinn með....hmmm.

Laugardagurinn var ekki minn happadagur. Ég kom út og ætlaði að hjóla í vinnuna..... þá var svarta druslan mín horfin!! Ok, þetta var drusla svo missirinn er ekkert mikill, en Mikkel hafði eytt nokkrum klukkutímum daginn áður í að gera við það, og svo var því bara stolið.
Nú voru góð ráð dýr því ég átti að mæta í vinnuna hálftíma seinna. Ég þorði ekki að segja Mikkel að hjólinu hefði verið stolið (eftir alla erfiðisvinnuna), svo ég ákvað að taka strætó. En ég átti ekki skiptimynt svo ég varð fyrst að fara í bakaríið. Svo þurfti ég að labba út á stoppistöð en þá var ég nýbúin að missa af strætó. Æjæjæ. Ég fór heim, sagði Mikkel að hjólið væri horfið og fékk lánað hans. Hnakkurinn var allt of hár svo ég varð að hjóla standandi alla leiðina, 35 mín. Þegar ég var næstum komin í vinnuna (hálftíma of seint) voru einhverjar framkvæmdir í gangi svo gatan var afgirt og ég komst ekki framhjá. Það tók mig hálftíma að finna réttu leiðina í kring, því það eru nefnilega lestarteinar akkúrat þarna svo maður verður að taka riiiiiiiiiiiiiisa krók til að komast framhjá. Ég kom semsagt klukkutíma of seint og kófsveitt í vinnuna.

Jæja tveimur hjólum stolið á mjög stuttum tíma...... ég verð að fara að dusta rykið af línuskautunum mínum.

-

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

Vá mér finnst eitthvað svo stutt síðan ég stóð í Köben, nýkomin, heimilislaus, með eina ferðatösku en með tilhlökkun og von um skemmtileg námsár framundan. Í dag eru nákvæmlega 4 ár síðan. Já 4 árum og 6 heimilum síðar er ég mjög sátt en allt of rótgróin og dönsk orðin. Ég bjó tvö ár í Danmörku þegar ég var lítil, þannig að 2+4=6 þýðir að ég hef búið 1/4 úr lífi mínu erlendis. Skrítið!

-

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Detti mér allar dauðar...... Ég sem hélt ég byggi í einni huggulegustu borg Evrópu, nei nei Köben er stórborg full af glæponum og brálæðingum með hnífa. Síðastliðna viku hafa verið 10 hnífsstungur, þar af nokkrar lífshættulegar og eitt fórnarlambanna dó - 19 ára saklaus interrailari sem var rændur og stunginn 4 sinnum aðeins tveimur götum frá þar sem ég bý!! Á innan við mánuði hefur tveimur litlum stelpum verið rænt og lík þeirra síðan fundist með merki um kynferðislega misnotkun. Og um daginn upphófst skotbardagi á Bellavu-strönd sem er ein vinsælasta og þéttsetnasta ströndin. Er það hitinn sem gerir fólk svona brjálað eða hvað?

Og viti menn, ég kom út í morgun og ætlaði að hjóla í vinnuna en "Hvíta djásnið" var HORFIÐ!!! Fallega hjólið mitt sem ég hef aðeins átt í 4 mánuði fær ekki einu sinni að vera í friði fyrir þessum rubbaldalýð. Ég varð því að hjóla á "Svörtu druslunni" (fyrrverandi "Svarta eldingin") í staðinn, og hún er greinilega að syngja sitt síðasta með beigluð hjól og ryðgaða keðju sem dettur af á 50 metra fresti. Helv....hjólaþjófar.

-

mánudagur, ágúst 04, 2003

Ég fór með Míó litla til dýralæknis í dag. Þegar ég var spurð um skráningar-númerið hans fór ég að leita í veskinu að skráningarspjaldinu en fann það ekki. En það var ekkert vandamál, dýralæknirinn minn sagði mér bara að lyfta Míó upp, svo var hálsinn á honum skannaður og BINGO.... þá var númerið komið! Þvílík og önnur eins tækni. Míó er nefnilega með mikrochip græddan inn í hálsinn svo hann er strikamerktur eins og hver önnur söluvara. Sjáið þið ekki fyrir ykkur gæludýrabúðir í framtíðinni þar sem fólk gengur um með innkaupakörfur og tekur 1 páfagauk, 2 kanínur og 5 gullfiska, leggur allt upp á færibandið og svo...BÍB..BÍB..BÍB..."það verða 3450 krónur takk".

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter