<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, ágúst 31, 2003

Fyrsti skóladagur á morgun, ÚFF.

Æ það er nú samt eitthvað spennandi og gaman við fyrsta skóladag eftir sumarfrí. Ég hitti alla skólafélagana aftur, heyri allt nýjasta slúðrið: hverjir eru hættir saman, hverjir eru búnir að gifta sig og hverjir eru óléttir. Svo er auðvitað ómissandi umræðan um hvað ágústprófið í "Levnedsmiddel Miljøhygiejne og Fiskesygdomme" var ótrúlega ósanngjarnt, þetta sé nú fyrir neðan allar hellur og ekki er hægt að fella allan hópinn o.s.frv. (já þið hafið kannski tekið eftir að ég hef ekkert minnst á hvernig mér gekk í prófinu sem ég var að læra fyrir í byrjun bloggsins...)

Svo sest ég inn í fyrirlestrarsalinn og tekst að halda mér vakandi í heilum fyrirlestri um svæfingarlyf. Eftir tímann er ég full eftirvæntingar og lofa sjálfri mér að þessa önn verði ég samviskusöm, læri alltaf heima, mæti í alla fyrirlestra og svo að lokum standi mig VEL í jólaprófunum. Þar næst strunsa ég út í bóksölu, eyði öllu septembernámsláninu í bækur, möppur í öllum regnbogans litum, skiptiblöð auðvitað og allskonar yfirstrikunarpenna...já og "post-its", alveg ómissandi. Svengdin farin að gera vart við sig svo ekki um annað að ræða en að skófla í sig einhverju óætu rusli úr kantínunni.

Svo er komið að verklega tímanum á dýraspítalanum og efni dagsins er "Hvernig á að bólusetja kött án þess að hann klóri úr þér augun". Ég læt mig auðvitað ekki vanta þar sem ég þekki afleiðingar þess að skrópa - mætti t.d. ekki í tímann "Hvernig á að röntgenmyndataka hund án þess að hann bíti af þér nefið", og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað kom fyrir hrakfallabálkinn Freyju.

Bíb bíb bíb bíb......Bíb bíb bíb bíb...... Bíb bíb bíb bíb............ Oh, klukkan er sjö og það er kominn þriðjudagur. Hvað var ég að hugsa að stilla vekjaraklukkuna svona snemma....æjá skólinn. Ætli það geri nokkuð til þó að ég skrópi í dag, leggst á hina hliðina og hef gleymt öllum loforðum um bót og betrun.

Sem sagt það er aðeins fyrsti skóladagurinn sem er skemmtilegur, eftir það er það bara "same old, same old"

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter