<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, maí 13, 2006

Dr.Doolittle 

Nú er ég sko orðinn alvöru dýralæknir. Er komin með vinnu hjá Dagfinni á Skólavörðustíg, og er meira að segja á vakt núna um helgina. Hingað til hefur sem betur fer bara verið smotterí sem ég hef þurft að sinna. Mig langar ekkert að fá stórslasaðan kött eða hund á fyrstu vaktinni minni. Jæja, ætla að fá mér að borða svo ég verði nú vel nærð áður en ég verð kölluð út næst.

Kveðja frá dýralækninum

p.s. Gutti er orðinn algjör grallari. Stundum finnst mér hann vera algjörlega ofvirkur, en hann er samt svo mikið krútt að ég get ekki annað en hlegið að honum. Svo tekur hann ekki annað í mál en að sofa uppi í rúmi, helst í hálsakotinu á mér eða Ásberg.

-

fimmtudagur, maí 11, 2006

Clear your Clutter 

eftir Karen Kingston er frábær bók sem ég mæli með handa öllum. Sérstaklega dröslurum eins og mér. Mamma benti mér á þessa bók af því að ég var að barma mér yfir því að ég þyrfti að taka til í geymslunni, og velja hvað ég ætlaði að taka með mér til Íslands. Mér finnst það alltaf óyfirstíganlegt verkefni í hvert sinn sem ég þarf að taka til, og það er eiginlega alltaf drasl í kringum mig. En þökk sé bókinni (sem er by the way fljótlesin) þá tókst mér á örstuttum tíma að fylla 6 svarta ruslapoka með drasli sem ég henti, og aðra 6 ruslapoka með fötum og skóm sem ég gaf til Rauða krossins. Og þetta var þvílíkur léttir...það var gjörsamlega þungu fargi af mér létt! Héðan í frá ætla ég að gera þetta reglulega, og ekki leyfa mér að safna svona miklu óþarfa drasli í kring um mig.

Ég er líka svona týpa (eða hef allavega verið síðastliðin 7 ár) sem er alltaf að flytja og á ferð og flugi. Mamma var einmitt að spurja mig áðan hvar ég ætti nú eiginlega heima núna. Ég svaraði "Nönnugötu 8, 101 Reykjavík". Og hún skrifaði þetta niður í símabókina.... á nýja blaðsíðu. Ég held að heimilisföngin mín séu farin að fylla hálfa símabókina. Pabbi sagði: "þú ert meira að segja farin að slá út Höllu systur, hún var nú lengi vel með vinninginn í símabókinni!"

En sem sagt, meðan ég lifi svona flækingslífi þá verða einkunnarorð mín "Keep it simple"
(ég ætla allavega að reyna ;-)

-

þriðjudagur, maí 02, 2006

"Jeg forstår ikke hvad du siger" 

...var það fyrsta sem svæfingarhjúkrunarkonan sagði við mig.
"Ég sagði að ég man ekkert hvað mig var að dreyma, en það var eitthvað skemmtilegt. Talarðu ekki íslensku?"
Svo áttaði ég mig eitthvað aðeins og sagði:
"Er du dansk?"
"Ja" svaraði hjúkrunarkonan og hló.
"Ja men du snakkede islandsk før... I snakkede allesammen islandsk... hvor er jeg henne??"

Hjúkrunarkonunni fannst víst ráðlegra að sækja mömmu mína á þessu stigi málsins. Mömmu tókst að koma mér í skilning um að við værum staddar í Danmörku. Ég var greinilega alveg rugluð, hef aldrei verið svæfð svona áður. En ég var mjög fegin, því mig langaði ekki að upplifa aðra kjálka-aðgerð vakandi, eins og í janúar. Í þetta skiptið dreymdi mig bara eitthvað fallegt, sem ég reyndar man ekki, en það er allt í lagi. Nú verð ég bara að bíða og vona að þetta sé í síðasta skipti sem ég þarf að fara í svona aðgerð, þó að tannlæknirinn hafi ekki verið alveg viss. Hann ráðlagði mér að hitta tannsérfræðing á Íslandi sem hann þekkir. "Og hann snakker islandsk..!!" sagði hann við mig í gríni.

Hlakka mikið til að komast aftur á Nönnugötu 8 til Gutta litla og Ásbergs.

-

Sögu vil ég segja stutta... 


...sem að ég hef nýskeð frétt.
Reyndar þekkið þið hann Gutta,
það er alveg rétt.

Já það er semsagt kominn kettlingur á Nönnugötu 8, og hann verður sko aðal töffarinn og ólátabelgurinn í Þingholtunum. Það eru náttúrulega kettir úti um allt hérna, svo við urðum auðvitað að vera eins og hinir og fá okkur kött.
Gutti er alveg yndislegur, bröndóttur og sætur. Mér finnst hann auðvitað sætastur í heimi. Hann leikur sér allan liðlangann daginn, þ.e.a.s. þegar hann er ekki sofandi....sem er líka ansi oft. Hann er algjör grallari, og virðist ekki vera hræddur við neitt.... nema jú hann hvæsti á Flugu, sem er hundurinn hennar Guðrúnar. En þau eiga bara eftir að kynnast aðeins betur. Kettir og hundar geta sko alveg verið vinir, eða það held ég allavega.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter