<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 19, 2012

Feliz Compleaños 

Ásberg hóf 33 ára afmælisdaginn sinn í Uruguay og endaði hann í Argentínu, ekki amalegur afmælisdagur það. Við fórum í yndislega sólarhringsferð til Colonia í Uruguay, en það vill svo skemmtilega til að sá bær er aðeins í klukkutíma siglingarfjarlægð frá Buenos Aires þannig að okkur fannst tilvalið að skella okkur. Og við sáum svo sannarlega ekki eftir því.

Við fundum sjarmerandi lítið hótel í þessum fallega bæ, Colonia, sem er á heimsminjaskrá Unesco. Það er fátt huggulegra en að ganga um tígulsteinslagðar göturnar og dást að rómantísku útliti húsanna. Svo var það auðvitað toppurinn að sitja á veitingastað við Rio de La Plata og fylgjast með gullfallegu sólarlagi. Eftir að Fríða María var sofnuð í kerrunni fórum við svo á annan veitingastað, í þetta sinn steikarstað og gæddum okkur á safaríkri steik, nammi namm. Og ég pantaði afmælisdesert fyrir Ásberg, svo hann fékk að blása á kerti um miðnætti, rétt þegar afmælisdagurinn hans var að byrja. Fríða María vaknaði aðeins þá og fékk að fylgjast með.

Daginn eftir blés Ásberg á kerti númer 2 og fékk gjöf og kort frá okkur mæðgunum. Við dóluðum okkur í sólinni og sundlauginni fram að hádegi og fórum svo á rauðvíns- og osta-smökkunarstað í hádeginu – þvílík hamingja.

Um kvöldið þegar við vorum komin aftur til Buenos Aires kom Fjóla barnapía í heimsókn og sá um Fríðu Maríu meðan við fórum á Osaka – flottasta sushi stað bæjarins. Og Ásberg fékk enn einn afmælisdesertinn og blés á 3ja kertið.

Næsta dag var komið að 3ja ára afmæli litlu skvísunnar, og hún fékk hvorki meira né minna en prinsessuköku og kórónu sem mamma hennar hafði haft mikið fyrir að búa til. Sú stutta var að vonum ánægð, og ekki síður ánægð þegar hún fékk að fara í Museo de los niños, eða krakkasafnið. Það gat hún leikið sér í hinum ýmsu hlutverkaleikjum, svo sem afgreitt á McDonalds, verið strætóbílstjóri, læknir eða sjónvarpsstjarna. Eftir 4 klukkutíma var hún ekki enn komin með nóg og við þurftum að múta henni með ís til að geta farið að borða. Þetta var ekki síður vel heppnaður afmælisdagur.

Nú er að líða að lokum á dvöl okkar hér í Buenos Aires. Við fljúgum til Ecuador á morgun. Við höfum tekið því rólega í dag, erum aðeins byrjuð að pakka og fórum með fötin okkar í þvott. Það var afar heitt í dag eins og nánast alla daga hérna, en þegar við fórum að sækja fötin kom rok og rigning. Við vorum svo sem ekkert að stressa okkur á því, settum bara regnslá yfir kerruna og teygðum okkur í regnhlífina. En þegar við vorum komin að þvottahúsinu fóru nokkrir gaurar að hrópa á okkur og benda upp í himininn en við skildum ekkert hvað þeir voru að segja og af hverju þeir væru að panikka svona – enginn er verri þó hann vökni örlítið. En allt í einu heyrðum við háværan dynk og sáum eitthvað sem dældaði þakið á bílnum rétt hjá – hvað gat það verið? Jú, haglél! Og engin smá haglél, stærstu kornin voru á við plómur þannig að við áttum fótum okkar fjör að launa. Karlinn í þvottahúsinu afgreiðir fötin alltaf í gegnum lúgu, en í ljósi aðstæðna bauð hann okkur inn í þvottahúsið. Við trúðum varla eigin augum, ég hef heyrt um svona haglél en aldrei séð hana fyrr. Við hefðum líklega rotast eða drepist hefðum við fengið einn svona hnullung í höfuðið. En þvottakarlinn hristi bara hausinn þegar ég var að furða mig á hvað þetta væri stórt, hann sagði að þetta væri ekkert svo stórt, það væri stórt þegar það væri á við epli, og svo lýsti hann stærðinni með höndunum!

http://www.buenosairesherald.com/article/95816/heavy-rains-hail-hit-ba-city-province


-

laugardagur, mars 17, 2012

Sunnudagsafvötnun 

Síðastliðna viku hefur Fríða María leitt foreldra sína um götur Buenos Aires, en ekki öfugt... nei það er nú kannski í ofsögum sagt en þegar áfengið er ódýrara en vatn er hætta á að neyslan á þessum eðalveigum fari aðeins fram úr hófi. Rauðvín með hádegismatnum, bjór til að svala þorstanum fram eftir degi, rauðvín með kvöldmatnum og svo meiri bjór og meira rauðvín... Þegar ég vaknaði með timburmenn á sunnudaginn var ég komin með nóg og hef haldið mig við vatn að mestu leyti síðan.

En hvað erum við svo búin að vera að gera samhliða allri þessari drykkju? Jú, fara út að borða og gæða okkur á dýrindis steikum, dilla mjöðmunum á salsastað, fara í skoðunarferðir um borgina og ýmislegt fleira. Og það besta er að Fríða María hefur fengið frí frá hífuðum foreldrunum stöku sinnum, þar sem við höfum verið svo heppin að fá pössun fyrir hana. Fríða María hefur verið hæstánægð með pössunarpíurnar þó að aðeins ein af þremur hafi talað íslensku. Um daginn þegar Isabel passaði hana meðan við fórum í skoðunarferð um borgina, sagði ég ”bless Fríða María” og dóttir mín rétt svo leit upp og svaraði ”chao” og hélt svo áfram að leika.


-

fimmtudagur, mars 08, 2012

Vínsmökkun Argentína er víst ekki eins ódýr og við bjuggumst við. Með falli krónunnar og stöðugt aukinni verðbólgu í Argentínu, er verðlagið bara svipað og í Vestur-Evrópu, og sumt er hreinlega dýrara en á Íslandi.En... það er þrennt sem er ódýrt hérna:

Rauðvín, nautakjöt og góðar ólívur. Og því grípum við að sjálfsögðu tækifærið og lifum á þessu.


Þegar litla daman er sofnuð á kvöldin höfum við foreldrarnir það notalegt með rauðvínsglas í hönd og eigum rómantískar stundir saman. Svo stígum við nokkur salsaspor... og já það er engin tangó á okkar heimili því við kunnum ekki svoleiðis, en reynum að rifa upp sporin sem við lærðum í fáeinum salsatímum í vetur.


Í kvöld vorum við með heimatilbúna rauðvíns-smökkun - ódýrasta vínið sem við drukkum í kvöld kostaði 350 kr, en það var þó ekki ódýrasta vínið í búðinni!! Og þrátt fyrir verðið var það alveg ótrúlega bragðgott. Dýrasta vínið kostaði 1200 kr, og það var líka alveg svakalega gott.
Við höfum haft það afskaplega gott undanfarna viku, tekið því frekar rólega og meira leitað að afþreyingu fyrir Fríðu Maríu heldur en að túristast. Við erum búin að fara í dýragarðinn, krakkasafn og alveg óteljandi leikvelli. Í gær fórum við reyndar í spænskutíma hjá henni Beatriz, þar sem Ásberg lærði m.a. að telja á spænsku og ég lærði hvað Argentínubúar tala ótrúlega "asnalega" miðað við Ecuadorbúa. Ég mun líklega alltaf tala með þeim hreim sem ég lærði í Ecuador, ég ætla ekkert að fara að breyta því núna.


Sem sagt allt gott að frétta héðan, hinum megin af hnettinum.

-

mánudagur, mars 05, 2012

Una cervesa por favor! 

(skrifað 3.mars 2012)


Jæja - klukkan er 5, aðfaranótt laugardags og ég er nýkomin úr sturtu eftir að hafa verið öll útötuð í bjór - hár, andlit, fötin og allt. Vá, sú hefur aldeilis verið að djamma, gætir þú verið að hugsa með þér. En nei nei, það voru sko aðrir að djamma en ekki ég!


En spólum aðeins til baka.


Við komum semsagt til Argentínu fyrir 5 dögum síðan og höfum eldað góðan mat, spókað okkur í sólinni og skoðað Palermo, hverfið sem við búum í. Það er búið að vera yndislegt þó að íbúðin sem við leigjum hafi ekki verið alveg eins og við bjuggumst við. "This amazing brand new apartment..." eins og henni var lýst á heimasíðunni, var hvorki amazing eða brand new, með a.m.k. 5 ára ryklagi á ljósakrónunni, flagnandi málningu, hurðahún sem datt í sífellu af, ónýtum sturtuhaus og biluðum lás á svalahurðinni, svo ég nefni nokkur atriði. En eftir að hafa kvartað var eitthvað af þessu lagað og við vorum bara orðin nokkuð sátt.... þar til í kvöld.


Þá hófst partý í garðinum! Frekar saklaust til að byrja með en smátt og smátt fór tónlistin að hækka og fleira fólk fór að tínast í partýið. Og ég tek það fram að þetta er lítill garður, bara fyrir ca 10 íbúðir, og við erum á 1.hæð, nánast bara í partýinu.


1:00 Fríða María glaðvaknar og ég stend við gluggann með hana í fanginu og horfi með hneykslunarsvip á fólkið. Nokkrir horfa á móti og brosa.


2:00 Bassinn er hækkaður og komin diskóljós. Ég fer út á svalir, enn með Fríðu Maríu í fanginu til að reyna að skora samúðarstig, og öskra yfir garðinn að þau lækki tónlistina. Það heyrist varla í mér því tónlistin er orðin svo há og fólkið horfir bara á mig eins og ég sé klikkuð.


3:00 Hávaðinn er óbærilegur og nú er fjöldi partýgesta um 50 og komin diskóljós og alles. Ég fer út í garð...með Fríðu Maríu í fanginu. Samstundis koma að tveir gaurar sem standa að partýinu. Ég helli mér yfir þá og þeir eru voða sorrý yfir því að barnið mitt geti ekki sofið... en segjast samt ekki geta stoppað partýið aaaaalveg strax... "bara nokkrir klukkutímar í viðbót" segir annar þeirra. "Nokkrir klukkutímar!" segi ég alveg hneyksluð, "þið fáið 10 mínútur" og svo strunsa ég í burtu.


4:20 Fríða María er loksins sofnuð, en hvernig hún fór að því er ofar mínum skilningi því ég heyri ekki í mínum eigin hugsunum. Ég er orðin svo brjáluð að ég er farin að velta fyrir mér hvaða hlutum ég geti hent í fólkið bara til að fá smá útrás fyrir reiðina. Loks strunsa ég enn og aftur út, í þetta sinn treð ég mér í gegnum þvöguna og fer alla leið að gaurunum á græjunum. Ég heimta að þeir lækki tónlistina, en þeir þykjast ekki heyra í mér og stara bara áhugalausum augum á tölvuskjáinn. Þá skelli ég saman tölvunni og þeir horfa bara hneyklsaðir á mig. Í því koma aðvífandi gaurarnir tveir frá því áðan, og með þeim þriðji gaurinn sem á víst afmæli og er heiðursgestur þessarar samkomu. Allir þykjast þeir vera voða sorrý en reyna samt aðallega að skipta um umræðuefni með því að spyrja hvað ég heiti og hvaðan ég er. "Eigum við ekki að koma einhvert þar sem við talað betur saman, það heyrist svo lítið hér," segir einn þeirra. "Heyrist lítið! Já það er einmitt vandamálið," segi ég og skelli tölvunni aftur saman hjá strákunum með tónlistina. Annar þeirra verður reiðilegur og hækkar frekar tónlistina heldur en lækkar. Þá missi ég mig og gríp næsta bjórglas og helli yfir hann. Hann grípur þá annað bjórglas og skvettir á mig. Þá upphefst bjórslagur á milli okkar og við náum að tæma úr þónokkrum bjórglösum yfir hausinn á hvort öðru áður en strákarnir stöðva okkur. Afmælisbarnið dregur mig afsíðis og vill endilega bjóða mér handklæði, en ég afþakka það og gef lítið fyrir allt hans sweet-talk en að endingu lofar hann að lækka tónlistina aðeins og stöðva partýið um fimmleytið.


5:00 Ég held svei mér þá að hann hafi staðið við loforðið... tónlistin er að fjara út og fólk virðist vera að fara :-)


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter