<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Meeeeeee.... 

2 viðburðarríkar sauðburðarvikur eru liðnar.
Því miður endaði sagan af litla veikburða krílinu ekki vel. Ég sat yfir lambinu til kl.tvö um nóttina þangaði til litla skinnið gaf upp öndina. Við höfðum gert allt sem í okkar valdi stóð, hitað lambið í marga tíma, gefið því mjólk að drekka og glúkósa í æð....en allt kom fyrir ekki. Frekar svekkjandi.

Síðasta daginn skoðuðum við ólétta kind sem var mjög veik. Dýralæknirinn var nýfarinn í hádegismat þegar kindin skyndilega bara dó í höndunum á okkur. Það mátti engan tíma missa svo við ristum kindina á hol og náðum lambinu út....reyndum allt hvað við gátum að lífga lambið við, ég reyndi meira að segja munn við munn, en það var of seint. Lambið var kallt og var sennilega dautt rétt áður en móðir þess dó. Svo leiðinlegt þegar sögurnar enda ekki vel.

Og enn einn sorglegi viðburðurinn þegar við uppgötvuðum að eitt af keisaralömbunum okkar var fótbrotið. Það hafði setið fast með fótinn í einni rifunni í gólfinu. Við nánari skoðun komumst við að því að fóturinn væri líklega ekki brotinn, heldur voru liðböndin slitin... sem er eiginlega mikið verra. Fótbrotin lömb fá bara gifs og það endar yfirleitt alltaf vel. Við vorum alveg miður okkar...og vildum ekki sjá enn einn sorglegan endi. Valið stóð milli þess að aflífa lambið eða gera liðaðgerð sem enginn okkar hafði prófað áður, ekki einu sinni dýralæknirinn. Við ákváðum að taka sénsinn og aðgerðin heppnaðist vel. Dýralæknirinn lofaði okkur að ef allt myndi ganga að óskum þá myndi hún sjá til þess að lambinu yrði ekki slátrað í haust, og að hún fengi að verða mamma næsta vor. Við bíðum spenntar eftir fréttum af framhaldinu.

Þetta var allavega lærdómsríkt, en líka erfitt. Það er niðurdrepandi þegar hlutirnir ganga ekki fyrir sig eins og maður óskar. En svona er víst lífið. Svo ég líti nú á björtu hliðarnar þá hjálpaði ég ótal hraustum lömbum í heiminn sem dafna vel. Það eru góðu sögurnar sem gera það þess virði að vera dýralæknir.

-

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Enn meiri sauðburður... 

Við tókum þrjú lömb með keisaraskurði áðan.
Móður og "börnum" heilsast vel (2 hrútar og 1 gimbur).

En svo var ein sem fæddi 4 lömb, og eitt þeirra er mjög veikburða og kallt. Ég er búin að reyna að fá "råmælk" (vill einhver þýða það fyrir mig)í litla lambið en það gengur erfiðlega. Nú er ég búin að setja það í hitakassa og bíð átekta. Verð að kíkja á það rétt bráðum og gefa því meiri mjólk.

Þetta minnir mig á fyrir mörgum árum síðan, þegar Anna Margrét frænka mín setti veikburða lamb inn í bakarofninn á Sölvabakka. Lambið lifði því miður ekki af og Anna Magga greyið brast í grát. Það er efni í góðan bónda sem þykir svona vænt um dýrin sín....enda er hún bóndi á Sölvabakka í dag!!

-

sunnudagur, apríl 10, 2005

Súperman & co. 

Lyktin er kunnugleg.... æskuminningar frá Haga og Sölvabakka fylla hugann frá morgni til kvölds. Hárið og fötin anga af þessari sérstöku rollulykt, og þó hún sé sterk þá finnst mér hún samt góð.

Nú hef ég verið í Noregi í eina viku og þar með hálfnuð með kinda-námskeiðið. Á daginn eru fyrirlestrar og svo kryfjum við dauð lömb og kindur. Á kvöldin og næturnar sitjum við yfir sauðburði.

Föstudagsnóttin var viðburðarrík. Anna og ég vorum með vakt alla nóttina. Við litum eftir kindunum á uþb. klukkutíma fresti, það tók því varla að sofna svo við horfðum bara á vídeó þess á milli. Það fæddust í allt 9 lömb þá nóttina, og 3 þeirra þurftu á hjálp að halda við að komast í heiminn. Fyrsta lambið sem ég tók á móti hafði framfæturna of langt aftur og komst þess vegna ekki út. Ég varð að ýta því varlega inn og rétta úr fótunum, eftir það gekk allt eins og í sögu. Alveg ótrúleg tilfinning að draga lítið lamb út, taka slímið úr kokinu, hrista það og nudda þangað til maður sér fyrsta andardráttinn og heyrir þetta undursamlega "meeeeeeeee.....".
Hinar stelpurnar höfðu allar prófað að taka á móti lömbum fyrr um daginn, og þau fengu nöfn eftir þeim. Nú var röðin komin að mér, og mitt fyrsta lamb fékk að sjálfsögðu nafnið FREYR.

Næsta lamb sem sat fast hafði hægri framfót framávið, en sá vinstri lá niður með hliðinni, alveg eins og Súperman. Ég varð að rétta fótinn fram, en á sama tíma passa upp á að litlu klaufirnar myndu ekki rífa gat á viðkvæmt legið. Og það tókst og lambið kom út, stór og sterkur strákur, sem gat varla beðið eftir því að komast á fætur. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða nafn hann fékk!

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter