<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Meeeeeee.... 

2 viðburðarríkar sauðburðarvikur eru liðnar.
Því miður endaði sagan af litla veikburða krílinu ekki vel. Ég sat yfir lambinu til kl.tvö um nóttina þangaði til litla skinnið gaf upp öndina. Við höfðum gert allt sem í okkar valdi stóð, hitað lambið í marga tíma, gefið því mjólk að drekka og glúkósa í æð....en allt kom fyrir ekki. Frekar svekkjandi.

Síðasta daginn skoðuðum við ólétta kind sem var mjög veik. Dýralæknirinn var nýfarinn í hádegismat þegar kindin skyndilega bara dó í höndunum á okkur. Það mátti engan tíma missa svo við ristum kindina á hol og náðum lambinu út....reyndum allt hvað við gátum að lífga lambið við, ég reyndi meira að segja munn við munn, en það var of seint. Lambið var kallt og var sennilega dautt rétt áður en móðir þess dó. Svo leiðinlegt þegar sögurnar enda ekki vel.

Og enn einn sorglegi viðburðurinn þegar við uppgötvuðum að eitt af keisaralömbunum okkar var fótbrotið. Það hafði setið fast með fótinn í einni rifunni í gólfinu. Við nánari skoðun komumst við að því að fóturinn væri líklega ekki brotinn, heldur voru liðböndin slitin... sem er eiginlega mikið verra. Fótbrotin lömb fá bara gifs og það endar yfirleitt alltaf vel. Við vorum alveg miður okkar...og vildum ekki sjá enn einn sorglegan endi. Valið stóð milli þess að aflífa lambið eða gera liðaðgerð sem enginn okkar hafði prófað áður, ekki einu sinni dýralæknirinn. Við ákváðum að taka sénsinn og aðgerðin heppnaðist vel. Dýralæknirinn lofaði okkur að ef allt myndi ganga að óskum þá myndi hún sjá til þess að lambinu yrði ekki slátrað í haust, og að hún fengi að verða mamma næsta vor. Við bíðum spenntar eftir fréttum af framhaldinu.

Þetta var allavega lærdómsríkt, en líka erfitt. Það er niðurdrepandi þegar hlutirnir ganga ekki fyrir sig eins og maður óskar. En svona er víst lífið. Svo ég líti nú á björtu hliðarnar þá hjálpaði ég ótal hraustum lömbum í heiminn sem dafna vel. Það eru góðu sögurnar sem gera það þess virði að vera dýralæknir.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter