<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, apríl 10, 2005

Súperman & co. 

Lyktin er kunnugleg.... æskuminningar frá Haga og Sölvabakka fylla hugann frá morgni til kvölds. Hárið og fötin anga af þessari sérstöku rollulykt, og þó hún sé sterk þá finnst mér hún samt góð.

Nú hef ég verið í Noregi í eina viku og þar með hálfnuð með kinda-námskeiðið. Á daginn eru fyrirlestrar og svo kryfjum við dauð lömb og kindur. Á kvöldin og næturnar sitjum við yfir sauðburði.

Föstudagsnóttin var viðburðarrík. Anna og ég vorum með vakt alla nóttina. Við litum eftir kindunum á uþb. klukkutíma fresti, það tók því varla að sofna svo við horfðum bara á vídeó þess á milli. Það fæddust í allt 9 lömb þá nóttina, og 3 þeirra þurftu á hjálp að halda við að komast í heiminn. Fyrsta lambið sem ég tók á móti hafði framfæturna of langt aftur og komst þess vegna ekki út. Ég varð að ýta því varlega inn og rétta úr fótunum, eftir það gekk allt eins og í sögu. Alveg ótrúleg tilfinning að draga lítið lamb út, taka slímið úr kokinu, hrista það og nudda þangað til maður sér fyrsta andardráttinn og heyrir þetta undursamlega "meeeeeeeee.....".
Hinar stelpurnar höfðu allar prófað að taka á móti lömbum fyrr um daginn, og þau fengu nöfn eftir þeim. Nú var röðin komin að mér, og mitt fyrsta lamb fékk að sjálfsögðu nafnið FREYR.

Næsta lamb sem sat fast hafði hægri framfót framávið, en sá vinstri lá niður með hliðinni, alveg eins og Súperman. Ég varð að rétta fótinn fram, en á sama tíma passa upp á að litlu klaufirnar myndu ekki rífa gat á viðkvæmt legið. Og það tókst og lambið kom út, stór og sterkur strákur, sem gat varla beðið eftir því að komast á fætur. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða nafn hann fékk!

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter