<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 25, 2005

Sex&TheCity 

Helga Margrét var í heimsókn hjá mér um helgina. Og eins og ávallt þegar hún kemur í heimsókn, þá var mikið stuð.

Laugardagskvöldið byrjaði með pizzu, rauðvíni og Júróvisíon. Svo skelltum við okkur á Jazzhouse ásamt Önnu, sænsku vinkonu minni. Þar tjúttuðum við þangað til staðurinn lokaði klukkan fimm.

Sunnudagurinn var æði.... borðuðum dýrindis morgunverð í góða veðrinu úti í garði, klukkan 15:30. Eftir það horfðum við á 12 Sex & the city þætti í röð. Lífið gæti ekki verið dásamlegra.

"Men aren't that complicated.... they're kinda like plants!!"
(Samantha; Sex&TheCity)

-

miðvikudagur, maí 18, 2005

Má bjóða þér tyggjó? 

Ég átti erfitt með að einbeita mér í danstíma í dag. Tangólíus vinur minn getur verið soldið andfúll stundum, en í dag var það sérstaklega slæmt. Úff! Og ekki getur maður sagt það beint út... eða það er allavega eitt af því sem ég get ekki sagt við fólk nema ég þekki það vel. Og ég var ekki með tyggjó á mér, er því miður búin að klára extra-kartonin tvö sem ég keypti í fríhöfninni um jólin. (ég er tyggjó fíkill)

Annars gekk bara ágætlega í tímanum. Ég get samt örugglega verið frekar óþolandi dansfélagi, ég er nefnilega svo óþolinmóð og vil fá að stjórna. Og ég á erfitt með að skilja þegar dansherrann getur ekki lært sporin um leið... þetta er jú svo auðvelt!
Greyið Tangólíus litli að vera með svona erfiða dömu.

-

þriðjudagur, maí 17, 2005

Það er blessuð blíðan! 

Ég hitt Bamsemúms í dag á bókasafninu. Og surprise surprise hann spurði mig hvernig ég hefði það í fætinum (þeas. fætinum sem ég braut í fyrra). Ok já já, mjög sætt af honum að hafa áhyggjur af mér og sýna að honum væri ekki sama um það hvernig fóturinn minn hefði það..... en þegar hann spyr um það í hvert einasta sinn sem ég hitti hann, hvort sem það er í íþróttasalnum, á skólabarnum, í matsalnum eða á bókasafninu, þá gæti hann alveg eins verið að tala um veðrið.

-

mánudagur, maí 16, 2005

Fiskur nr.3: Herra Tangó 

Ó nei ó nei...
Hvað er ég eiginlega búin að koma mér út í?! Stefnumót með algjörlega ókunnugum manni sem ég hef bara skrifast á við á netinu - það er náttúrulega alveg út í hött. Og ekki neitt venjulegt stefnumót.... bara beinustu leið í kennslu í ástríðufullasta dans allra tíma - TANGÓ.

'Á ég eftir að þekkja hann' hugsaði ég með mér, meðan ég stikaði hröðum skrefum í áttina að Amagertorgi. 'Frábært Freyja - góð hugmynd eða hitt þó heldur, að hittast þar sem hundruðir manna eru samankomin að njóta sunnudagssólarinnar!'
Kanntur gosbrunnsins var þéttsetinn fólki - en það var þó einn sem skar sig úr, hann virtist vera einn og skimaði í kringum sig.. Þegar ég nálgaðist kom hann auga á mig og við gerðum okkur bæði grein fyrir að þetta var sama manneskjan og á myndinni á netinu.'Handaband eða faðmlag....hvað er eiginlega mest viðeigandi?' - en áður en ég náði að ákveða mig kom hann á móti mér og faðmaði mig.

Við settumst á kaffihús í Strædet. Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir var hann talaði pínu skrítið og mér sýndist hann vera með heyrnatæki í eyrunum. Svo liðu 2 mínútur og ég var búin að gleyma því... við vorum í hrókasamræðum og tókum ekkert eftir því hvað tímanum leið.
"Guð klukkan er orðin sjö!!"
Og svo hlupum við flissandi á tangóstaðinn sem Kristín móðursystir mín hafði bent mér á.

"Við verðum að hætta að kjafta og reyna að einbeita okkur...annars lærum við þetta aldrei" "Já þú hefur rétt fyrir þér" sagði hann og steig eitt skref fram með vinstri og ég fylgdi á eftir með skrefi afturábak.
Við vorum að komast upp á lagið með þetta þegar kennarinn sagði: "Jæja, nú er tími til kominn að skifta um dansfélaga, allir herrar eiga að færa sig að næstu dömu!"
"1 2 3 4 - 1 2 3 4" mumlaði nýi dansherrann og steig um leið á tærnar mínar í nánast hverju skrefi. Skyndilega var ekkert svo gaman að dansa tangó....

Garnirnar voru farnar að gaula eftir allt danserfiðið, svo það var gott að setjast niður og gæða sér á dýrindis pasta. Af einhverjum ástæðum fannst mér ofsalega auðvelt að vera ég sjálf og ég skammaðist mín ekkert fyrir mína klunnalegu borðsiði...en það þýðir jú örugglega að ég var ekkert spennt fyrir honum, því ef ég væri það myndi ég roðna og stama o.s.frv. Við töluðum um allt milli himins og jarðar, engar vandræðalegar þagnir mynduðust og tíminn flaug áfram. En þegar við vorum farin að tala um dansmyndir á borð við Dirty Dancing og Shall we dance, og ennfremur ástir og örlög persónanna í Orange County sló það mig:
'Hann hlýtur að vera hommi'
Nei nei Freyja mín, enga vitleysu... þú mátt ekki vera svona fordómafull í garð greyið stráksins. Bara af því að fyrrverandi kærastinn minn var tilfinningalega bældur og hagaði sér á allan hátt eins og stereótýpu karlamaðurinn, þá þarf það ekki að þýða að ALLIR gagnkynhneigðir karlmenn séu þannig!

Þegar við loksins kvöddumst ákváðum við að fara á tangónámskeið sem átti að byrja viku seinna. Og ég get svo sem alveg komið með framhaldið af sögunni núna. Við erum orðnir dansfélagar og vinir (bara vinir!!), höfum farið í tvo danstíma og ég er meira að segja búin að kaupa mér tangó-skó (rosa flottir). Og núna um helgina var tangófestival í Radiohúsinu þar sem við dönsuðum aðeins og fengum leiðsögn af Kristínu móðursystur. Það var mjög gaman. Kristín mismælti sig aðeins í dag þegar hún hringdi og spurði hvor ég og kærastinn vildum koma á festivalið í kvöld. Ég leiðrétti hana auðvitað í snarhasti ÞVÍ VIÐ ERUM BARA VINIR!!!

(átti sér stað 24.apríl 2005)

-

sunnudagur, maí 15, 2005

Ég veit hvað ég ætla að gera... 

...þegar ég verð stór!

ÉG er orðin svo þreytt á eilífum spurningum um hvað ég ætli að gera þegar ég klára námið. Já því það er jú að styttast í það, ég komst að því í dag að mig vantar aðeins 36 einingar!!

Áður fyrr var planið alltaf bara að fylgja Mikkel þó það væri á hjara veraldar, og ég myndi örugglega fá vinnu sem dýralæknir. En nú fæ ég spurningar í sí og æ: "Ætlarðu að flytja til Íslands?" "Ætlarðu að reyna að fá vinnu í Kaupmannahöfn" "Hvernig dýralæknir viltu verða?" "Hvar ætlarðu að sækja um vinnu?" Hvar ætlarðu að búa?"
Og ég er að verða gráhærð því ÉG VEIT EKKI SVARIÐ!!! Og mig langar satt að segja ekkert að pæla neitt of mikið í því. Ég er frekar bjartsýn manneskja að eðlisfari og hlutirnir reddast yfirleitt einhvern veginn.

En héðan í frá verður svarið:
"Ég ætla að fara til Mexíkó og vinna sem sjálfboðadýralæknir!"

-

sunnudagur, maí 08, 2005

Fiskur nr.2: Herra Sterkur... 

..eða Bamsemúms eins og hún Hulda vinkona kallar hann. Já það var semsagt planið að ég ætti að kenna honum að skauta, en þegar til kom var blessað vorið komið og skautasvell borgarinnar horfin. En Bamsemúms dó ekki ráðalaus, hringdi í mig og sagðist bara ætla að sýna mér staði í Kaupmannahöfn sem ég hefði aldrei séð áður. Mér fannst það bara hljóma vel, og hlakkaði til að sjá nýjar hliðar á hinni frábæru Köben.

Ég dreif mig út um leið og dyrabjallan hringdi, og þarna stóð hann.... líkamsræktarþjálfarinn minn (fyrrverandi þeas., ég er búin að segja upp kortinu!!)
Stór og stæltur og krúnurakaður..... og í flottum púmaskóm.

"Jæja hvert eigum við að fara?"
"Tja, ég var að spá... hefurðu séð Kastellet?"
"Já"
"En Grasagarðinn?"
"Já"
"Óperuhúsið eða Regensen kollegíið"
"ehe...já... og pabbi sýndi mér Regensen síðasta sumar... eeeenn ég get sko alveg séð eitthvað af þessu aftur!!"
"mmm ertu viss? Úff mér dettur ekkert fleira í hug, ok við förum bara í smá hjólatúr og byrjum á því að kíkja á grasagarðinn."

Við hjóluðum rösklega af stað, og ég varð undir eins móð og másandi. Skammaðist mín fyrir að hafa sagt upp líkamsræktarkortinu og reyndi eftir fremsta megni að anda rólega.

"Hvernig gengur með fótinn, er þér ennþá illt?"
"það gengur ágætlega, ég á samt erfitt með að hlaupa.... en það er kannski af því að ég er ekki búin að gera þessar æfingar undanfarið sem þú ráðlagðir mér, ehehmmhemm. Já ég er nefnilega búin að vera svo upptekin, þú veist, með ritgerðina sem ég er að skrifa."
"Já þú þarft ekkert að vera með samviskubit frammi fyrir mér. Ég þekki þetta sjálfur, stundum þegar mikið er að gera í skólanum næ ég ekkert að hreyfa mig og lifi bara á ruslfæði. En þá líður mér alveg hræðilega og fæ spagettí handleggi"
Ég leit á vöðvastæltu upphandleggina og vantrúin skein úr augum mínum.

"Hey sérðu húsið þarna, það er voða spes, hornið á því er nefnilega minna en 90 gráður!"
"Ha...jaaaá en snið...voooóóahh..."
Bamsemums náði rétt svo að grípa í mig áður en ég steyptist af hjólinu eftir að hafa hjólað inn í kantsteininn.
Jæja þá fær hann í það minnsta að sjá THE REAL ME, hrakfallabálkinn og klaufann Freyju, sem kann ekki einu sinni að hjóla eftir 6 ár í Kaupmannahöfn.

Eftir túr í grasagarðinn, kastellet og Christiansborg settumst við á kaffihús í Strædet. Eftir ansi mörg "ha" og "hvað segirðu" var ég að verða þreytt á samtalinu. Hvernig í ósköpunum getur svona stór maður talað svona lágt??? Ég veit að ég get sjálf talað mjög lágt en það er ekki neitt í samanburði við hann. Og húmor, vantar manninn algjörlega húmor eða hvað?! Ok ég er ekkert sérstaklega fyndin en er það ekki almen kurteisi að í það minnsta brosa þegar ég reyni að segja eitthvað sniðugt? Einhver verður að segja eitthvað skemmtilegt, því ekki gerir hann það. Þetta er jafn leiðinlegt og fjandans atvinnuviðtal: "hver eru áhugamál þín? Hvað áttu mörg systkini? Hvernig tónlist hlustarðu á?"

Jæja ég slapp allavega lifandi út úr þessu, og það var nú kannski ekki eins slæmt og mig minnir. En nógu slæmt til að ég nenni ekki að fara á deit með honum aftur... Vá en heppilegt að ég er búin að segja upp líkamsræktarkortinu mínu hehe!!

(átti sér stað 27.mars 2005)

-

mánudagur, maí 02, 2005

Fiskur nr.1: Herra Tóni 

Hendurnar skulfu eilítið meðan ég hélt kaffibollanum upp að vörunum. Ókunnugi dökkhærði maðurinn á móti horfði beint í augun á mér meðan hann talaði og ég byrjaði að svitna í lófunum.
Úff hvað það er erfitt að einbeita sér að því að drekka, hlusta af athygli, reyna að hugsa upp eitthvað sniðugt að segja og vera sæt allt á sama tíma. Hvað ef ég myndi svelgjast á kaffinu – bollinn rynni úr höndunum á mér – heitt kaffið skvettist í kjöltuna – og þá myndi mér bregða svo mikið að ég stæði upp og hrinti borðinu á hann – og svo yrðum við að fara upp á slysó með annars stigs brunasár.
Gvvvuuuuð hvað það yrði vandræðalegt...

Úps nú hætti hann að tala...var hann að spurja mig um eitthvað...jiiiii hvað á ég að segja, ég gleymdi alveg að fylgjast með því hvað hann var að tala um. Ehhhhhhehhh, kannski ef ég kinka kolli þá.......
.... já hjúkket það virtist passa inn. Ok Freyja, einbeita sér, leggja bollann frá sér hægt og rólega...hlusta...segja eitthvað, segja eitthvað, segja hvað?

“Já ég var nefnilega úti að ferðast í Suður Ameríku....þess vegna tók ég smá hlé á náminu”
Bla bla bla
“Varstu í alvöru að vinna með apa? Vá apar eru alveg frábærir.... Hey það væri ekkert smá sniðugt að gera rannsókn á því hvort og hvernig apar skynja tónlist!”
“Já eigum við ekki bara framkvæma svoleiðis rannsókn eftir nokkur ár?? Það gæti verið áhugavert...dýralæknir og tónlistarmaður að vinna saman!”
Hjehjehje blablabla hahaha hehe

Og eftir það var stemningin mikið afslappaðri, og mitt fyrsta stefnumót ever með einhverjum sem ég þekkti varla neitt og hafði aldrei kysst heppnaðist bara vel og án allra stóráfalla!!

(átti sér stað 12.mars 2005)

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter