<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 16, 2005

Fiskur nr.3: Herra Tangó 

Ó nei ó nei...
Hvað er ég eiginlega búin að koma mér út í?! Stefnumót með algjörlega ókunnugum manni sem ég hef bara skrifast á við á netinu - það er náttúrulega alveg út í hött. Og ekki neitt venjulegt stefnumót.... bara beinustu leið í kennslu í ástríðufullasta dans allra tíma - TANGÓ.

'Á ég eftir að þekkja hann' hugsaði ég með mér, meðan ég stikaði hröðum skrefum í áttina að Amagertorgi. 'Frábært Freyja - góð hugmynd eða hitt þó heldur, að hittast þar sem hundruðir manna eru samankomin að njóta sunnudagssólarinnar!'
Kanntur gosbrunnsins var þéttsetinn fólki - en það var þó einn sem skar sig úr, hann virtist vera einn og skimaði í kringum sig.. Þegar ég nálgaðist kom hann auga á mig og við gerðum okkur bæði grein fyrir að þetta var sama manneskjan og á myndinni á netinu.'Handaband eða faðmlag....hvað er eiginlega mest viðeigandi?' - en áður en ég náði að ákveða mig kom hann á móti mér og faðmaði mig.

Við settumst á kaffihús í Strædet. Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir var hann talaði pínu skrítið og mér sýndist hann vera með heyrnatæki í eyrunum. Svo liðu 2 mínútur og ég var búin að gleyma því... við vorum í hrókasamræðum og tókum ekkert eftir því hvað tímanum leið.
"Guð klukkan er orðin sjö!!"
Og svo hlupum við flissandi á tangóstaðinn sem Kristín móðursystir mín hafði bent mér á.

"Við verðum að hætta að kjafta og reyna að einbeita okkur...annars lærum við þetta aldrei" "Já þú hefur rétt fyrir þér" sagði hann og steig eitt skref fram með vinstri og ég fylgdi á eftir með skrefi afturábak.
Við vorum að komast upp á lagið með þetta þegar kennarinn sagði: "Jæja, nú er tími til kominn að skifta um dansfélaga, allir herrar eiga að færa sig að næstu dömu!"
"1 2 3 4 - 1 2 3 4" mumlaði nýi dansherrann og steig um leið á tærnar mínar í nánast hverju skrefi. Skyndilega var ekkert svo gaman að dansa tangó....

Garnirnar voru farnar að gaula eftir allt danserfiðið, svo það var gott að setjast niður og gæða sér á dýrindis pasta. Af einhverjum ástæðum fannst mér ofsalega auðvelt að vera ég sjálf og ég skammaðist mín ekkert fyrir mína klunnalegu borðsiði...en það þýðir jú örugglega að ég var ekkert spennt fyrir honum, því ef ég væri það myndi ég roðna og stama o.s.frv. Við töluðum um allt milli himins og jarðar, engar vandræðalegar þagnir mynduðust og tíminn flaug áfram. En þegar við vorum farin að tala um dansmyndir á borð við Dirty Dancing og Shall we dance, og ennfremur ástir og örlög persónanna í Orange County sló það mig:
'Hann hlýtur að vera hommi'
Nei nei Freyja mín, enga vitleysu... þú mátt ekki vera svona fordómafull í garð greyið stráksins. Bara af því að fyrrverandi kærastinn minn var tilfinningalega bældur og hagaði sér á allan hátt eins og stereótýpu karlamaðurinn, þá þarf það ekki að þýða að ALLIR gagnkynhneigðir karlmenn séu þannig!

Þegar við loksins kvöddumst ákváðum við að fara á tangónámskeið sem átti að byrja viku seinna. Og ég get svo sem alveg komið með framhaldið af sögunni núna. Við erum orðnir dansfélagar og vinir (bara vinir!!), höfum farið í tvo danstíma og ég er meira að segja búin að kaupa mér tangó-skó (rosa flottir). Og núna um helgina var tangófestival í Radiohúsinu þar sem við dönsuðum aðeins og fengum leiðsögn af Kristínu móðursystur. Það var mjög gaman. Kristín mismælti sig aðeins í dag þegar hún hringdi og spurði hvor ég og kærastinn vildum koma á festivalið í kvöld. Ég leiðrétti hana auðvitað í snarhasti ÞVÍ VIÐ ERUM BARA VINIR!!!

(átti sér stað 24.apríl 2005)

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter