<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, maí 08, 2005

Fiskur nr.2: Herra Sterkur... 

..eða Bamsemúms eins og hún Hulda vinkona kallar hann. Já það var semsagt planið að ég ætti að kenna honum að skauta, en þegar til kom var blessað vorið komið og skautasvell borgarinnar horfin. En Bamsemúms dó ekki ráðalaus, hringdi í mig og sagðist bara ætla að sýna mér staði í Kaupmannahöfn sem ég hefði aldrei séð áður. Mér fannst það bara hljóma vel, og hlakkaði til að sjá nýjar hliðar á hinni frábæru Köben.

Ég dreif mig út um leið og dyrabjallan hringdi, og þarna stóð hann.... líkamsræktarþjálfarinn minn (fyrrverandi þeas., ég er búin að segja upp kortinu!!)
Stór og stæltur og krúnurakaður..... og í flottum púmaskóm.

"Jæja hvert eigum við að fara?"
"Tja, ég var að spá... hefurðu séð Kastellet?"
"Já"
"En Grasagarðinn?"
"Já"
"Óperuhúsið eða Regensen kollegíið"
"ehe...já... og pabbi sýndi mér Regensen síðasta sumar... eeeenn ég get sko alveg séð eitthvað af þessu aftur!!"
"mmm ertu viss? Úff mér dettur ekkert fleira í hug, ok við förum bara í smá hjólatúr og byrjum á því að kíkja á grasagarðinn."

Við hjóluðum rösklega af stað, og ég varð undir eins móð og másandi. Skammaðist mín fyrir að hafa sagt upp líkamsræktarkortinu og reyndi eftir fremsta megni að anda rólega.

"Hvernig gengur með fótinn, er þér ennþá illt?"
"það gengur ágætlega, ég á samt erfitt með að hlaupa.... en það er kannski af því að ég er ekki búin að gera þessar æfingar undanfarið sem þú ráðlagðir mér, ehehmmhemm. Já ég er nefnilega búin að vera svo upptekin, þú veist, með ritgerðina sem ég er að skrifa."
"Já þú þarft ekkert að vera með samviskubit frammi fyrir mér. Ég þekki þetta sjálfur, stundum þegar mikið er að gera í skólanum næ ég ekkert að hreyfa mig og lifi bara á ruslfæði. En þá líður mér alveg hræðilega og fæ spagettí handleggi"
Ég leit á vöðvastæltu upphandleggina og vantrúin skein úr augum mínum.

"Hey sérðu húsið þarna, það er voða spes, hornið á því er nefnilega minna en 90 gráður!"
"Ha...jaaaá en snið...voooóóahh..."
Bamsemums náði rétt svo að grípa í mig áður en ég steyptist af hjólinu eftir að hafa hjólað inn í kantsteininn.
Jæja þá fær hann í það minnsta að sjá THE REAL ME, hrakfallabálkinn og klaufann Freyju, sem kann ekki einu sinni að hjóla eftir 6 ár í Kaupmannahöfn.

Eftir túr í grasagarðinn, kastellet og Christiansborg settumst við á kaffihús í Strædet. Eftir ansi mörg "ha" og "hvað segirðu" var ég að verða þreytt á samtalinu. Hvernig í ósköpunum getur svona stór maður talað svona lágt??? Ég veit að ég get sjálf talað mjög lágt en það er ekki neitt í samanburði við hann. Og húmor, vantar manninn algjörlega húmor eða hvað?! Ok ég er ekkert sérstaklega fyndin en er það ekki almen kurteisi að í það minnsta brosa þegar ég reyni að segja eitthvað sniðugt? Einhver verður að segja eitthvað skemmtilegt, því ekki gerir hann það. Þetta er jafn leiðinlegt og fjandans atvinnuviðtal: "hver eru áhugamál þín? Hvað áttu mörg systkini? Hvernig tónlist hlustarðu á?"

Jæja ég slapp allavega lifandi út úr þessu, og það var nú kannski ekki eins slæmt og mig minnir. En nógu slæmt til að ég nenni ekki að fara á deit með honum aftur... Vá en heppilegt að ég er búin að segja upp líkamsræktarkortinu mínu hehe!!

(átti sér stað 27.mars 2005)

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter