<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 31, 2004

Ég er mikill aðdáandi "Animal Planet". Sérstaklega dýraspítalaþættirnir........ og nú er ég stödd í einum slíkum. Þeas ekki Animal Planet þætti, heldur svona dýraspítala eins og ég hafði áður bara séði í sjónvarpinu. Mér fannst dýraspítalinn í Köben stór....... þangað til ég kom hingað. Þetta er bara eins og mannaspítali með mismunandi deildir, hjartadeild, taugadeild osfrv. og í gær var meira að segja gerð heilaskurðaðgerð á hundi. Ok kanarnir ganga víst aðeins of langt í því að "bjarga" dýrunum, en mér finnst samt alveg ótrúlega kúl að vera hérna.
Ég er sjálf með "pager" og heyri öðru hvoru: "Freyja, could you please come to anaesthesia, your patient is ready for premedication" eða eitthvað í þá áttina. Og í aðgerðunum er ég með talstöð svo ég geti kallað á hjálp ef sjúklingurinn er ekki stabíll í svæfingunni td "this is Freyja to anaesthesia; the heartrate is going up and the bloodpressure too, so I need some fentanyl bolus or CRI please". Ekkert smá professional.

En allavega.... nú er komin helgi og ég er búin með mínar 2 vikur í svæfingum. Í næstu viku er það hjartalækningar, jibbí!!!
Mikkel er að koma í kvöld........ef bíllinn bilar ekki á leiðinni, hann er víst eitthvað slappur greyið.... þeas. bíllinn.

-

fimmtudagur, júlí 29, 2004

VARÚÐ - EFTIRFARANDI TEXTI ER EINGÖNGU DÝRALÆKNABULL

Úff þvílíkur stressdagur!!! Mikið að gera og enginn tími til að borða.

Ég var með þrjá sjúklinga í dag. Sá fyrsti átti að fara í hnéliðsaðgerð, svo ég deyfði hann, intúberaði (slanga niður í öndunarveginn) og setti æðalegg. Svo svæfði ég hann með gasinu og dýralæknirinn setti mænudeifingu (oh ég fékk ekki að gera það) allt var tilbúið, komin inn í skurðstofu...... þá uppgötvaði skurðlæknirinn að hundurinn var með bólur í húðinni þar sem að skurðurinn átti að vera. Þá urðum við að hætta við aðgerðina því við vildum ekki hætta á það að fá sýkingu inn í hnélið.

Jæja, næsti sjúklingur var köttur sem átti að taka úr sambandi. Júhú sagði ég því ég vildi endilega æfa mig í að intúbera kött.  Kettir eru miklu erfiðari en hundar, ef maður snertir eitthvað vitlaust niðri í hálsinum þá dregst allt saman og lokast bara. Og þá er vonlaust að fá túbuna niður. Sem sagt fyrsti kötturinn sem ég prófaði í síðustu viku gekk ágætlega, þeas. það tókst í 3ju tilraun eftir að hafa farið tvisvar niður í esofagus........ hvað heitir það á íslensku....hmmm... æi þar sem maturinn fer!! Svo reyndi ég aftur í gær en þá tókst það alls ekki, svo Dr. McEwan tók við og gerði það fyrir mig.  En í dag reyndi ég aftur og það gekk frekar erfiðlega. Kötturinn var byrjaður að blána af súrefnisskorti en Dr. McEwan sagði bara við mig: "Ég ætla ekki að gera þetta fyrir þig í þetta skipti, ég veit þú getur þetta, þetta er heimilislaus köttur svo þú verður bara að æfa þig..!!!" Ég vildi ekki láta greyið köttinn deyja bara af því að ég væri að æfa mig og væri eitthvað hikandi og óörugg, þannig að ég tók mig bara til og stakk túbunni niður, á réttan stað og allt saman. 

Þriðji sjúklingurinn var lítill púddel hundur með öndunarerfiðleika, svo hann átti að fara í bronchoskopi....... æi þið vitið myndavél niður í öndunarveginn. Þegar ég reyndi að intúbera hann þá komst ég auðvitað að því hvað vandamálið væri, gatið var pínulítið svo þess vegna átti hundurinn svona erfitt með að anda. Eftir að minnsta túbustærð var komin niður í hann vildu þeir samt gera bronchoskopi til að vita hvort það væri eitthvað meira.  Ég þurfti að taka hundinn af svæfingargasinu á meðan læknirinn skoðaði, sprautaði bara svæfingarlyfi í æð í staðinn. Svo vildi læknirinn skola öndunarveginn og taka prufu en þá byrjaði hundurinn að hósta og súrefnismettunin í blóðinu varð krítísk lág og hundurinn blánaði og ég veit ekki hvað og hvað.  Mér fannst þetta ekkert allt of skemmtilegt, vil ekkert að sjúklingarnir mínir deyi.  En allt lagaðist, svo þetta var víst ekkert svo alvarlegt.

Vá ég gæti haldið áfram með að segja sögur af því sem gerist hérna, en þið eruð örugglega löngu sofnuð yfir þessu dýralæknabulli. En ég ætla samt að halda áfram: ég er líka búin að intúbera hund á hliðinni (erfiðara á hliðinni) og hest!!! Ekkert mál að intúbera hest, eða kannski var ég bara heppin.  Í gær var ég með lítinn kettling sem var brotinn á báðum framfótum, og þurfti að fara í aðgerð til að skrúfa beinin saman. Ég var líka með hund sem var víst slæmur í maganum, rosalega horaður........ í aðgerðinni komust þeir að því hvað var að....... það vantaði briskirtil!!!! Af einhverri ástæðu hafði briskirtillinn bara minnkað í að vera næstum ekki neitt.  Mjög athyglisvert.

Jæja verð víst að fara heim og borða eitthvað

sí jú leiter alígeiter

-

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Þá eru fyrstu myndirnar komnar. Þetta eru myndirnar af mér og Mikkel þegar við fórum í fjallgöngu og útilegu og á ströndina. Klikkið bara hér til hægri á "USA 2004 #1"

-

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Mér tókst að hjóla allaleið í skólann í dag....ég er ekkert smá stolt.  En ég verð örugglega að labba hálfa leiðina heim því brekkan er svo roooooosalega brött upp á við heim til mín.

Heim að hleypa kettinum inn og gefa honum að borða. Ég bý hjá ástralskri fjölskyldu sem er í fríi, koma ekki heim fyrr en í næstu viku. Ég passa köttinn og vökva grasið í garðinum. Kötturinn heitir Oliver...... en ég kalla hann Feitilíus. Hann er svo feitur að hann rúllar frekar en labbar. En við erum ágætis vinir, eða Feitilíus þykist allavega vera vinur minn því ég er sú sem gef honum að borða. Fyrstu nóttina vaknaði ég við eitthvað hljóð sem líktist sláttuvélarmótor, og það var eitthvað sem stakkst öðru hvoru í handlegginn á mér. Það var bara Feitilíus sem hafði komið sér vel fyrir í rúminu mínu, malaði hæstánægður og teygði síðan úr sér með beittar klæarnar krafsandi í handlegginn á mér.  Ég var of þreytt til að reka hann í burtu en ég hef sofið með lokaðar dyr síðan.  Ég vön því að 3ja kílóa litli sæti hundurinn minn sofi í rúminu mínu, en ekki 10 kílóa Feitilíus sem malar eins og mótorhjól og klórar. En hann er samt voða sætur..... kannski er ég bara með fordóma fyrir feitum köttum....!!! 

Vitiði hvers konar sjúkling ég var með í dag...? Kött sem fór í "declaw" aðgerð. Þ.e.a.s. fjarlægja allar klærnar á greyinu. Þessir Ameríkanar, þykjast elska dýrin sín svo mikið en leggja samt á þau sársaukafulla aðgerð til þau eyðileggi ekki húsgögn eða klóri eigendur sína. Þau ættu bara að sleppa því að fá sér gæludýr ef þau sætta sig ekki við hvernig þau eru. Sem betur fer er þessi aðgerð ólögleg á Íslandi og í Danmörku.


-

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Ég er komin út í eyðimörkina......og Pullman er eins og lítil oasis hér á mörkum Washington og Idaho fylkis. Þetta er bara háskólabær, og líklega eru flestallir sem búa hér eitthvað tengdir skólanum.
Fyrstu 4 dagana var ég alveg að bráðna hérna í 40 stiga hita, og ekki bætti úr skák að Pullman er eins og mini-Sanfransisko, þeas. ekkert nema hæðir og hólar. Þannig að þegar ég ferðast um á mínu lánaða fjallahjóli þá er ég másandi og blásandi og öll löðrandi í svita......og eldrauð í framan.  En yfirleitt kemst ég ekki upp brekkurnar á hjólinu........ég reiði hjólið upp brekkur, og bruna svo niður og vona bara það besta því bremsurnar eru hem hem ekki svo góðar.
 
Ég byrjaði í skólanum í gær, í svæfingalækningum. Og hingað til hefur það verið mjög skemmtilegt og áhugavert. En nú er ég svo þreytt og svöng að ég verð að fara heim að borða....segi frá meiru seinna.

-

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Það er steikjandi hiti úti núna....akkúrat eins og ég vil hafa það. Einmitt þess vegna ætti ég eiginlega að vera úti að sleikja sólina í staðin fyrir að sitja hér eins og einhver lúði.

En jæja, ég fékk nú slatta að lit um helgina, við vorum nefnilega í útilegu. Fyrst fórum við með vinnunni hans Mikkels að skoða skóg sem hafði brunnið í stórum skógareldi síðasta sumar. Það var mjög áhugavert, ég komst að því að það eru heilmikil vísindi í kringum það í hvernig ástandi skógurinn er hvort að hann kemur vel eða illa út úr brunanum. Stundum eru litlir skógareldar beinlínis nauðsynlegir fyrir skóg. Merkilegt, ekki satt??!!

Ég gaf vinnufélögum Mikkels að smakka kúlusúkk og ástralski Tony sagði "hey I know this, we call them bullets". Þannig að það finnst víst eitthvað svipað í Ástralíu.... En Xiei og David frá Kína og Taiwan urðu ansi skrítnir á svipinn þegar þeir fengu þennan undarlega súkkulaði/lakkrís hlut upp í munninn. "It is special...." sagði David og reyndi að skyrpa þessu ógeði út svo lítið bar á. Ég hló bara og minntist þess að Maja vinkona hafði sagt að allir japanir skyrptu út úr sér íslenskum lakkrís. Greinilega eitthvað asískt fyrirbæri...

Svo fórum við tvö og tjölduðum á litlu tjaldsvæði, og grilluðum pølser og snobrød, og auðvitað fyrst við nú erum í USA þá grilluðum við marshmellows í eftirrétt.
Daginn eftir fórum við í fjallgöngu upp á eldfjall, og ég get svo svarið að ef ég hefði bara útilokað öll tréin þá hefði þetta getað verið Ísland. En auðvitað soldið erfitt að útiloka tréin þegar þau eru 499 þúsund silljón trilljón tré!
Og ekki var það verra þegar við fundum lítið vatn inni í miðjum skóginum þar sem við gátum tekið sundsprett í hitanum og svo legið í sólbaði. Algjör himnasæla.

jæja myndirnar fylgja seinna, en núna verð ég að hætta.
Ég flyt til Pullman á morgun, og svo byrja ég í skólanum á mánudaginn. Úff, skóli svona á miðju sumri. Nei nei það verður örugglega gaman.

-
Ég er búin að bæta við 4 myndum af litla ferfætta vini mínum sem er í pössun í Danmörku þessa stundina. Ef til vill bætast fleiri myndir við í þetta albúm (Elsku Míó Minn). Ég ætlaði að skrifa langa sögu við albúmið en þar sem það var ekki pláss fyrir langa skýringu þá kemur hún bara hér:

Þann 30.janúar 2002 fæddist lítill sætur papillon hvolpur einhvers staðar í Danmörku. Ca 8 vikum seinna var hann keyptur af einhverju pari sem gaf honum nafnið Stewart. Nokkrum mánuðum seinna fluttu þau til Canada og seldu Stewart littla til papillon ræktanda á Nörrebro sem breytti nafninu hans í Pappi. En þetta var lítil íbúð með alltof mörgum hundum, svo hálfu ári seinna kom ég til sögunnar. Ég keypti þennan litla engil.... sem síðan reyndist vera hinn mesti grallari og orkubolti. En mér finnst hann auðvitað vera sætastur í heimi og fyrirgef honum öll prakkarastrik. Mér fannst hvorki Stewart né Pappi vera nógu góð nöfn svo litla greyið fékk sitt þriðja nafn á stuttri ævi: MÍÓ. En það tók hann aðeins 2 daga að læra nýja nafnið. Klár kall.....

-

fimmtudagur, júlí 08, 2004

2. júlí var laaaaaaaangur dagur. Nákvæmlega 33ja tíma langur, vegna þess að ég flaug til Oregon í Bandaríkjunum og bætti þar með 9 tímum við þennan ágæta dag. En þetta var ekki auðvelt ferðalag, og minnstu munaði að ég aldrei kæmist á leiðarenda.

Ég lagði af stað eldsnemma um morguninn eftir 4ra tíma svefn. Allt gekk eins og i sögu úti í Kastrup lufthavn, ég þekki hann nú eins og lófann á mér. Klukkutíma biðröð i tékk inn, en annars bara smá hangs á flugvellinum og svo beinustu leið út í flugvél.

2ja tíma flug til Zurich var þægilega stutt og ég hafði smá tíma til að slappa af fyrir næstu flugferð. En þegar ég ætlaði að fara út í flugvélina var mér sagt að ég ætti eftir að fara í security check. Thað væri “over there”. Ok, hvar er “over there”, hugsaði ég með sjálfri mér, það er ekkert fólk “over there” og ég get ekki bara staðið og beðið eftir að einhverjum þóknist að gera security check á mér. Svo ég labbaði yfir að næste skrifborði og spurði hvort að security check væri hér.
“Nei, en þú þarft að tékka þig inn hér, þarna er maður sem getur gert security check á þér”
Jæja blessaður og sæll, ég er bara ljóshærð stelpa frá Íslandi, enginn hryðjuverkamaður á ferðinni hér….! Sagði þetta auðvitað ekki en ég komst auðvitað í gegn eins og ekkert væri. “
“Jæja, á ég núna að tékka mig inn?” spurði ég manninn.
“Nei þú ert búin að því” svaraði maðurinn.
“Nei hún á eftir að tékka sig inn hjá mér” kallaði konan við skrifborðið.
Í því sem ég var á leiðinni með mitt dót yfir til konunnar við skrifborðið, kom enn ein stressuð flugvallarkona, greip vegabréfið mitt og sagði mér að fylgja sér…….í hina áttina.
Á meðan hrópaði konan við skrifborðið “Nei nei, þú átt að tékka þig inn hér, komdu hingað, TÉKKA INN HÉR!!!”
En flugvallarkonan hljóp bara af stað með vegabrefið mitt svo ég varð að hlaupa á eftir henni. Ég náði vegabréfinu og hljóp aftur til baka, og þá var konan við skrifborðið orðin reið við mig, eins og þetta hefði eitthvað verið mér að kenna. “Ég sagði að þú ættir að tékka þig inn hér, af hverju komstu ekki um leið”
Mér fannst nú alveg vonlaust að rökræða við þetta snarbilaða fólk, svo ég sagði sem minnst og dreif mig eftir tékk inn, út í flugvélina sem var um það bil að takast á loft.

Nú tók við 9 ½ tíma flug til Washington DC. Í flugvélinni fengum við ýmsa pappíra til að fylla út fyrir “immigratinon” og tollinn. Immigration blaðið sem ég fékk var á þýsku, svo ég skildi varla orð (ég lærði frönsku í menntó) og fyllti það ábyggilega bandvitlaust út. Ég bað flugfreyjurnar um eitt á ensku, en nei nei það var auðvitað ekki hægt. Ég átti náttúrulega ekki skilið að komast til Bandarikjanna fyrst ég kynni ekki þýsku.

Loksins lentum við í Washington….og ég var í þeirri góðu trú að fyrst að næsta flug væri ekki fyrr en 3 tímum seinna, þá gæti ég slappað af á Starbucks eða einhverjum veitingastað. Þar skjátlaðist mér allhrapallega.
Washington Dulles er víst sjöundi mest “busy”flugvöllur í heiminum. Eftir langan gang úr flugvélinni í gegnum þrönga ganga sem líktust meira völundarhúsi en flugvallarbyggingu, komst ég í immigration röðina. Eftir klukkutíma bið í röðinni þar komst ég að því að þýska immigration blaðið mitt var ekki það sem ég átti að fylla út. Flugfreyjan hafði látið mig fá vitlaust blað. En thað var nú ekkert svo slæmt, ég var örskotsstund að fylla thað rétta út sem var á ENSKU…. en svo kom áfallið.
“Vísa pappírarnir þínir eru útrunnir!” “Þeir hljóta að hafa gert mistök í bandaríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, því Vísa-ið þitt rennur út sama dag og það tók í gildi. “
ÓÓÓÓÓ NEIIIIIIII……..
Svo ég þurfti að fara eitthvað annað að tala við fólk á einhverri skrifstofu. Þau voru svo sem ágætlega næs, en þetta tók mjööööög langan tíma. Að lokum sagði konan við mig “ok, þú kemst í gegn í þetta sinn, en ef þú ferð út úr USA, td. Til Mexiko eda Kanada, þá kemstu ekki inn aftur.”
Þar fór mín og Mikkels planlagða ferð til Kanada. Ég bölvaði sendiraðinu í Kaupmannahöfn í hljóði en hrósaði happi yfir því að hafa fengið leyfi til að komast inn i USA þrátt fyrir mistökin, og ég rétt náði fluginu mínu til Portland-Oregon.
Það hefur örugglega hjálpað að ég var ljóshærð stelpa frá Íslandi og ekki múslimi frá Afghanistan. Sorglegt en satt!!

Flugið til Portland tók 5 tíma, og svo hitti ég loksins Mikkel 24 tímum eftir að ég lagði af stað í ferðina. En dagsetningin var ennþá 2.júlí!!

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter