<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, september 30, 2007

Ég er á lífi 

Kannist þið ekki við þá tilfinningu að opna netpóstinn ykkar með eilitlum spenningi, í von um að einhver vinur eða ættingi eða bara einhver skemmtilegur hafi sent ykkur e-mail. Og svo verða vonbrigðin heilmikil þegar kemur í ljós að það er ekkert nema ruslpóstur eða álíka.
Svona hefur mér liðið undanfarna viku, og þegar ég opnaði póstinn minn í gærmorgunn, í stað bréfs frá vinkonu með titlinum "hæ hæ" eða einhverju álíka, var bréf frá dýralæknafélaginu með titlinum "Veiruskita í kúm". Þá hugsaði ég með mér, hingað og ekki lengra. Auðvitað fæ ég ekkert bréf frá neinum ef ég skrifa ekkert sjálf. Ég hef nánast ekki látið heyra í mér í 2 mánuði, fólk er örugglega búið að gleyma mér.
Þannig að hér er ég, skrifandi aftur, til að láta vita að ég sé ennþá á lífi.

Við skötuhjúin erum nýflutt í kjallaraíbúð í Hove. Kettirnir eru alveg í skýjunum yfir nýja staðnum og mala alveg út í eitt. Ástæðan er sú að við erum með risastóran garð, og það er kattalúga úr eldhúsinu út í garð, og þau notfæra sér þetta frelsi alveg óspart.
Gutti er reyndar voðalega lítill í sér í dag, vill ekkert borða og sefur bara uppi í rúmi. Ég hef hann grunaðan um að hafa lent í áflogum við einhvern nágranna kött. Hann er með nokkrar skrámur á höfðinu og er kominn með smá hita. Ég fann sem betur fer sýklalyf ofan í skúffu, svo ég þarf ekki að fara út í vinnu svona á frídeginum mínum.

Svo er ég að læra að verða hundaþjálfari. Gwen Bailey er kennarinn minn, og hún er einn af þekktustu hundaþjálfurum í Bretlandi, og hefur skrifað fjölmargar bækur. Þetta er voðalega gaman, en ég þarf líka að eyða heilmiklum tíma í verklegar æfingar. Ég þarf að sýna fram á að ég hafi gert ýmsar æfingar og þjálfað marga mismunandi hunda. Og það er svolítið erfitt að gera það allt saman meðan ég er í fullri vinnu sem dýralæknir líka. En ég tek mér bara minn tíma í þetta, ég er ekkert að flýta mér.

Ásberg er á Íslandi akkúrat núna. En hann kemur aftur í næstu viku. Og vonandi verður hann meira hjá mér eftir það. Við ætlum nefnilega að stofna fyrirtæki hérna í Brighton, en ég segi ykkur nánar frá því þegar sú hugmynd verður lengra á veg komin.

Og síðast en ekki síst, þá erum við að fara til Kenýa í október. Leggjum af stað 11.okt, og verðum í 12 daga. Jibbí jei.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter