<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 28, 2006

Góður labbitúr og fjölgun í fjölskyldunni 


Það hefur ýmislegt markvert gerst síðastliðna daga. Síðastliðinn laugardag átti mín elskulega frænka og vinkona, Sólrún, 26 ára afmæli. Og þann sama dag útskrifaðist hún Guðrún vinkona úr hagfræði. Til hamingju stelpur!!

En ég komst því miður ekki í neinar veislur því ég var upptekin við að labba. Nánar tiltekið Laugaveginn. Já við Ásberg ákváðum að skella okkur upp í Landmannalaugar með Huldu vinkonu og Tor kærasta hennar. Við vorum komin rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöld. Veðrið var yndislegt og ég er ekki frá því að við höfum heyrt eins og eina eða tvær kýr tala, þar sem þetta var Jónsmessunótt.

Okkur tókst að sofa aðeins um nóttina, þrátt fyrir háværar hrotur í tveimur dönskum kellingum sem deildu með okkur svefnskála. Síðan byrjuðum við daginn með hressandi baði í Landmannalaugum og eftir það hófst gangan. Við gengum alla leið að Álftavatni fyrsta daginn, löng og ströng en mjög falleg leið. Næsti áfangastaður var Emstrur og við enduðum svo í Þórsmörk á mánudaginn.

Það var blíðskaparveður allan tíman, svo við gátum ekki verið heppnari. Og Hulda og Tor komu okkur stöðugt á óvart með að draga upp alls kyns lúksus úr bakpokunum. Við fengum bjór og rauðvín eftir fyrsta göngudaginn, og svo toppuðu þau allt með að bjóða upp á kampavín á sunnudag, sem átti vel við því við Ásberg áttum árs afmæli þann dag.

Þetta var vel heppnuð ferð, og ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem lánuðu mér bakpoka, áttavita, kort, svefnpoka og fleira nytsamlegt.

Já og svo gerðist það í gær að litla fjölskyldan á Nönnugötu stækkaði úr 3 meðlimum í 4. Því inn á heimilið kom lítil svar-grá kisustelpa, sem ég fékk frá Dýralæknastofunni í Garðabæ.
Ég var pínu stressuð yfir þessu fyrst því hún er svo lítil, og Gutta fannst hún vera alveg frábært leikfang. Hann réðst á hana í tíma og ótíma og hún réði engan veginn við hann.
En þau eru strax orðin betri í dag. Nýjabrumið er farið af þessu í augum Gutta, og hann er búinn að uppgötva hvað það er þægilegt að kúra þétt upp að henni. Þau liggja núna og sofa værum svefni saman, algjör krútt.

-

mánudagur, júní 19, 2006

Krísa á Nönnugötu 

Kannski stríddi Ásberg honum Gutta aðeins of mikið á laugardags morguninn.... eða kannski var það nýja fóðrið sem ég gaf honum og hann virtist ekki alveg sáttur við... eða kannski vildi hann einfaldlega út að taka þátt í skrúðgöngu og hátíðarhöldum í stað þess að húka heima á þjóðhátíðardaginn.

En allavega, hver sem ástæðan var, þá strauk hann Guttormur að heiman um miðjan dag á 17.júní. Við vorum á leiðinni í brúðkaup þegar við uppgötvuðum að hann væri horfinn. Prakkarinn hafði stokkið út um opinn glugga inni á baði, sem er frekar hátt uppi, en þessi elska er orðinn svo stór og sterkur að hann kemst víst allt sem hann vill.

Við fórum út að leita og kalla, en urðum síðan að drífa okkur í brúðkaupið og skildum bara eftir alla glugga opna, og viðbúin ef einhver skyldi hringja. Það var róandi tilhugsun að ég var allavega búin að merkja hann í bak og fyrir, hann er meira að segja með örmerki undir húð, þannig að jafnvel þó hálsólin týnist þá er hann allavega strikamerktur okkur fyrir lífstíð.

Við komum ekki úr brúðkaupinu fyrr en kl. 4 um nóttina, og ég var hálfmiður mín yfir að hann skyldi ekki vera kominn heim. Var ákveðin í að hringja í Kattholt og Víkingasveitina strax daginn eftir.

Klukkan níu morguninn eftir, heyri ég ámátlegt mjálm.
- Er mig að dreyma - hugsaði ég með sjálfri mér. Var orðin svo móðursjúk að það kæmi mér svo sem ekkert á óvart.
En ég tók enga sénsa og hljóp strax fram á evuklæðum og opnaði bakdyrnar. Og hver kemur þá, enginn annar en týndi sonurinn, Guttormur Ásbergsson.

Hann vildi nú ekkert segja mér af ferðum sínum, sagði bara mjá og skreið svo upp í rúm og lagði sig á milli okkar eins og ekkert hefði í skorist. Geispaði eftir ævintýralega nótt úti við og sofnaði svo værum svefni.

-

sunnudagur, júní 04, 2006

Guttormur... 

...eða Gutti er víst ekkert frumlegt nafn á gæludýr. Ég fletti upp báðum nöfnunum í tölvuskrá Dagfinns dýralæknis, og þar voru ógrynni hunda, katta og hamstra sem hétu þessu nafni.

Í vikunni kom á stofuna Guttormur Pálsson, kallaður Gutti, myndarlegt fress með brotna kló. Páll Óskar nokkur Hjálmtýsson var eigandinn. Mér fannst svo sniðugt að þessi Gutti var skráður sem Guttormur Pálsson, svo ég hermdi og skráði Gutta okkar í kattaskrá Reykjavíkurborgar sem Guttorm Ásbergsson. Algjör hermikráka.

Annars er hann Gutti, Guttelíus, Guttormur, tígrisdýrið, tiger eða dýrið eins og við köllum hann, bara hress og kátur. Hann fór í sína fyrstu bólusetningu í vikunni og var "strikamerktur" í leiðinni. Nú er hann sem sagt með lítið örmerki undir húðinni svo það þarf ekki annað en að skanna hann til að sjá hvar hann á heima og hver eigandinn er.

Gutti ber nafnið með sóma og er alltaf að gera prakkarastrik. "Hvað varst þú að gera Gutti, geturðu ekki skammast þín?" fer bara inn um annað og út um hitt. Það er víst ekki það sama að ala upp kött eins og hund er ég búin að komast að. Kötturinn fer sínar eigin leiðir.

Frændi minn hann Brynjólfur er að fermast í dag. Ég vil nota tækifærið og óska honum innilega til hamingju með fermingardaginn. Ég er á vakt núna um helgina og komst þess vegna því miður ekki, en ég vona að fermingardagurinn verði ánægjulegur. Knús frá Freyju frænku.


Guttormur Ásbergsson


Smelly cat..smelly cat... varð að skella honum aðeins í þvottavélina!!

Svo er hann með góðan tónlistarsmekk. Það er voða gott að sofa ofan á græjunum.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter