<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 28, 2006

Góður labbitúr og fjölgun í fjölskyldunni 


Það hefur ýmislegt markvert gerst síðastliðna daga. Síðastliðinn laugardag átti mín elskulega frænka og vinkona, Sólrún, 26 ára afmæli. Og þann sama dag útskrifaðist hún Guðrún vinkona úr hagfræði. Til hamingju stelpur!!

En ég komst því miður ekki í neinar veislur því ég var upptekin við að labba. Nánar tiltekið Laugaveginn. Já við Ásberg ákváðum að skella okkur upp í Landmannalaugar með Huldu vinkonu og Tor kærasta hennar. Við vorum komin rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöld. Veðrið var yndislegt og ég er ekki frá því að við höfum heyrt eins og eina eða tvær kýr tala, þar sem þetta var Jónsmessunótt.

Okkur tókst að sofa aðeins um nóttina, þrátt fyrir háværar hrotur í tveimur dönskum kellingum sem deildu með okkur svefnskála. Síðan byrjuðum við daginn með hressandi baði í Landmannalaugum og eftir það hófst gangan. Við gengum alla leið að Álftavatni fyrsta daginn, löng og ströng en mjög falleg leið. Næsti áfangastaður var Emstrur og við enduðum svo í Þórsmörk á mánudaginn.

Það var blíðskaparveður allan tíman, svo við gátum ekki verið heppnari. Og Hulda og Tor komu okkur stöðugt á óvart með að draga upp alls kyns lúksus úr bakpokunum. Við fengum bjór og rauðvín eftir fyrsta göngudaginn, og svo toppuðu þau allt með að bjóða upp á kampavín á sunnudag, sem átti vel við því við Ásberg áttum árs afmæli þann dag.

Þetta var vel heppnuð ferð, og ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem lánuðu mér bakpoka, áttavita, kort, svefnpoka og fleira nytsamlegt.

Já og svo gerðist það í gær að litla fjölskyldan á Nönnugötu stækkaði úr 3 meðlimum í 4. Því inn á heimilið kom lítil svar-grá kisustelpa, sem ég fékk frá Dýralæknastofunni í Garðabæ.
Ég var pínu stressuð yfir þessu fyrst því hún er svo lítil, og Gutta fannst hún vera alveg frábært leikfang. Hann réðst á hana í tíma og ótíma og hún réði engan veginn við hann.
En þau eru strax orðin betri í dag. Nýjabrumið er farið af þessu í augum Gutta, og hann er búinn að uppgötva hvað það er þægilegt að kúra þétt upp að henni. Þau liggja núna og sofa værum svefni saman, algjör krútt.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter