<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 19, 2006

Krísa á Nönnugötu 

Kannski stríddi Ásberg honum Gutta aðeins of mikið á laugardags morguninn.... eða kannski var það nýja fóðrið sem ég gaf honum og hann virtist ekki alveg sáttur við... eða kannski vildi hann einfaldlega út að taka þátt í skrúðgöngu og hátíðarhöldum í stað þess að húka heima á þjóðhátíðardaginn.

En allavega, hver sem ástæðan var, þá strauk hann Guttormur að heiman um miðjan dag á 17.júní. Við vorum á leiðinni í brúðkaup þegar við uppgötvuðum að hann væri horfinn. Prakkarinn hafði stokkið út um opinn glugga inni á baði, sem er frekar hátt uppi, en þessi elska er orðinn svo stór og sterkur að hann kemst víst allt sem hann vill.

Við fórum út að leita og kalla, en urðum síðan að drífa okkur í brúðkaupið og skildum bara eftir alla glugga opna, og viðbúin ef einhver skyldi hringja. Það var róandi tilhugsun að ég var allavega búin að merkja hann í bak og fyrir, hann er meira að segja með örmerki undir húð, þannig að jafnvel þó hálsólin týnist þá er hann allavega strikamerktur okkur fyrir lífstíð.

Við komum ekki úr brúðkaupinu fyrr en kl. 4 um nóttina, og ég var hálfmiður mín yfir að hann skyldi ekki vera kominn heim. Var ákveðin í að hringja í Kattholt og Víkingasveitina strax daginn eftir.

Klukkan níu morguninn eftir, heyri ég ámátlegt mjálm.
- Er mig að dreyma - hugsaði ég með sjálfri mér. Var orðin svo móðursjúk að það kæmi mér svo sem ekkert á óvart.
En ég tók enga sénsa og hljóp strax fram á evuklæðum og opnaði bakdyrnar. Og hver kemur þá, enginn annar en týndi sonurinn, Guttormur Ásbergsson.

Hann vildi nú ekkert segja mér af ferðum sínum, sagði bara mjá og skreið svo upp í rúm og lagði sig á milli okkar eins og ekkert hefði í skorist. Geispaði eftir ævintýralega nótt úti við og sofnaði svo værum svefni.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter