<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júní 07, 2007

Dr. Freylittle 

Það gengur á ýmsu á dýraspítalanum New Priory í Brighton.
Ég hef verið furðu laus við bit og klór síðan ég útskrifaðist af sjúkrahúsi eftir ljóta kattabitið. Kannski hef ég verið aðeins varkárari.... kannski bara heppin..

Ég er farin að hafa lúmskt gaman af "emergency" vöktunum mínum á laugardögum. Það er yfirleitt heilmikið að gera, því auk þess að sinna okkar eigin kúnnum, þá þurfum við líka að taka á móti kúnnum frá 10 öðrum dýralæknastofum, sem loka um helgar.

Sjúklingarnir geta verið af ýmsu tagi, allt frá skjaldbökum og rottum, upp í hunda og ketti af öllum stærðum og gerðum. Og sjúkdómarnir/slysin eru einnig fjölbreytt, ss. fótbrot, sár eftir hunda/katta áflog, nýrnabilun, hjartabilun, snúinn magi, sýkingar, eitranir, áverkar eftir ákeyrslur ofl.ofl.

Núna nýlega hef ég fengið tvær helgar í röð, hunda sem hafa verið bitnir af eitruðum snáki. European Adder lifir góðu lífi hér á Bretlandi, og ekki síst hér í hitanum á suðurströndinni. Mér finnst þetta alveg ofsalega spennandi því þetta er náttúrulega eitthvað sem ég hef ekki kynnst á Íslandi. Við erum með móteitur til að gefa hundunum í æð, en aðeins ef það er 100% öruggt að þeir hafi verið bitnir af eitruðum snáki, því annars getur það ollið hættulegum aukaverkunum.

Fyrri sjúklingurinn hafði augljóslega verið bitinn. Eigandinn kom að hundinum með snákinn í kjaftinum, og eigandinn sá strax hvers konar snákur þetta var og kom samstundis með hundinn til okkar. Við skoðunina kom í ljós að snákurinn hafði náð að bíta greyið hundinn 1 sinni í andlitið og 2-3svar í fótinn. Ég hóf meðhöndlun með móteitri undireins, auk þess að gefa honum vökva í æð, sýklalyf, verkjalyf og stera. 24 tímum síðar var hundurinn búinn að jafna sig nóg til að geta farið heim, og mun vonandi láta sér þetta að kenningu verða..

Seinni sjúklingurinn kom til mín uþb. 3 tímum eftir að eigandinn tók eftir að hann var farinn að haltra eftir göngutúrinn. Eigandanum fannst þetta pínu furðulegt, því fyrst var hann bara aðeins haltur, en svo versnaði það og versnaði, þar til hundurinn var farinn að væla og skjálfa, og æpti ef hann var snertur. Mig fór að gruna hvað gæti verið að, og spurði hvar þeir höfðu verið í göngutúr, og hafði hundurinn fengið að hlaupa laus...? Eigandinn játti því og sagðist hafa verið að ganga um í skógi. Þessi svör ýttu enn frekar undir grun minn og ég mátti engan tíma missa. Hundurinn var innlagður og vökvi í æð settur upp. Svo fór ég að skoða fótinn betur sem var frekar bólginn fyrir neðan olnboga. Ég rakaði hárin yfir bólgunni og í ljós kom marblettur með snáka tannaförum í miðjunni. AHAAA, frábært... hugsaði ég, þá get ég notað móteitrið.
Sá hundur fékk einnig að fara heim daginn eftir, og við skoðun síðar í vikunni var hann bara nokkuð hress en þó ennþá frekar haltur.

En svo ég komi nú líka með stutta sögu úr hinni daglegu rútínu dýralæknavinnu...
Þriðjudagar eru aðgerðar-dagarnir mínir, og ég fékk í hendur hund sem Dr.Jóli hafði skoðað um morguninn og var bókaður inn fyrir eyrnahreinsun. Dr. Jóli bað mig um að taka lítið æxli af hálsinum í leiðinni. Ok, ekkert mál. Ég tek æxlið og sendi það í patologi rannsókn.
Nema hvað, eigandinn sækir hundinn síðar um daginn, en hringir svo þegar hún kemur heim og kvartar yfir því að rangt æxli hafi verið fjarlægt. Dr.Jóli skoðar hundinn aftur nokkrum dögum síðar og biðst afsökunar, en þá er upphaflega æxlið sprungið. Sem sagt virtist bara hafa verið cysta, og líklega góðkynja að sögn Dr. Jóla.
Ég frétti ekkert af þessu fyrr en þegar ég fæ niðurstöðurnar úr Patologi rannsókninni, og þá fletti ég upp sjúkraskýrslu hundsins og sé þetta: Rangt æxli var fjarlægt!!

En það var eins gott að ég fjarlægði það, því niðurstaðan var HAEMANGIOSARCOMA sem sagt illkynja æxli, og hvorki Dr.Jóli né eigandin höfðu einusinni tekið eftir þessu æxli!!!

-

sunnudagur, júní 03, 2007

Gutti grallari 


Við búum á þriðju hæð í blokk og því komast kisurnar ekkert út, en
geta samt spásserað og farið í eltingarleiki um alla íbuðina sem er
rumlega 100 fermetra stór. Við höfum alltaf passað okkur að loka
kisurnar út úr stofunni ef við opnum út á svalir.

EN....

Á föstudaginn var Ásberg á leið út í búð og kemur auga á gullfallegan
bröndóttan kött úti á bílastæði. Það er svo sem ekki í frásögur
færandi því það er nokkuð um ketti í hverfinu og allavega tveir eða
þrír aðrir kettir sem búa á fyrstu hæð blokkanna hérna og eru oft að
spóka sig um á bílastæðinu. En semsagt, Ásberg fannst hann kannast
eitthvað við köttinn sem var mjög gæfur og kom um leið og vildi láta
kela við sig. Hann lagðist strax a bakið og malaði kunnuglega. Ásberg
lagði saman tvo og tvo og fékk út að þetta væri hann Guttormur. En
það fyndna var að Ásberg hafði ekki einu sinni tekið eftir að hann
væri týndur.

Svo nú er bara stóra spurningin!!! Hvernig í ósköpunum komst hann út?!
Ásberg viðurkennir að hafa opnað út á svalir í morgun, en hann lokaði
dyrunum inn í stofu.... það er hinsvegar möguleiki að Gutti hafi
verið í felum í stofunni, og hafi síðan læðst út á svalir... og
stokkið niður? Hinn möguleikinn er að hann hafi komist út um eldhúsgluggann, reykskynjarinn hafði farið í gang kvöldið áður og ég opnaði gluggann aðeins meira en venjulega og gleymdi að loka aftur....

Mér finns nú eiginlega ótrúlegt að hann skuli ekki vera stórslasaður, því fallið er frekar hátt. Hann var reyndar aðeins haltur á vinstri framfæti, en kveinkaði sér ekkert og virtist hinn hressasti.

En kettir eru jú með 9 líf er það ekki?


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter