<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, júní 15, 2008

Brighton vs. Reykjavík 

Er alltaf að komast meira og meira að því að Brighton er bara svona lítil og sæt borg eins og Reykjavík, þar sem allir þekkja alla. Ég hef kynnst svo mörgu fólki síðan ég opnaði búðina, sérstaklega kúnnum sem stoppa alltaf og spjalla um gæludýrin sín. Svo þegar ég labba um í hverfinu þá rekst ég yfirleitt alltaf á einhvern þeirra og þá er heilsað og jafn vel spjallað aftur. Og ef ég skelli mér á pöbb í hverfinu (sem er ekki oft) þá er það sama sagan.
En í gær fórum við á veitingastað niðri í miðbæ Brighton sem er aðeins frá búðinni. Ég bjóst engan veginn við að rekast á neinn sem ég þekki og kom því alveg af fjöllum þegar þjónninn segir við mig "Hvernig gengur búðin??" Ég horfi spurnar augum á hann og stama eitthvað þannig að hann endurtekur spurninguna. Ég ennþá alveg bofs tekst að koma út úr mér "ha....ömmmm.... bara fínt". "Ég kom í búðina þína um daginn, manstu ekki eftir mér??" Ég alveg vandræðaleg "ehhh....nei..." Svo hugsa ég eftir á, ég hefði bara átt að ljúga og segja, heyrðu jú nú man ég eftir þér alveg rétt. En það var of seint. Þjónninn varð voða móðgaður yfir að ég skyldi ekki muna eftir honum, eða allavega þóttist hann vera það.
Ég verð greinilega að vera betur undirbúin næst þegar ég hitti einhvern kúnna sem ég man ekki eftir.

Annars er það að frétta af henni Dimmalimm að hún er algjör sólargeisli sem elskar fólk, börn og aðra hunda. Og það þýðir líka að hún vill fá að heilsa öllum, og flest allir vilja líka heilsa henni. Sem þýðir að það tekur endalausan tíma að komast leiðar sinnar. Hún hlýtur bráðum að verða stærri og ekki eins krúttleg..... það er eiginlega orðið leiðigjarnt hvernig fólk lætur. Ég er kannski að reyna að flýta mér en er stoppuð af annarri hverri manneskju "oh mæ goood, what a bjúútífúl pöppííí mússímússímússsímúss.....!!!" Svona er það víst að eiga fallegasta hvolp í heimi.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter