<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, október 06, 2007

MONSTER 

Greyið Gutti litli var síðan ekkert með kattabit eftir allt saman.
Hann hélt bara áfram að vera slappur þrátt fyrir sýklalyfin, og ég fór smám saman að hafa meiri og meiri áhyggjur. Hann er venjulega svo ógeðslega gráðugur, og bara það að hann vildi ekki snerta við matnum fannst mér meira en lítið grunsamlegt.

Þannig að ég tók hann með mér í vinnuna á þriðjudagsmorguninn. Ég sá náttúrulega fyrir mér að nú gæti ég sýnt öllum vinnufélögunum yndislega litla barnið mitt, og hann myndi auðvitað heilla alla upp úr skónum.

En annað kom á daginn...

Fyrst tókum við blóðprufu. Yfirhjúkkan, sem er með 30 ára reynslu í að halda brjáluðum köttum, varð að biðja aðra hjúkku um hjálp, og svo urðum við að snúa honum á hliðina svo hann gæti verið nógu kjurr fyrir mig til að taka blóðið. Hann var sko ekki sáttur við þessa meðferð, svo ég ákvað að leyfa honum að jafna sig, og sleppa því að setja hann á vökva í æð í bili.

Um kvöldið voru blóðprufusvörin komin aftur. Það virtist vera allt í lagi með nýru, lifur og allt annað, sem var léttir því þá var þetta líklega ekki nein eitrun. En hann var hins vegar "dehydrated", semsagt þjáðist af vatnsskorti, enda ældi hann galli mörgum sinnum þann daginn. Ég hafði bara ekki tekið eftir því áður, því hann hafði greinilega alltaf farið út til að æla meðan hann var heima.

Daginn eftir var hann með niðurgang og áfram með gubbupest. Ég sendi saursýni í rannsókn, gaf honum áfram sýklalyf, og ógleðis stillandi lyf. Og svo lögðum við í það verkefni að setja hann á vökva í æð. Hjúkkan sem hélt honum stóð sig eins og hetja, en hún sagði að hann væri alveg ótrúlega sterkur. Mér tókst að koma nálinni á réttan stað og vökvinn fór að flæða.

Þann daginn vildi hann enn ekkert borða en hann virtist samt hressari og ældi bara einu sinni yfir daginn. Um kvöldið ákváðum við Carla (spænska hjúkkan, vinkona mín) að smella af honum röntgen mynd. Gutti þekkir Cörlu mjög vel því hún hefur passað hann oft. En Gutti varð svo móðgaður yfir því að við ætluðumst til þess að hann lægi á hliðinni á meðan að ég héldi honum, að hann barasta sturlaðist og reyndi að bíta okkur báðar. Ég bara átti ekki til orð.
Það endaði með því að við deyfðum hann, einfaldasta lausnin fyrir bæði okkur og hann.
Það var enginn sjáanlegur aðskotahlutur á röntgenmyndinni eða annað sem útskýrði þessi veikindi hans.

Í gær var Gutti, loksins eftir næstum viku veikindi, orðinn hressari. Hann var hættur að æla og farinn að narta aðeins í matinn. Ég ákvað að taka hann heim, en þá kom að síðustu áskoruninni. Að taka sárabindið og nálina, sem sagt allt "vökva í æð-draslið".
Ég get varla lýst því hvernig hann hagaði sér. En það var svo slæmt að ég var orðin skíthrædd við hann. Hann öskraði og hvæsti og klóraði og barðist um á hæl og hnakka. Honum tókst að klóra mig, og beit næstum því hjúkkuna. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir tókst hjúkkunni einhvern veginn að rífa þetta bara af honum.

Og svo fór ég með hann heim.
Hálfmiður mín yfir því að planið um að sýna fallega og geðgóða köttinn minn hefði misttekist. Og ekki nóg með það heldur klóraði hann líka mig, mömmu sína! Ég var viss um að hann yrði í fýlu út í mig lengi vel eftir þetta.

En svo komum við heim, og Gutti var í essinu sínu. Malaði og vildi láta kela við sig og var bara hinn ánægðasti og ekkert fúll út í mig.

Hann Guttormur hefur fengið ýmis gælunöfn, eins og Guttelíus, Guttamús, Músin, Kallinn og Krúttelíus... en nú hefur nýtt nafn bæst í safnið: Monster!!

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter