<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, apríl 07, 2007

Enn og aftur hrakfallabálkur! 

Jæja, það hlaut að koma að því, ég varð náttúrulega að skoða bráðavaktina hér í Brighton. Ég var nánast fastagestur á bráðavöktunum í Reykjavík og Frederiksberg, svo af hverju ætti Brighton að vera einhver undantekning.

Sem sagt, ég mætti í vinnuna á miðvikudagsmorguninn og byrjaði að skoða köttinn Tigger, sem var einn af innlögðu sjúklingunum. Tigger greyið var með nýrnabilun, hjartabilun og ofvirkan skjaldkirtil, og eins og það væri ekki nóg þá var hún líka með sýkingu í munninum og ógeðslegar tennur. Eftir alla nauðsynlega skoðun fór ég að gefa henni pillurnar sínar en hún var eitthvað ósátt og ég var eitthvað klaufaleg við þetta, og henni tókst að lokum að bíta mig.

OHHHHH....hugsaði ég með mér, og byrjaði að skrúbba sárið með sótthreinsandi sápu. Maður fær undantekningalaust sýkingu af kattabitum, og af munninum á Tigger að dæma þá yrði þetta líklega slæm sýking.

Ég fór til læknis um hádegisbil og byrjaði á sýklalyfjum. Svo kláraði ég vinnudaginn eins og ég best gat, en átti erfiðara og erfiðara með að nota vinstri höndina. Tigger hafði bitið mig í þumalinn en mig var farið að verkja í hina fingurna líka. Svo fór ég loksins heim og borðaði dýrindis máltíð sem mamma og pabbi höfðu eldað fyrir mig (þau eru í heimsókn alla páskavikuna). Mér var ekki farið að lítast á blikuna því þumallinn var stokkbólginn og óhreifanlegur, mér var orðið illt í úlnliðnum, olnbogabót og undir handarkrikanum. Vitandi það að ein af hjúkkunum á spítalanum er með ónýta hönd eftir kattabit; þá fannst mér ekki ráðlegt að taka neinn séns.

Ég var komin upp á bráðavakt um hálf-tíu-leitið um kvöldið og þá tók við bið....og bið..... og enn meiri bið....Og meðan á allri biðinni stóð fór ég að finna fyrir beinverkjum. Ég var semsagt komin með hita. Um tvöleitið um nóttina komst ég loksins að og var sett á sýklalyf í æð, en það var ekkert pláss á spítalanum svo ég varð að dúsa á bráðavaktinni í óþægilegu rúmi, með engan kodda eða sæng, ískalt og sífelldar truflanir. Það var ekki mikill svefnfriður þá nóttina.

Daginn eftir var ég loksins færð upp á deild í almennilegt rúm. Ég var orðin hitalaus en puttinn var enn stokkbólginn og rauð rönd hafði myndast alveg upp í olnbogabót. Læknirinn nefndi að kannski þyrfti að framkvæma aðgerð til að hreinsa sýkinguna úr puttanum. Úff nei nei nei ... hugsaði ég.

24 tímum seinna (núna í morgun) var rauða röndin horfin og ég var farin að geta hreyft þumalinn aðeins, þannig að það var hætt við aðgerð (jei jei) og nú sit ég bara hér, á föstudagskvöldi, með sýklalyf í æð og er að skrifa þetta (tekur langan tíma með einni hendi).

Ég er auðvitað búin að fá heimsóknir frá mömmu og pabba, og svo kom Mena, ein af dýrahjúkkunum, í gær með blóm og “get well” kort frá öllum í vinnunni. Og svo kom einn af dýralæknunum í heimsókn til mín í dag, og ég hef líka fengið sms og símtöl frá fleirum. Ofsalega sætt af þeim öllum.

Ég var náttúrulega búin að panta gott veður fyrir mömmu og pabba, og það rættist. En ég er bara föst hér inni, ömurlega glatað. En ég vona að ég fái að fara eitthvað út á morgun...

TO BE CONTINUED.....


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter