<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, janúar 07, 2007

Kvefaði dýralæknirinn 

Hingað til hefur enginn í vinnunni minni heyrt mína eðlilegu rödd. Ég tala með rosalega sexý hásri whisky rödd sem stundum breytist í ekki eins sexý óstöðvandi hóstaköst. Versta kastið var í gær þegar ég var að bólusetja hund og eigandinn var að spurja mig að einhverju. Þegar ég ætlaði að svara fékk ég þennann svakalega hósta, og hann hélt áfram og áfram þangað til ég táraðist og náði ekki andanum og var farið að svima. Eigandinn horfði á mig með skelfingarsvip og vissi ekkert hvað hann átti að segja. Loks tókst mér að stynja upp "sorry" og fá mér vatnssopa, en það hjálpaði ekki mikið því ég hélt áfram að hósta. Ég man ekki alveg hvernig þessi ósköp enduðu (líklega vegna súrefnisskorts til heilans) en ég held ég hafi ekki náð að svara greyið manninum sem á endanum flúði fram í afgreiðslu til að borga.

Fyrir utan hóstaköstin, þá hefur bara verið gaman i vinnunni og ég nýt þess að vera komin á tiltölulega stóran vinnustað. Á dýralæknastofum á Íslandi eru starfsmenn ekki fleiri en 3-7, en á nýja vinnustaðnum mínum eru um 30 starfsmenn af báðum kynjum. Við erum 7 dýralæknar og ég er eini kvenmaðurinn. Svo eru um 15 dýrahjúkkur - allt stelpur/konur, og restin er afgreiðslu,skrifstofu eða ræstingafólk.
Það eru reyndar ekki allir til staðar í einu, því spítalinn er opinn allan sólarhringinn, alla daga. Á kvöldin, nætur og helgar sér spítalinn um bráðavaktina fyrir kúnna hjá 10 öðrum dýralæknastofum í nágrenninu, svo það er nóg að gera. Ég fæ hlutverkið "emergency vet" á laugardögum frá og með laugardeginum eftir 3 vikur, svo það verður örugglega stuð.

Við Ásberg erum ekki enn komin með íbúð, en búum til bráðabirgða í minnstu stúdíóíbúð sem ég hef séð, og sofum í 90 cm breiðu rúmi, sem ég hélt að væri ómögulegt...... en ótrúlegt en satt við sofum barasta dásamlega, við erum soddan samlokur.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter