<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Kattafár 

Jæja þá er ég komin á okkar ástkæra sker enn á ný. Og það er kalt.... en sólin skín og fjöllin eru dásamlega falleg.

Ásberg er með hreindýrafeld á svefnherbergisgólfinu. Og hreindýrið er greinilega búið að uppgötva það að vorið sé á næsta leiti, og tími til að fella öll vetrarhárin. Það eru allavega hár út um alla íbúð!!

Ég er auðvitað komin með lausn á vandamálinu....eða kannski er ekki hægt að kalla það lausn, það er meira svona að notfæra sér aðstæðurnar. Mér finnst allavega alveg tilvalið að fá sér kött, fyrst að hárin eru hvort eð er út um allt, nokkur kattarhár til eða frá gera ástandið allavega ekki verra.

Strax daginn eftir að ég kom til landsins dreif ég Ásberg greyið út í dýrabúð, og ekki bara eina, ég held við höfum skoðað allar gæludýraverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Það var reyndar Ásberg sem vildi skoða þær allar, mér fannst ein búð alveg nóg. En hans skoðun er, að fyrst að við þurfum að fá okkur kött á heimilið, þá verður allavega kattadótið að vera fallegt og í stíl við öll húsgögnin!! Jamm....hann um það, hehe. En nú erum við semsagt komin með allt sem lítill kettlingur gæti hugsanlega haft þörf fyrir.... en engan kettling!

Og ég sem hélt að það væri yfirleitt erfitt fyrir fólk að losna við kettlinga. Nei nei. Hvert sem ég hringi, þá heyri ég sama svarið "Nei þeir eru allir farnir"! Jafnvel þó að auglýsingin hafi komið upp samdægurs.

Ég ætla að fara í Kattholt núna á eftir, og vona það besta. Það er eitthvað svo sorglegt að horfa á allt kattadótið svona tómt og ónotað...

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter