fimmtudagur, mars 23, 2006
SPÍTALINN
Nú hef ég verið rúmar 2 vikur á spítalanum. Öllum finnst voða skrítið að ég sé mætt, og ég er spurð í sífellu af hverju ég vildi koma til Mexíco að fá starfsreynslu. Ég er alveg hræðileg í spænsku, en flestir eru mjög indælir og þolinmóðir við mig. Stundum er ég spurð að einhverju og ég svara örugglega einhverju allt öðru en ég var spurð um....af svip viðkomandi að dæma. Það talar eiginlega enginn ensku svo ég verð bara að reyna að bjarga mér á spænskunni. Um daginn ætlaði ég að segja, að ég vildi setja dropa í sprautuna, en sagði óvart að ég ætlaði að setja kött í sprautuna, sem sagt "gato" í stað "gota". Það horfðu allir mjög undarlega á mig. Svipað og þegar ég sagði á pósthúsinu að ég vildi kenna bréfið, í stað þess að senda bréfið, "enseñar" í stað "enviar".Fyrstu vikuna kom ég heim á hverjum degi með dúndrandi hausverk eftir alla spænskuna og allt erfiðið. En nú líður mér betur, og spænskan gengur pínulítið betur.
Alla síðustu viku var ég á færanlega spítalanum, sem er bíll sem er búið að breyta í pínkulítinn spítala, þar sem hægt er að gera aðgerðir og fleira. Við keyrðum í úthverfin í Mexíkó city, þar sem fátæka fólkið býr. Og svo settum við upp stand og skilti þar sem stóð að við buðum upp á ókeypis dýralæknaþjónustu, bólusetningar og geldingar. Svo kom fólk með hundana og kettina sína, og það var nóg að gera. Ég fékk meira að segja að gera nokkrar aðgerðir alveg sjálf.
Í þessari viku er ég á kennslu-skurðdeildinni. Hmmm...og hvað er nú það?? Já ég er nú ekki stolt af því að segja frá því. Ég hélt því fram að ég væri á leiðinni til Mexíkó að bjarga götuhundunum. Anders kærastinn hennar Rósu hélt að ég væri að fara til að drepa götuhundana, svo þeim fækkaði í Mexíkó borg. Ég fullvissaði hann um að svo væri ekki...en annað hefur komið á daginn. Á kennsluskurðdeildinni eru nefnilega notaðir götuhundar fyrir dýralæknanema, og nýútskrifaða dýralækna til að æfa sig í hinum ýmsu skurðaðgerðum. Þeir eru svæfðir eins og um venjulega aðgerð væri að ræða, en að lokinni aðgerð eru þeir ekki vaktir, heldur gefið "overdose" af svæfingarlyfi.
Þetta er náttúrulega pínu sorglegt, en á hinn bóginn þá yfirgefa þeir sultarlífið á götunni í þágu góðs...eða ég reyni allavega að hugsa þannig til að réttlæta þetta.
Ég fékk á mánudaginn að gera aðgerð sem ég hefði áreiðanlega aldrei fengið að gera á Íslandi eða í Danmörku. Það var sem sagt, beinaðgerð með styrktarteinum á fótbroti. Aðgerðin heppnaðist vel, af röntgenmyndunum að dæma...sjúklingurinn lifði þó ekki af.
-