<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 27, 2006

“Me gusta la lluvia - me gustas tu!" 

Vorið er komið til Mexíkó, vordagurinn fyrsti var síðastliðinn þriðjudag. En síðan vorið kom, hefur verið skýjað og meira að segja rigning af og til. Við fórum á Manu Chao tónleika í rigningunni í gær. Við vorum 14 manns í "camionetta" og leiðin lá á Zócalo, aðaltorgið niðri í miðbæ. Þar voru samankomin milli 100 og 200 þúsund ungmenni, og slatti af lögreglumönnum. Það má ekki drekka áfengi á almannafæri, og lögreglan tekur yfirleitt strangt á því, þannig að aðalsportið er að kaupa sér kaffi með loki á 7-11 og fylla síðan kaffibollana með áfengi. Í gær virtist lögreglan ekki hafa mestar áhyggjur af áfenginu, heldur flöskunum, þannig að við komumst í gegn um lögregluleitina með fullt af plastpokum fylltum af bjór. Mjög spes....svolítið erfitt að drekka úr plastpoka.
Tónleikarnir voru skemmtilegir, ég kannaðist samt ekki við öll lögin því ég á bara gamla diskinn. En það var svaka stuð á torginu og allir öskruðu "me gustas tu" í kór.

Á laugardaginn fór ég á mjög skemmtilegt sveitaball í miðri borginni. Í norður Mexíkó er dansað svo kallað "Banda" sem er frekar einfaldur dans, minnir pínulítið á Merenge, en tónlistin er allt öðruvísi. Ég fór með Thomas frá Austurríki, Katarina frá Þýskalandi og Fernando frá Mexíkó.
Asni við innganginn, hey á gólfinu, kúrekastígvél og kúrekahattar...allt þetta gerði stemninguna alveg frábæra. Ég var fljót að ná sporunum og við dönsuðum langt fram eftir nóttu.

Það er til svo mikið af dönsum hérna, miklu fleiri en ég hélt. Það er ekki bara salsa, merenge og chachahca, heldur líka banda og cumbia og fullt af fleirum sem ég man ekki hvað heita. Og ekki nóg með það, heldur dansar fólk ekki alltaf eins salsa. Og enginn dansar salsa eins og ég lærði í Ecuador og Guatemala. Sem þýðir að ég er stundum alveg eins og fífl á dansólfinu að dansa allt önnur spor heldur en dansfélaginn, sem kemur frekar illa út. Eins og Juan Carlos orðar það: "No puedo bailar contigo"
Við fórum á Mama Rumba fyrir viku síðan, heitasta salsastað borgarinnar. Ég skemmti mér konunglega þrátt fyrir misheppnuð dansspor af og til. Daginn eftir var fiesta í miðbænum, útitónleikar hér og þar, og við löbbuðum á milli. Á aðalsviðinu var einhver voða fræg salsahljómsveit, og allir byrjuðu að dansa salsa. Ég var með Kim og fullt af vinum hans úr háskólanum, og þau byrjuðu öll að sveifla mjöðmunum og dansa eins og þau ættu lífið að leysa. Eftir tvær eða þrjár misheppnaðar tilraunir til að dansa, ákvað ég að ég yrði að fara í salsakennslu!

Og nú er ég byrjuð í einkatímum hjá Ivan, sem er frá Kúbu. Fyrsti tíminn var mjög fyndinn. Hann lét mig gera alls konar æfingar, sem minnti mig meira á leikfimi æfingar heldur en dans. Ég var alveg að því komin að segja við hann að þetta væri nú ekki salsa eins og mig langaði að dansa. En allt í einu small þetta saman og leikfimiæfingarnar urðu að dansi.....svolítið eins og "Karate-kid" haha.
Næsti tími er á morgun, og ég bíð spennt.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter