<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 15, 2006

Los Puercos 


Það er veitingastaður/kaffihús á hostelinu, og þangað kemur margt ungt fólk á daginn og kvöldin. Í gærkvöldi kynntist ég tveimur mexíkönskum stelpum sem voru þar, Sofia og Adriana. Þær vildu endilega fara á annað kaffihús, og buðu mér og ísraelskum strák (sem ég man aldrei hvað heitir) með sér. Fyrst ætluðum við á einhvern stað í nágrenninu, sem stelpurnar vissu bara adressuna á. Sofia var á bíl, og Adriana á heima í hverfinu þannig að maður myndi halda að hún vissi svona nokkurn veginn hvar þetta væri....en nei. Enginn mexíkani ratar í borginni. Við keyrðum um hverfið (sem er stórt) í klukkutíma, stoppuðum öðru hverju og spurðum fólk til vegar. Spurðum meira að segja lögguna

"Vamos a preguntar los puercos" - Spyrjum svínin.

Hérna kallar fólk lögguna svín. Og það er góð ástæða fyrir því. Ef löggan stoppar þig, þá er öruggast að reyna að múta henni, því annars veistu ekki hvað lögreglumennirnir eiga eftir að gera við þig. Þeir geta hent þér í fangelsi, eða nauðgað þér eða lamið þig eða jafnvel drepið þig. Einu sinni komu nokkrir lögreglumenn að vini Sofiu þar sem hann var að reykja hass með kærustunni þinni. Þeir sögðu við hann að hann mætti velja, annað hvort færi hann í fangelsi, eða þeir myndu nauðga kærustunni hans. Hann varð auðvitað reiður, auðvitað mættu þeir ekki nauðga kærustunni hans. En hann vildi heldur ekki í fangelsi svo hann bauð þeim nóg af peningum og þá voru þeir sáttir.
Ef löggan stoppar þig keyrandi undir áhrifum, þá geturðu valið, annað hvort að borga og fá að halda áfram að keyra, eða blása í blöðru og missa ökuleyfið. ÚFF. Umferðin hérna er nógu slæm....og ef fólk er að keyra drukkið í ofaníkaup.....jahérna hér.

Jæja, við fundum semsagt ekki staðinn, því enginn gat sagt okkur til vegar. Svo við fórum í Coyacan, sem er næsta hverfi, rosalega kósí með fullt af kaffihúsum. Við skemmtum okkur fram eftir kvöldi. Ég drakk svolítið, Sofia drakk 5 bjóra!!! Ég var skíthrædd á leiðinni heim, en Sofia sagði bara: "Ég keyri svo vel...jafnvel bara betur þegar ég er full!" ÚFF, sem betur fer var þetta ekki langt.

Í morgun spurði ég Dr.Carlos Martines hvort að margir hérna keyrðu fullir. Svo sagði ég honum frá ævintýri mínu frá því í gærkvöldi og hann svaraði:
"Drakk hún bara 5 bjóra? Það er nú ekki neitt"
"Ekki neitt! Þetta er lítil og grönn stelpa, hún var orðin full"
"Það er alveg löglegt að keyra hérna eftir 4 bjóra, eða tvo sterka drykki" sagði Carlos.
"Það má ekki drekka neitt áður en maður keyrir á Íslandi!"
"Ekki neitt??? Ekki einu sinni einn bjór?? Og undrunin skein úr augum Carlos.

Það eru greinilega aðeins öðruvísi viðhorf til drykkju og aksturs hér, miðað við Ísland.
Ussussuss

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter