<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 30, 2006

DAGO... 


...er hundurinn á hostelinu. Rottveiler er nú ekki mín uppáhaldshundategund, og okkur Dago leist nú ekkert ofurvel á hvort annað til að byrja með. En nú hef ég komist að því að hann er ágætisgrey og hann er líka búinn að taka mig í sátt, dillar meira að segja rófustubbnum þegar ég kalla á hann.

Fyrir svolitlu síðan voru fjarlægðar ansi margar tennur öðru megin í munninum hans. Þess vegna hangir tungan alltaf út þeim megin....sem mér finnst fínt því það gerir hann meira krúttlegan heldur en vígalegan.
Í síðustu viku var Juan Carlos alveg miður sín og kallaði á mig. Hann vildi að ég skoðaði Dago, því hann var hóstandi í sífellu. Mér fannst hann líta hress út, hann borðaði og drakk eðlilega, svo ég sagði að þetta væri nú örugglega ekkert alvarlegt. Svo ætlaði ég að skoða hann eitthvað nánar, en þá urraði hann svo svakalega að mig langaði ekkert að hætta lífi mínu og limum fyrir einhvern hund með smá kvef.

Daginn eftir var Dago ennþá hóstandi, og Juan Carlos var farinn í fýlu út í mig fyrir að vilja ekki lækna hundinn sinn. "Og þú þykist vera dýralæknir..hnuss..."
"Jæja þá" sagði ég og fékk Kim til að halda Dago. Dago var ekki með hita en annar hálskirtillinn var stækkaður....og Juan Carlos hætti ekki að suða í mér fyrr en ég sagði honum hvaða sýklalyf hann ætti að kaupa og hversu mikið. (Það er hægt að kaupa nánast allt án lyfseðils hérna.) En ég tók það skýrt fram að ef Dago yrði ekki góður eftir viku, þá yrði að fara með hann á spítalann, til að rannsaka hann betur. Það eru takmörk fyrir því hversu mikið maður getur gert með hitamæli, hlustunarpípu og höndunum einum saman.

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter