<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Jugos.... 

...de naranja, fresa, mansana, mora...
Alls konar JUGOS!! Ferskir safar! Það var uppáhaldið mitt í Ecuador forðum daga, enda það eina æta sem þeir kunnu að búa til.
Hér í Mexíkó virðist þetta líka vera nokkuð algengt, og ég ákvað að láta á reyna. Ég bað um jugo de fresa (jarðarberja) og eitthvað annað rautt sem ég vissi ekki hvað var. En eftir fyrsta sopann vissi ég það - OJ... Rauðrófu-jarðarberjasafi, mjög áhugaverð blanda. Mæli ekki með því.

Við fórum á risastóran markað í Oaxaca, þar sem hægt var að fá allt milli himins og jarðar - en það var lífsins ómögulegt að prútta við afgreiðslufólkið. Ég hélt annars að það væri venjan í þessum S-Ameríku löndum, ég var allavega orðin nokkuð góð í því í Ecuador. Við keyptum lítinn gítar sem Ási litli getur leikið sér að. Markaðurinn var eins og völundarhús og okkur tókst að rammvillast. Enduðum í einhverju vafasömu hverfi þegar við komum út af markaðnum. En okkur tókst að rata aftur á hótelið.

Í Oaxaca var allt krökkt af túristum, og annar hver með nefið niðri í sömu bók og við: Lonely Planet Mexico.

Við fórum að skoða eldgamlar indíánarústir í fyrradag. Það var glampandi sól og við vorum eins og skandinavísk endurskinsmerki. Eitthvað hefur sólarvarnar smurningurinn misfarist, því nú lítum við út eins og tveir danskir fánar. Nú erum við komin niður á strönd - Zipolite - og það er hlegið að okkur hægri vinstri og okkur sagt að passa okkur á sólinni.

Hér eru allir rosalega sólbrúnir (nema við) og það er ekkert sem heitir bikinífar eða stuttbuxnafar. Flestir labba um, synda og liggja á ströndinni NAKTIR!! Við höfum hingað til haldið í gömlu góðu sundfötin.


Zipolite er algjör paradís, og við gistum á frekar frumstæðu en mjög exotic og kósí hóteli, Lo Cosmica. Það er ótrúlega rólegt hérna og allir liggja bara í einhverju tranquil móki með jugo eða cerveza við höndina. En við pössum okkur á sjónum, því kyrrahafs straumurinn er rosalega sterkur, það druknar fólk hérna á hverju ári.

Hasta luego

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter