<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, desember 31, 2005

Nýtt ár - nú með dópi! 

Þá eru gleðileg jólin langt gengin og nýja árið nálgast óðfluga. Ég fékk marga fína pakka þrátt fyrir að kerti og spil hafi ekki verið innihald þeirra í ár. Meðal annars fékk ég þennan líka fína MP3 spilara sem stytti mér stundirnar í lestinni til og frá Jótlandi núna milli jóla og nýárs (ég var nefnilega að vinna þar). Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema það að ég hló svolítið að sjálfri mér þegar ég fattaði að ég er greinilega ekki af i-pod kynslóðinni. Ég er ekki vön að heyra tónlist sem enginn annar heyrir í kringum mig, svo ég stóð sjálfa mig að því oftar en einu sinni að vera byrjuð að syngja með....eflaust til mikillar skemmtunar fyrir aðra lestarfarþega.

Ég veit ég er alltaf að tala um það, en nú segi ég það enn og aftur: Ég er aaaaaaalveg að verða dýralæknir. Nú eru aðeins 3 dagar í stóru stundina, síðasta prófið sem er fæðingarhjálp hjá hundum, hestum, svínum, beljum, rollum, geitum og kisum. Ég geri auðvitað ráð fyrir því að ná prófinu, enda kemur ekkert annað til greina, ég ÆTLA bara að klára þetta.

Ég hlakka mjög mikið til að geta kallað mig dýralækni. En þá fer ég að velta fyrir mér, er einhver hamingja fólgin í því? Jú jú auðvitað, þá fer ég loksins að gera það sem mig hefur alltaf langað til að gera, og já þá hlýtur allt að verða miklu skemmtilegra...eða hvað? Mér brá aðeins í brún þegar ég las nýlega breska rannsókn á sjálfmorðstíðni hjá mismunandi starfsstéttum. Sjálfsmorðstíðni dýralækna var 2 sinnum hærri en hjá tannlæknum, og 4 sinnum hærri en hjá fólki almennt. Skýringin? Tja, það var ekki alveg ljóst, en hugsanleg skýring var að margir dýralæknar vinna einir á stofu og verða þ.a.l. einmana! Einnig þótti líklegt að þar sem dýralæknum fyndist svo eðlilegt að aflífa dýr, og væru með lyf til aflífunar við höndina, þá væri þetta jú svo einfalt...! Hmmmm...ég verð nú að viðurkenna að mér finnst ekkert freistandi að prófa læknadópið bara af því að ég get það. Og ég hef svo sem engar áhyggjur af sjálfri mér, en það er bara svolítið spes tilhugsun að eftir 3 daga er ég orðin hluti af áhættuhópi.

Og með þessum upplífgandi upplýsingum vil ég óska ykkur öllum gleðilegs og gæfuríks komandi árs.
Ár 2006 "Here I come"


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter