<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

fyrir "langa löngu".... 

Fyrir sex árum síðan var ég ung og saklaus, nýbyrjuð í hinum konunglega dýralæknaskóla í Kaupmannahöfn og var ekkert smá ánægð með lífið og tilveruna. Ég var byrjuð í náminu sem mig hafði alltaf dreymt um og framtíðin var björt og falleg. Eitt sinn á ósköp venjulegum skóladegi gekk ég inn í tölvustofuna ásamt Huldu vinkonu, og þar sem við vorum að blaðra saman á íslensku vorum við ávarpaðar á okkar gullfallega móðurmáli. Við litum við og sáum vægast sagt þreytulega stúlku, með úfið hár og bauga undir augunum. Hún sagðist vera dýralæknanemi á síðasta ári, og væri í þann mund að skrifa lokaritgerðina. Við vorum forvitnar að vita meira um námið og spurðum þessa ágætu stúlku hvernig henni hefði nú líkað. Hún leit djúpt í augun á okkur og sagði alvarlegri röddu: "þetta er rosalega erfitt nám..... og verður bara erfiðara og erfiðara og erfiðara..." Meira fengum við ekki upp úr henni því hún snéri sér aftur að ritgerðarsmíðinni.

Mér hefur oft verið hugsað til þessara orða síðastliðin ár, sérstaklega á erfiðum tímabilum í náminu. En samt sem áður vona ég að ég hafi aldrei verið svona bitur og neikvæð. Og jafnvel þó að ég hafi oft bitsast út af náminu, þá myndi mér aldrei detta í hug að segja nokkuð þvíumlíkt við nýbyrjaða dýralæknanema. Jú það hefur oft verið erfitt, og jú það hefur ekki verið geðslegt að fá kúamykju í andlitið og jú ég var oft að verða geðveik meðan ég skrifaði lokaritgerðina. En það hefur líka verið oft á tíðum gaman, og ég hef eignast fullt af góðum vinkonum og vinum í skólanum. Og þetta hefur allt saman verið þess virði, því nú er ég búin með ritgerðina og á bara tvö próf eftir um jólin OG ÞÁ ER ÉG ORÐIN DÝRALÆKNIR!!!

Sem sagt, ég er ennþá ung og saklaus, ánægð með lífið og tilveruna, og framtíðin blasir við mér björt og falleg með fullt af spennandi tækifærum og möguleikum.
ÉG vil hérmeð nota tækifærið og bjóða öllum sem þekkja mig í útskriftarveislu í Kaupmannahöfn, þann 28.janúar 2006. Bergrós og Davíð eru búin að kaupa flugmiða... algjört æði að eiga vini sem leggja land undir fót til að mæta í partý!!



Miranda: Maybe it's time that I stop being so angry.
Carrie: Yeah, but what would you do with all your free time?

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter